Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.10.2024 20:22:03

Reglugerð nr. 436/1998 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=436.1998)
Ξ Valmynd

 

Þann 1. mars 2013 færðist framkvæmd með lögum nr. 97/1987 alfarið yfir til tollstjóra, sbr. lög nr. 156/2012. Í kjölfarið var gerð breyting á reglugerð nr. 436/1998 með reglugerð nr. 822/2013. Af þessum sökum er þessi reglugerð ekki uppfærð á vef ríkisskattstjóra.


Reglugerð
nr. 436/1998, um vörugjald.*1)

*1)Sbr. reglugerðir nr. 52/2000 og 84/2007.

I. KAFLI
Gjaldskyldar vörur og undanþágur.

1. gr.
Gjaldskyldar vörur.

(1) Greiða skal í ríkissjóð vörugjald af innfluttum vörum og vörum sem eru framleiddar, unnið er að eða er pakkað innanlands.

(2) Gjaldskyldan nær til vara, nýrra sem notaðra, sem flokkast undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í viðauka I við lög nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

(3) Við flokkun til gjaldskyldu skal fylgt flokkunarreglum tollalaga nr. 55/1987*1).

(4) Skattstjórar og innlendir framleiðendur vöru geta óskað eftir ákvörðun tollstjóra um tollflokkun framleiðsluvöru samkvæmt ákvæðum 142. gr. tollalaga*2). Skattstjóri og framleiðandi geta skotið ákvörðun tollstjóra um tollflokkun vöru til ríkistollanefndar, sbr. 101. gr. tollalaga*3). Ákvörðun tollyfirvalda um tollflokkun er bindandi fyrir framleiðanda og skattyfirvöld.

*1)Sjá nú tollalög nr. 88/2005. *2)Nú 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. *3)Nú 188. gr. tollalaga nr. 88/2005.

2. gr.
Undanþágur.

(1) Vörur sem seldar eru úr landi eru ekki gjaldskyldar. Sala á gjaldskyldum vörum til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sbr. lög nr. 110/1951, og sala í tollfrjálsum verslunum, sbr. VIII. kafla tollalaga*1), telst sala úr landi í skilningi reglugerðar þessarar. Sala til einstakra varnarliðsmanna er hins vegar gjaldskyld samkvæmt almennum reglum.

(2) Sala á hráefni eða efnivöru til handhafa vörugjaldsskírteina er undanþegin vörugjaldi samkvæmt ákvæðum V. kafla. Jafnframt vörusala til sérstaklega skráðra heildsala, sbr. 3. mgr. 9. gr.

(3) Vörur sem um ræðir í 5. gr. tollalaga*2), eru ekki gjaldskyldar við tollafgreiðslu, enda sé gætt þeirra skilyrða sem að öðru leyti gilda um tollfrelsi þessara vara. Þeir sem um ræðir í 3. gr. tollalaga*3) eru og undanþegnir gjaldskyldu við innflutning, enda fullnægi þeir settum skilyrðum um tollfrjálsan innflutning. Um innflutning sérstaklega skráðra heildsala fer eftir 3. mgr. 9. gr.

*1)XIII. kafli tollalaga nr. 88/2005. *2)Nú 6. gr. tollalaga nr. 88/2005. *3)Nú 4. gr. tollalaga nr. 88/2005.

II. KAFLI
Gjaldflokkar og gjaldstofn.

3. gr.
Gjaldflokkar og gjaldstofn magngjalds.

     Af vörum sem flokkast undir tollskrárnúmer í A lið viðauka I við lög um vörugjald skal greiða vörugjald fyrir hvert kílógramm vörunnar án umbúða, eftir því sem tilgreint er í viðaukanum. [---]1)

1)Sbr.1. gr. reglugerðar nr. 84/2007.

4. gr.
Gjaldflokkar verðgjalds.

     Af vörum sem flokkast undir tollskrárnúmer í C lið viðauka I við lög um vörugjald skal greiða 15% vörugjald. Af vörum sem flokkast undir tollskrárnúmer í D lið viðaukans skal greiða 20% vörugjald. Af vörum sem flokkast undir tollskrárnúmer í E lið viðaukans skal greiða 25% vörugjald.

5. gr.
Gjaldstofn verðgjalds við innflutning.

