Skattalagasafn ríkisskattstjóra 28.3.2024 22:54:37

Lög nr. 145/1994, kafli 1 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=145.1994.1)
Ξ Valmynd

I. KAFLI
Bókhaldsskylda.

1. gr.

(1) Eftirtaldir aðilar eru bókhaldsskyldir:

  1. hlutafélög, [einkahlutafélög]1) og önnur félög með takmarkaðri ábyrgð félagsaðila;
  2. samvinnufélög og samvinnusambönd, gagnkvæm vátrygginga- og ábyrgðarfélög og önnur félög með breytilegan höfuðstól og breytilega félagatölu;
  3. sameignarfélög og önnur félög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsmanna;
  4. [sparisjóðir]1);
  5. hvers konar fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkis eða sveitarfélaga sem stunda atvinnurekstur;
  6. þrotabú og önnur bú sem eru undir skiptum ef þau stunda atvinnurekstur;
  7. hvers konar önnur félög, sjóðir og stofnanir sem stunda atvinnurekstur eða hafa á hendi fjáröflun eða fjárvörslu;
  8. hver sá einstaklingur sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
     

(2) Þegar tveir eða fleiri aðilar standa saman að afmörkuðum rekstri í tengslum við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er heimilt að færa sameiginlegt bókhald um samreksturinn. Niðurstöður sameiginlega bókhaldsins skulu færðar sundurliðaðar á viðeigandi reikninga í bókhaldi hvers samrekstraraðila að réttri tiltölu svo oft sem þurfa þykir.

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 48/2005.

2. gr.

Þeir sem skyldir eru að færa bókhald skv. 1. gr. skulu halda tvíhliða bókhald, sbr. þó 3. gr.

3. gr.

(1) Undanþegnir skyldu til að færa tvíhliða bókhald eru þeir einstaklingar sem nota ekki meira aðkeypt vinnuafl við starfsemi sína en sem svarar einum starfsmanni að jafnaði og stunda eftirtalda starfsemi:

  1. útgerð á bátum undir 10 rúmlestum;
  2. verkun sjávarafla ef meiri hluti sölu hans fer fram fyrir milligöngu afurðasölufyrirtækis;
  3. búrekstur ef meiri hluti sölu afurða fer fram fyrir milligöngu afurðasölufyrirtækis;
  4. akstur leigu-, sendi-, vöru- og fólksflutningabifreiða, svo og rekstur vinnuvéla;
  5. iðnað, þar með talda viðgerðarstarfsemi;
  6. þjónustu þar sem fyrst og fremst er seld vinna eða fagleg þekking og ekki er um fjárvörslu að ræða í tengslum við selda þjónustu. 

(2) Undanþegin skyldu til að færa tvíhliða bókhald eru enn fremur félög, sjóðir og stofnanir, sbr. 7. tölul. 1. gr., sem stunda ekki atvinnurekstur ef tekjur þeirra eru eingöngu framlög sem innheimt eru hjá félagsaðilum og ganga til greiðslu á sameiginlegum útgjöldum, þar með töldu aðkeyptu vinnuafli sem svarar til allt að einum starfsmanni að jafnaði.

(3) Ef aðili er skyldur til að halda tvíhliða bókhald vegna einhvers þáttar starfsemi sinnar skal það eiga við um allan atvinnurekstur hans.
Þeir bókhaldsskyldir aðilar, sem undanþegnir eru skyldu til að halda tvíhliða bókhald samkvæmt þessari grein, skulu færa þær bækur sem greinir í 5. mgr. 10. gr.

4. gr.

Bókhaldsskyldir aðilar skulu haga bókhaldi sínu á skýran og aðgengilegan hátt og semja ársreikninga í samræmi við lög, reglugerðir og [settar reikningsskilareglur]1).

1)Sbr. 2. gr. laga nr. 48/2005.

5. gr.

Stjórnendur þeirra félaga, sjóða og stofnana, sem um ræðir í 1.-7. tölul. 1. gr., og þeir sem ábyrgð bera á starfsemi skv. 8. tölul. 1. mgr. 1. gr., sbr. og 2. mgr. 1. gr., skulu sjá um og bera ábyrgð á að ákvæðum laga þessara og reglugerða samkvæmt þeim verði fullnægt.
 

Fara efst á síðuna ⇑