III. KAFLI
Efnahagsreikningur, rekstrarreikningur og sjóðstreymi.
14. gr.
(1) Á efnahagsreikning eru færðar eignir og skuldir, þ.m.t. skuldbindingar og eigið fé sem er mismunur eigna og skulda.
(2) Eign skal færð á efnahagsreikning þegar líklegt er að félagið hafi af henni fjárhagslegan ávinning í framtíðinni og virði hennar má meta með áreiðanlegum hætti.
(3) Skuld skal færð á efnahagsreikning þegar líklegt þykir að til greiðslu hennar komi og virði hennar má meta með áreiðanlegum hætti.
(4) Við útreikning og mat á eignum og skuldum skal taka tillit til allra aðstæðna, þ.m.t. áhættu og taps, sem í ljós koma áður en ársreikningur er saminn. Jafnframt er heimilt að taka tillit til fyrirsjáanlegrar áhættu og taps sem í ljós kemur áður en ársreikningur er saminn.
[…]1)
1)Sbr. 11. gr. laga nr. 73/2016.
(1) [Félög mega að uppfylltum ákvæðum settra reikningsskilareglna telja til eignar óefnislegar eignir og skal þeirra þá getið í skýringum. Óheimilt er að eignfæra kostnað sem fallið hefur til vegna óefnislegrar eignar og gjaldfærður hefur verið á fyrri reikningsárum.
(2) Félög sem eignfæra þróunarkostnað skv. 1. mgr. skulu færa sömu fjárhæð af óráðstöfuðu eigin fé á sérstakan lið meðal eigin fjár sem óheimilt er að úthluta arði af. Þann lið skal leysa upp til jafns við fjárhæð árlegrar afskriftar eignfærðs þróunarkostnaðar. Einnig skal leysa upp liðinn ef eignin er seld, tekin úr notkun eða fullafskrifuð.]1)
1)Sbr. 12. gr. laga nr. 73/2016.
Kostnað við stofnun félags eða hækkun hlutafjár má ekki færa til eignar.
Afföll og lántökukostnað af seldum eða keyptum verðbréfum [skal]1) færa í efnahagsreikning og skulu þá færð til gjalda eða tekna með reglubundnum hætti á lánstímanum. Gera skal grein fyrir eftirstöðvum af þessari dreifingu í skýringum.
1)Sbr. 13. gr. laga nr. 73/2016.
Eigin hlutir skulu færðir til lækkunar á heildarhlutafé. […]1)
1)Sbr. 14. gr. laga nr. 73/2016.
Allar tekjur og öll gjöld reikningsársins skulu koma fram á rekstrarreikningi nema lög þessi eða settar reikningsskilareglur kveði á um annað.
[…]1)
1)Sbr. 15. gr. laga nr. 73/2016.
Tekjur og gjöld, sem tengjast ekki reglulegri starfsemi, skal sýna sérstaklega í rekstrarreikningi og greina frá eðli þeirra í skýringum nema um óverulegar fjárhæðir sé að ræða. Tekjur og gjöld, sem varða fyrri reikningsár, skulu færast til breytinga á óráðstöfuðu eigin fé í ársbyrjun þegar um er að ræða skekkju eða breytingu á reikningsskilaaðferð. Samanburðarfjárhæðum skal þá breytt til samræmis nema það sé bundið sérstökum vandkvæðum og skal það þá upplýst í skýringum.
(1) Varanlegir rekstrarfjármunir, sem nýtast takmarkaðan tíma vegna aldurs, úreldingar eða slits eða af hliðstæðum ástæðum, skulu afskrifaðir árlega á kerfisbundinn hátt á áætluðum [nýtingartíma]1) þeirra. [Val á afskriftarfjárhæð skal miðast við notkun eignar á nýtingartíma hennar. ]1) Ef þessir fjármunir eru endurmetnir samkvæmt ákvæðum 31. gr. ber að hækka afskriftarstofn þeirra um þá endurmatshækkun. Þetta á þó ekki við um eignir sem færðar eru á gangvirði skv. 39. gr.
(2) Afskrift skal reikna með hliðsjón af væntanlegu lokavirði eftir að notkunartíma lýkur.
1)Sbr. 16. gr. laga nr. 73/2016.