     Gjaldstofn vörugjalds af innfluttum vörum, sem flokkast undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í C-E liðum í viðauka I við lög um vörugjald er tollverð þeirra eins og það er ákveðið í 8.-10. gr. tollalaga*1), að viðbættum tollum eins og þeir eru ákveðnir samkvæmt þeim lögum.

*1)Nú 14.-16. gr. tollalaga nr. 88/2005.

6. gr.
Gjaldstofn verðgjalds af innlendri framleiðsluvöru.

(1) Gjaldstofn vörugjalds af vörum sem framleiddar eru, unnið er að eða er pakkað innanlands og flokkast undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í C-E liðum í viðauka I við lög um vörugjald er verksmiðjuverð þeirra.

(2) Verksmiðjuverð er söluverð vöru frá framleiðanda án frádráttar nokkurs kostnaðar eða þjónustugjalds.

(3) Samsvari verksmiðjuverð ekki heildarandvirði vöru, t.d. vegna þess að kaupandi eða annar framleiðandi leggur til hráefni, efnivörur eða annað verðmæti sem vörugjald hefur ekki þegar verið greitt af, skal heildarandvirði vörunnar teljast gjaldstofn til vörugjalds.

(4) Ef framleiðandi er jafnframt heildsali eða smásali vöru eða ef verksmiðjuverð vöru liggur ekki fyrir af öðrum ástæðum skal gjaldstofn vera almennt gangverð á sömu eða sams konar vöru við sölu frá framleiðendum. Ef slíkt almennt gangverð liggur ekki fyrir skal gjaldstofn vera verksmiðjuverð framleiðanda á sömu eða sams konar vöru í sambærilegum viðskiptum við óháða aðila.

(5) Ef framleiðandi og kaupandi eru háðir hvor öðrum í skilningi 2. mgr. 8. gr. tollalaga*1) er skattyfirvöldum heimilt að ákvarða gjaldstofn vörugjalds samkvæmt ákvæðum 4. mgr.

*1)Nú 2. mgr. 14. gr. tollalaga nr. 88/2005.

III. KAFLI
Gjaldskyldir aðilar og skráning.

7. gr.
Gjaldskyldir aðilar.

     Skylda til að standa skil á vörugjaldi hvílir á þessum aðilum:

  1. Innflytjendum, þ.e. öllum þeim sem flytja til landsins vörugjaldsskyldar vörur hvort sem er til eigin nota, framleiðslu eða endursölu.
  2. Gjaldskyldum framleiðendum, þ.e. öllum þeim sem framleiða, vinna að eða pakka vörugjaldsskyldum vörum innanlands.
  3. Sérstaklega skráðum heildsölum, þ.e. þeim sem flytja inn eða kaupa innanlands vörugjaldskyldar*1) vörur til heildsölu og fengið hafa sérstaka skráningu hjá skattstjóra, sbr. 9. gr.
     

*1)Svo birt í Stjórnartíðindum en á að vera vörugjaldsskyldar.

8. gr.
Tilkynningarskylda og skráning.

(1) Aðilar, sem eru gjaldskyldir skv. 7. gr., að undanskildum þeim sem flytja vörur til landsins til eigin nota, skulu ótilkvaddir og eigi síðar en 15 dögum áður en vörugjaldsskyld starfsemi hefst, tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá skattstjóranum í Reykjavík sem annast skráningu gjaldskyldra aðila.

(2) Breytingar, sem verða á starfsemi eftir að skráning hefur farið fram, skal tilkynna eigi síðar en 15 dögum eftir að breyting átti sér stað.

9. gr.
Sérstök skráning heildsala.

(1) Aðilar, sem flytja inn eða kaupa innanlands gjaldskyldar vörur til heildsölu, geta sótt um sérstaka skráningu til skattstjórans í Reykjavík. Slík skráning veitir aðilum heimild til að gera upp vörugjald miðað við breytingu á birgðastöðu á uppgjörstímabili.

