Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.9.2024 09:27:37

Lög nr. 50/1988, kafli 4 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=50.1988.4)
Ξ Valmynd

IV. KAFLI
Skattskyld velta.

11. gr.

(1) Til skattskyldrar veltu skráðs aðila telst öll sala eða afhending vöru og verðmæta gegn greiðslu, svo og seld vinna og þjónusta. Hér með telst andvirði vöru eða skattskyldrar þjónustu sem fyrirtæki selur eða framleiðir og eigandi tekur út til eigin nota. Til skattskyldrar veltu telst einnig andvirði skattskyldrar vöru og þjónustu sem fyrirtæki notar í öðrum tilgangi en varðar sölu þess á skattskyldum vörum og þjónustu eða í tilgangi er varðar atriði sem rakin eru í 3. mgr. 16. gr.

(2) Til skattskyldrar veltu telst sala eða afhending á vöru sem seld er í umsýslu- eða umboðssölu.

(3) Til skattskyldrar veltu telst sala eða afhending á vélum, tækjum og öðrum rekstrarfjármunum. Sama gildir um vörubirgðir, vélar, tæki og aðra rekstrarfjármuni þegar fyrirtæki tilkynnir sig út af skrá, sbr. 1. mgr. 5. gr.

[---]1) 2)

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 124/2014. 2)Sbr. 6. gr. laga nr. 126/2016.

12. gr.

(1) Til skattskyldrar veltu telst ekki:

  1. [Vara sem seld er úr landi.]8)
  2. Vöruflutningar [og fólksflutningar]7) milli landa og vöruflutningar innan lands þegar flutt er beint til eða frá landinu.
  3. Vinna við vöru á kostnað erlends aðila þegar fyrirtækið, sem annast vinnuna, flytur vöruna út að vinnu lokinni, svo og gerð og mótun vöru á kostnað erlends aðila þegar framleiða á vöruna erlendis.
  4. Hönnun, skipulagning, áætlanagerð og önnur sambærileg vinna er varðar byggingar og aðrar fasteignir á erlendri grund.
  5. Vistir, eldsneyti, tæki og annar búnaður sem afhentur er til nota um borð í millilandaförum, svo og sú þjónusta sem veitt er slíkum förum. [Sama gildir um þjónustu sem felst í afnotum af mannvirkjum á alþjóðaflugvöllum fyrir millilandaloftför, flugleiðsöguþjónustu sem veitt er slíkum förum og farþega- og flugverndarþjónustu á alþjóða­flugvöllum.]9) Undanþága þessi nær þó ekki til skemmtibáta og [loftfara í einkaflugi]9).
  6. [Sala og útleiga loftfara og skipa. Undanþága þessi nær þó ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd, skemmtibáta eða [loftfara í einkaflugi]9).]2)
  7. [Skipasmíði og]1) viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip og loftför og fastan útbúnað þeirra, svo og efni og vörur sem það fyrirtæki, sem annast viðgerðina, notar og lætur af hendi við þá vinnu. [Undanþága þessi nær þó ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd, skemmtibáta eða [loftfara í einkaflugi]9).]2)
  8. [Samningsbundnar greiðslur úr ríkissjóði vegna mjólkurframleiðslu og sauðfjárframleiðslu.]1) 3)
  9. [Þjónusta sem veitt er erlendum fiskiskipum vegna löndunar eða sölu afla hér á landi.]1) 2) 4)
  10. [Vinna og þjónusta sem veitt er erlendis. Þjónusta telst veitt erlendis þegar hún er seld frá Íslandi til atvinnufyrirtækis sem hvorki hefur heimilisfesti hér á landi né stundar hér atvinnustarfsemi frá fastri starfsstöð.(1)
Sala á þjónustu til annarra en atvinnufyrirtækja skv. 1. mgr. telst vera veitt erlendis þegar hún er seld frá Íslandi til aðila sem hafa ekki heimilisfesti, lögheimili, varanlega búsetu eða dveljast ekki að jafnaði hér á landi. Eftirtalin þjónusta fellur undir þessa málsgrein: 
  1. þjónusta sem veitt er rafrænt, þ.e. þjónusta sem veitt er á netinu, sjálfvirkt með lágmarksinngripi þar sem notkun upplýsingatækni er nauðsynlegur þáttur í veitingu þjónustunnar,
  2. fjarskiptaþjónusta, sem felur í sér þjónustu, miðlun, útsendingu eða viðtöku á boðum, orðum, myndum, hljóði eða öðrum upplýsingum í gegnum þráð, útvarp, ljósboð eða annars konar rafsegulkerfi; fjarskiptaþjónusta felur einnig í sér þjónustu frá þeim aðilum sem veita aðgang að framangreindri þjónustu auk aðgangs að rafrænum fjarskiptanetum og samtengingu þeirra,
  3. útvarps- og sjónvarpsþjónusta, þ.e. þjónusta sem samanstendur af hljóði eða mynd og miðlað er til almennings um samskiptamiðla í rauntíma samkvæmt ákveðinni dagskrá á ritstjórnarlegri ábyrgð viðkomandi fjölmiðils,
  4. framsal á höfundarétti, rétti til einkaleyfis, vörumerkis og hönnunar, svo og framsal annarra sambærilegra réttinda,
  5. auglýsingaþjónusta,
  6. ráðgjafarþjónusta, verkfræðiþjónusta, lögfræðiþjónusta, þjónusta endurskoðenda og önnur sambærileg sérfræðiþjónusta, sem og gagnavinnsla og upplýsingamiðlun,
  7. þjónusta banka, fjármálafyrirtækja og tryggingafélaga, önnur en sú þjónusta sem talin er undanþegin virðisaukaskatti skv. [---]10) 10. tölul. 3. mgr. 2. gr.,
  8. atvinnumiðlun,
  9. leiga lausafjármuna, þó ekki neins konar flutningatækja,
  10. kvaðir og skyldur varðandi atvinnu- eða framleiðslustarfsemi eða hagnýtingu réttinda sem kveðið er á um í þessari málsgrein.(2)
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. telst þjónusta sem seld er til annarra en atvinnufyrirtækja ávallt vera veitt hér á landi og þar með skattskyld hér þegar raunveruleg nýting hennar á sér stað á Íslandi.(3)