(1) [Kostnaður, sem eignfærður er, sbr. 16. gr., vegna óefnislegra eigna, skal afskrifaður með kerfisbundnum hætti á áætluðum nýtingartíma viðkomandi eigna. Val á afskriftaraðferð skal miðast við notkun á viðkomandi eign á nýtingartíma hennar. Ef þessar eignir hafa ekki ákveðinn nýtingartíma er þó heimilt að meta þær árlega í samræmi við settar reikningsskilareglur og skulu þær sæta árlegu virðisrýrnunarprófi eða oftar ef vísbendingar um virðisrýrnun hafa komið fram. Ávallt skal afskrifa viðskiptavild á 10 árum og einnig skal afskrifa þróunarkostnað á 10 árum ef ekki er hægt að skilgreina nýtingartíma hans.
(2) Ef það er sérstökum vandkvæðum bundið að ákvarða nýtingartíma óefnislegrar eignar skal miða við að nýtingartími eignarinnar sé 10 ár og jafnframt skal í skýringum greina frá ástæðum fyrir vandkvæðum við að áætla nýtingartímann.]1)
(3) Sé áætlaður nýtingartími lengri en fimm ár skal gera grein fyrir ástæðum þess í skýringum.
1)Sbr. 17. gr. laga nr. 73/2016.
(1) Áætlaður hagnaður af samningi um langtímaverkefni skal innleystur hlutfallslega eftir því sem verkefninu miðar. Áætlað tap á samningi um langtímaverkefni skal gjaldfært strax.
(2) Þegar ekki er hægt að áætla hagnað eða tap á samningi um langtímaverkefni af nægilegri nákvæmni skulu tekjur af samningnum aðeins innleystar að því marki sem þær standa undir kostnaði við verkefnið. Kostnaður skal gjaldfærður þegar hann fellur til.
(1) Gjöld, sem stofnað er til á reikningsárinu en varða síðari reikningsár, skal færa til eignar í efnahagsreikningi sem fyrirframgreiddan kostnað. Tekjur, sem innheimtar hafa verið á reikningsárinu en varða síðari reikningsár, skal færa til skuldar í efnahagsreikningi sem fyrirframinnheimtar tekjur. Ef þessir liðir nema verulegum fjárhæðum skulu þeir sýndir sérstaklega eða þeirra getið í skýringum í ársreikningi.
(2) Gjöld, sem varða reikningsárið en koma til greiðslu síðar, skal færa til skuldar í efnahagsreikningi. Tekjur, sem varða reikningsárið en innheimtast eftir lok þess, skal færa til eignar í efnahagsreikningi. Ef þessir liðir nema verulegum fjárhæðum skulu þeir sýndir sérstaklega eða þeirra getið í skýringum í ársreikningi.
(1) Færa skal til gjalda og skuldar fjárhæðir sem ætlað er að mæta útgjöldum vegna skýrt skilgreindra skuldbindinga, svo sem skattskuldbindinga og eftirlaunaskuldbindinga, sem varða reikningsárið eða fyrri ár og eru sennilega eða örugglega áfallnar á reikningsskiladegi en óvissar að því er fjárhæð varðar eða hvenær þær falla til greiðslu, jafnvel þótt slíkt komi fyrst í ljós eftir lok reikningsárs en áður en ársreikningur er saminn. Þær skulu ekki nema hærri fjárhæð en nauðsynlegt er talið.
(2) Skuldbindingar skv. 1. mgr. má eigi nota til matsbreytinga á eignum eða jafna á móti eignum.
(1) [Ársreikningur félaga skv. c- og d-lið 11. tölul. 2. gr. skal innihalda sjóðstreymisyfirlit.]1) Í yfirliti um sjóðstreymi skal færa inn- og útgreiðslur á árinu, án tillits til þess hvenær færslan fer fram á rekstrar- og efnahagsreikningi.
(2) Yfirlitið skal greina frá sjóðstreymi á tilteknu tímabili og skal það flokkað í rekstrar-, fjárfestingar- og fjármögnunarhreyfingar. Enn fremur skal yfirlitið sýna sérstaklega breytingar á handbæru fé og handbært fé við upphaf og lok reikningsárs.
(3) Tilgreina skal samsvarandi fjárhæðir vegna liðanna á fyrra reikningsári. Ef liðirnir eru ekki sambærilegir við liði á fyrra ári skal aðlaga þá síðarnefndu. Sleppa má að aðlaga samanburðarfjárhæðir ef þær eru ósambærilegar vegna breytinga á starfsemi. Liði á sjóðstreymisyfirliti, sem innihalda ekki neina fjárhæð, skal aðeins taka með ef slíkur liður var í reikningsskilum fyrra reikningsárs.
1)Sbr. 18. gr. laga nr. 73/2016.