(2) Skilyrði skráningar skv. 1. mgr. eru:

  1. Að aðili hafi heildsöluleyfi.
  2. Að aðili haldi sérstakt birgðabókhald yfir vörur, sem vegna skráningarinnar lúta sérreglum um uppgjör vörugjalds, í samræmi við reglur sem ríkisskattstjóri setur.a)

(3) Sérstaklega skráðum heildsölum er heimilt að flytja gjaldskyldar vörur til landsins eða kaupa gjaldskyldar vörur innanlands af gjaldskyldum aðilum samkvæmt 2. og 3. tölul. 7. gr. án þess að með því stofnist skylda til greiðslu vörugjalds á þeim tímapunkti, enda framvísi þeir skírteini því til staðfestingar.

a)Reglur nr. 358/1996, um birgðabókhald o.fl. vegna sérstakrar skráningar skv. 11. gr. reglugerðar um vörugjald nr. 356/1996 (nú samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 436/1998, um vörugjald).

IV. KAFLI
Uppgjörstímabil, gjalddagar, álagning, álag o.fl.

10. gr.
Uppgjörstímabil og gjalddagar.

(1) Hvert uppgjörstímabil skráðra aðila, sbr. III. kafla, er tveir mánuðir; janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember.

(2) Gjalddagi hvers uppgjörstímabils er 28. dagur annars mánaðar eftir lok þess.

11. gr.
Álagning vörugjalds við innflutning.

     Tollstjóri skal annast álagningu vörugjalds við tollafgreiðslu á innfluttum vörum.

12. gr.
Álagning vörugjalds innanlands.

(1) Vörugjald innanlands, sbr. 2. og 3. tölul. 7. gr., reiknast við sölu eða afhendingu gjaldskyldrar vöru og skiptir ekki máli hvenær eða með hvaða hætti greiðsla kaupanda fer fram.

(2) Gjaldskyldir aðilar skv. 2. og 3. tölul. 7. gr. skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils skila vörugjaldsskýrslu vegna sölu eða afhendingar á því tímabili. Þeir sem selja gjaldskyldar vörur án vörugjalds skv. 1. og 2. mgr. 2. gr. skulu gera grein fyrir þeirri sölu á vörugjaldsskýrslu. Að öðru leyti skal vörugjaldsskýrsla vera í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Ríkisskattstjóri getur ákveðið að mismunandi vörugjaldsskýrslur verði fyrir gjaldskylda framleiðendur og sérstaklega skráða heildsala.

(3) Skattstjóri ákvarðar vörugjald aðila samkvæmt þessari grein. Skattstjóri áætlar vörugjald af viðskiptum þeirra aðila sem skila ekki vörugjaldsskýrslu innan tilskilins tíma, senda enga skýrslu eða ef skýrslu eða fylgigögnum er ábótavant. Skattstjóri tilkynnir innheimtumanni og gjaldskyldum aðila um áætlanir og leiðréttingar sem gerðar hafa verið.

13. gr.
Innheimta vörugjalds.

(1) Tollstjóri innheimtir vörugjald af innflutningi aðila sem flytja inn vörur til eigin nota við tollafgreiðslu.

(2) Skráðir innflytjendur skv. 1. mgr. 8. gr. skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs vörugjald af gjaldskyldum vörum sem voru tollafgreiddar á tímabilinu í samræmi við álagningu samkvæmt 11. gr.

(3) Gjaldskyldir framleiðendur skv. 2. tölul. 7. gr. skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs vörugjald af gjaldskyldum vörum sem voru seldar eða afhentar á tímabilinu.

(4) Sérstaklega skráðir heildsalar skv. 3. tölul. 7. gr. skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs vörugjald af gjaldskyldum vörum sem þeir hafa keypt eða fengið tollafgreiddar á tímabilinu eða voru til staðar í birgðum í upphafi tímabilsins en eru ekki til staðar í birgðum við lok þess samkvæmt birgðabókhaldi.

14. gr.
Álag og dráttarvextir.

(1) Sé vörugjald ekki greitt á tilskildum tíma skal aðili sæta álagi til viðbótar því vörugjaldi sem honum ber að standa skil á. Sama gildir ef vörugjaldsskýrslu hefur ekki verið skilað eða henni er ábótavant og vörugjald því áætlað, nema aðili hafi greitt fyrir gjalddaga vörugjaldsins upphæð er til áætlunarinnar svarar eða gefið fyrir lok kærufrests fullnægjandi skýringu á vafaatriðum. Vörugjald telst greitt á tilskildum tíma hafi greiðsla sannanlega verið póstlögð á gjalddaga.

(2) Álag skv. 1. mgr. skal vera 1% af þeirri upphæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærri en 10%.

(3) Sé vörugjald ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er.
 

V. KAFLI
Vörugjaldsskírteini og endurgreiðslur.

15. gr.
Skírteini framleiðenda sem nota vörugjaldsskylt hráefni eða efnivöru.

(1) Framleiðendur vöru, sem nota í framleiðslu sína hráefni eða efnivöru sem ber vörugjald, geta fengið heimild hjá skattstjóranum í Reykjavík til að kaupa slíkt hráefni eða efnivöru án vörugjalds, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 2. gr.

(2) Framleiðandi sem óskar eftir heimild skv. 1. mgr. skal sækja um hana til skattstjórans í Reykjavík í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Í umsókn skal m.a. tilgreina heiti og tollflokkun hráefnis eða efnivöru sem nýtt er til framleiðslunnar.

(3) Telji skattstjórinn í Reykjavík að fullnægjandi upplýsingar séu fram komnar gefur hann út sérstakt skírteini til framleiðanda. Skírteinið heimilar viðkomandi framleiðanda að kaupa innanlands án vörugjalds hráefni eða efnivöru til nota í eigin framleiðslu. Skírteinið veitir framleiðanda jafnframt rétt til niðurfellingar eða endurgreiðslu vörugjalds af innflutningi á hráefni eða efnivöru til nota í eigin framleiðslu. Tilgreina skal í skírteinið til hvaða vörutegunda það tekur.

(4) Heimild til undanþágu og réttur til endurgreiðslu samkvæmt þessari grein nær einungis til hráefnis eða efnivöru sem verður hluti af hinni endanlegu framleiðsluvöru. Heimildin nær hins vegar hvorki til kaupa eða innflutnings á efnivörum til byggingar eða viðhalds á fasteignum né til nýsmíði eða viðgerðar á ökutækjum.

16. gr.
Niðurfelling eða endurgreiðsla vörugjalds af innfluttu hráefni eða efnivöru.

(1) Innflytjandi getur á gjalddaga hvers uppgjörstímabils fengið fellt niður eða endurgreitt vörugjald af vöru sem hann hefur flutt til landsins og vörugjald reiknaðist af við innflutning, hafi hann á uppgjörstímabilinu selt vöruna sem hráefni eða efnivöru til handhafa vörugjaldsskírteinis skv. 15. gr. Sama gildir um innflutning handhafa vörugjaldsskírteinis skv. 15. gr. á hráefni eða efnivöru til nota í eigin framleiðslu.

(2) Skilyrði niðurfellingar eða endurgreiðslu samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. er að kaupandi framvísi vörugjaldsskírteini skv. 15. gr. við kaupin og innflytjandi skrái númer þess og gildistíma á sölureikninginn.

(3) Sækja skal um niðurfellingu eða endurgreiðslu skv. 1. mgr. í sérstakri skýrslu til skattstjórans í Reykjavík, sem vera skal í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Í endurgreiðsluskýrslu skulu m.a. koma fram upplýsingar um sölu eða nýtingu þess hráefnis eða efnivöru sem endurgreiðslubeiðnin snertir, þar með talið heiti kaupenda, heiti vöru, heildarmagn hennar og fjárhæð vörugjalds sem óskað er endurgreiðslu á. Innflytjanda er heimilt að láta skattstjóra í té yfirlit yfir þá viðskiptavini sem kaupa af honum hráefni eða efnivöru án vörugjalds á grundvelli vörugjaldsskírteinis skv. 15. gr. og þarf hann þá ekki að tilgreina nöfn kaupenda á skýrslu hverju sinni. Skýrslu skal skilað eigi síðar en 15 dögum fyrir gjalddaga uppgjörstímabils.

(4) Fallist skattstjórinn í Reykjavík á skýrsluna án frekari skýringa skal niðurfelling eða endurgreiðsla fara fram á gjalddaga. Sé endurgreiðsluskýrslu ekki skilað fyrr en að loknum tilgreindum tímafresti skal endurgreiðsla fara fram að liðnum 15 dögum frá skilum hennar.

(5) Flytji handhafi vörugjaldsskírteinis skv. 15. gr. inn hráefni eða efnivörur eingöngu til nota í eigin framleiðslu getur hann fengið sjálfkrafa niðurfellingu samkvæmt þessari grein, þ.e. án umsóknar skv. 3. mgr., enda óski hann þess við skattstjórann í Reykjavík.

(6) Niðurfelling eða endurgreiðsla vörugjalds samkvæmt þessari grein er kæranleg skv. 23. gr. Kæru skal þó beint til skattstjórans í Reykjavík.

17. gr.
Skírteini heildsala.

     Fái heildsali sérstaka skráningu skv. 9. gr. gefur skattstjóri út viðeigandi skírteini honum til handa, sbr. 3. mgr. 9. gr.

18. gr.
Gildistími vörugjaldsskírteina o.fl.

(1) Gildistími skírteina skv. 15. og 17. gr. skal [vera að hámarki 24 mánuðir í senn]1).

(2) Noti skírteinishafi skv. 15. gr. vöru, sem hann hefur keypt gegn framvísun skírteinis, á annan hátt en til framleiðslu skal hann innheimta og standa skil á vörugjaldi af heildarandvirði vörunnar við afhendingu hennar til annars aðila eða við úttekt til eigin nota. Jafnframt getur skattstjóri þá afturkallað samþykki til sjálfkrafa endurgreiðslu skv. 5. mgr. 16. gr.

(3) Brjóti sérstaklega skráður heildsali gegn reglum, sem ríkisskattstóri*1) setur, getur skattstjóri afturkallað skírteini skv. 17. gr. og eftir atvikum endurákvarðað vörugjald frá og með þeim tíma sem aðili telst hafa brotið gegn reglunum.

1)Skv. 1. gr. reglugerðar nr. 52/2000. *1)Svo birt í Stjórnartíðindum en á að vera ,,ríkisskattstjóri".

VI. KAFLI
Bókhald o.fl.

19. gr.
Vörugjald sem stofn til virðisaukaskatts.

     Vörugjald myndar stofn til virðisaukaskatts hvort sem vara er flutt inn eða keypt innanlands.

20. gr.
Bókhald.

(1) Gjaldskyldir aðilar, sbr. 7. gr., aðrir en þeir sem flytja inn gjaldskyldar vörur til eigin nota, skulu haga bókhaldi sínu þannig að skattyfirvöld geti á hverjum tíma gengið úr skugga um réttmæti skýrslna um vörugjald.

(2) Sala og önnur afhending gjaldskyldra aðila skv. 2. og 3. tölul. 7. gr. á gjaldskyldum vörum er gjaldskyld að því marki sem þeir geta ekki sýnt fram á með bókhaldi og gögnum þess að hún sé undanþegin. Vanræki aðili að leggja vörugjald á gjaldskylda vöru ber honum eigi að síður að standa skil á gjaldinu.

(3) Í bókhaldi gjaldskyldra aðila skv. 2. og 3. tölul. 7. gr. skal færa sérstaka reikninga fyrir innkaup og sölu gjaldskyldrar vöru. Reikninga þessa má færa í lok hvers uppgjörstímabils, enda sé á grundvelli þeirra hægt að reikna með beinum hætti fjárhæðir vörugjalds. Þeir sem selja bæði gjaldskyldar og gjaldfrjálsar vörur skulu halda sölu gjaldskyldra vara greinilega aðgreindri í bókhaldi sínu. Jafnframt skal aðgreina gjaldskylda sölu frá undanþeginni samkvæmt 1. og 2. mgr. 2. gr. Loks skal aðgreina sölu og innkaup gjaldsskyldrar starfsemi eftir gjaldtegund og gjaldflokkum, sbr. 3. og 4. gr. Auk framangreinds ber sérstaklega skráðum heildsölum að haga bókhaldi sínu eftir reglum, sem ríkisskattstjóri setur.

(4) Ríkisskattstjóri getur sett nánari reglur um færslur bókhalds samkvæmt þessari grein.a)

a)Reglur nr. 358/1996, um birgðabókhald o.fl. vegna sérstakrar skráningar skv. 11. gr. reglugerðar um vörugjald nr. 356/1996 (nú 9. gr. reglugerðar nr. 436/1998).

21. gr.
Útgáfa sölureikninga.

(1) Gjaldskyldur aðili skv. 2. og 3. tölul. 7. gr. skal færa sölu og aðra afhendingu á sölureikning þannig að magn, tegund og heildarverð vöru ásamt fjárhæð vörugjalds komi fram.

(2) Sé fallið frá innheimtu vörugjalds vegna undanþágu skv. 2. mgr. 2. gr., sbr. 15. eða 17. gr., skal tilgreina á sölureikningi númer og gildistíma vörugjaldsskírteinis sem kaupandi framvísar.

(3) Til sönnunar á undanþágu vegna sölu úr landi skal seljandi varðveita útflutningsskýrslur eða sambærileg útflutningsgögn með viðkomandi sölureikningi. Til sönnunar á undanþágu vegna sölu til varnarliðsins skal varðveita pöntunarseðla eða önnur sambærileg gögn frá varnarliðinu með viðkomandi sölureikningi.

(4) Þegar heildsali sem fengið hefur sérstaka skráningu skv. 9. gr. kaupir gjaldskyldar vörur án vörugjalds skal tilgreina á sölureikningi það magn eða það verð sem myndar gjaldstofn vörugjalds.

(5) Seljendum vöru, sem ekki er vörugjaldsskyld, er óheimilt að tilgreina vörugjald á sölureikning. Geri þeir það skulu þeir skila gjaldinu í ríkissjóð, nema leiðréttingu verði komið við gagnvart kaupanda vörunnar. Sama gildir um gjaldskylda aðila, sbr. 7. gr., sem tilgreina á reikningum sínum of hátt vörugjald eða vörugjald af viðskiptum sem ekki eru gjaldskyld. Til sönnunar á leiðréttingu skal gefa út kreditreikning til kaupanda.
 

VII. KAFLI
Kærur, málsmeðferð o.fl.

22. gr.
Kærur.

(1) Heimilt er að kæra ákvörðun vörugjalds innan 30 daga frá því gjaldið var ákveðið. Kærufrestur reiknast frá póstlagningu tilkynningar um gjaldákvörðun. Við ákvörðun vörugjalds án sérstakrar tilkynningar til kæranda reiknast kærufrestur þó frá gjalddaga uppgjörstímabilsins. Kæru skal beint til þess tollstjóra eða þess skattstjóra sem annaðist ákvörðun gjaldsins. Varði kæra eingöngu skráningu aðila skv. 8. eða 9. gr. skal kæru þó beint til skattstjórans í Reykjavík. Kæru skal fylgja skriflegur rökstuðningur. Innsend fullnægjandi vörugjaldsskýrsla skal tekin sem kæra þegar um er að ræða áætlanir skv. 3. mgr. 12. gr. Tollstjóri eða skattstjóri skal kveða upp skriflegan rökstuddan úrskurð um kæruna og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi innan 30 daga frá lokum kærufrests.

(2) Gjaldskyldur aðili og ríkistollstjóri*1) geta skotið úrskurði tollstjóra skv. 1. mgr. til ríkistollanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð.

(3) Gjaldskyldur aðili og ríkisskattstjóri geta skotið úrskurði skattstjóra skv. 1. mgr. til yfirskattanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð.

*1)Með lögum nr. 155/2000, um breytingu á tollalögum nr. 55/1987, með síðari breytingum, o.fl., var embætti ríkistollstjóra lagt niður, sbr. 25. gr. þeirra. Fjármálaráðherra og tollstjórinn í Reykjavík taka við almennum réttindum og skyldum embættis ríkistollstjóra.

23. gr.
Gildissvið gagnvart tollalögum og lögum um virðisaukaskatt.

     Að því leyti sem eigi er ákveðið í reglugerð þessari um gjaldskyldu, álagningu, tilhögun bókhalds, eftirlit, viðurlög, málsmeðferð, kærur, innheimtu, stöðvun tollafgreiðslu eða atvinnurekstrar og aðra framkvæmd varðandi vörugjald skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði tollalaga um vörugjald við innflutning, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim, og laga um virðisaukaskatt um vörugjald innanlands, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.

24. gr.
Gildistökuákvæði.

     Reglugerð þessi, er sett samkvæmt heimild í 1. mgr. 13. gr., sbr. 8. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, og öðlast gildi þegar í stað. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 356/1996, um vörugjald, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Bráðabirgðaákvæði með reglugerð nr. 436/1998 eru ekki birt hér.
 

Fara efst á síðuna ⇑