Þjónusta ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda telst veitt utan Íslands samkvæmt þessum tölulið að því leyti sem hún varðar fólksflutninga milli landa. Sama gildir um vöru eða þjónustu sem ferðamaður nýtir utan Íslands.(4)

Vinna eða þjónusta sem varðar lausafjármuni eða fasteignir hér á landi telst ávallt veitt hér á landi. Sama gildir um þjónustu sem veitt er í tengslum við menningarstarfsemi, listastarfsemi, íþróttastarfsemi, kennslustarfsemi og aðra hliðstæða starfsemi sem fram fer hér á landi og er undanþegin skattskyldu skv. 3. mgr. 2. gr.(5)]8)
  1. [Þjónusta sem felst í endurgreiðslu á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis.]1) 2) 5)

(2) [Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari skilyrði fyrir undanþágum og framkvæmd þessarar greinar, þ.m.t. um nánari skilgreiningu á hugtökum.] 8)

(3) Til skattskyldrar veltu telst ekki sala á vörum sem keyptar hafa verið eða notaðar í þeim tilgangi eingöngu er um ræðir í 3. mgr. 16. gr.

(4) Eignayfirfærslu vörubirgða, véla og annarra rekstrarfjármuna má ekki telja til skattskyldrar veltu þegar yfirfærslan á sér stað í sambandi við eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta þess og hinn nýi eigandi hefur með höndum skráðan eða skráningarskyldan rekstur samkvæmt lögum þessum. Við slíka sölu skal seljandi tilkynna [ríkisskattstjóra]6) um eigendaskipti og söluandvirði eigi síðar en átta dögum eftir að eignayfirfærsla fór fram.

1)Sbr. 6. gr. laga nr. 119/1989. 2)Sbr. 48. gr. laga nr. 111/1992. 3)Sbr. 18. gr. laga nr. 122/1993. 4)Sbr. 5. gr. laga nr. 55/1997. 5)Sbr. 1. gr. laga nr. 115/1997. 6)Sbr. 54. gr. laga nr. 136/2009. 7)Sbr. 1. gr. laga nr. 124/2014. 8)Sbr. 1. gr. laga nr. 59/2018. 9)Sbr. 1. gr. laga nr. 143/2018. 10)Sbr. 2. gr. laga nr. 141/2020. a)Reglugerðir nr. 563/1989 og 194/1990.

[12. gr. A.

(1) Til skattskyldrar veltu telst ekki:

1. Sala og útleiga á olíuborpöllum og fljótandi hafstöðvum til notkunar við kolvetnisvinnslu. Undanþágan tekur einnig til rekstrarbúnaðar sem er afhentur með slíkum mannvirkjum.
2. Sala á þjónustu á síðasta stigi viðskipta sem stendur í beinum tengslum við byggingu, endurbyggingu, viðgerðir og viðhald á mannvirkjum og búnaði skv. 1. tölul. Undanþágan tekur einnig til vöru sem er afhent í tengslum við afhendingu á slíkri þjónustu.
3. Björgunarþjónusta í tengslum við mannvirki skv. 1. tölul.
4. Sala á vöru og þjónustu á síðasta stigi viðskipta til nota í beinum tengslum við byggingu, endurbyggingu, viðgerðir og viðhald á leiðslum frá hafsvæði utan gildissviðs laga þessara til lands.
5. Sala á vöru og þjónustu til nota á hafsvæði utan landhelgi í tengslum við rannsóknir og nýtingu á auðlindum á hafsbotni svo fremi sala sé til aðila sem hafa fengið leyfi til rannsókna og/eða vinnslu kolvetnis, svo og annarra aðila sem taka með beinum hætti þátt í rannsóknum, vinnslu og dreifingu kolvetnisafurða.

(2) Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um vöru og þjónustu sem fellur undir undanþágur skv. 4. og 5. tölul. 1. mgr.]1)

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 110/2011.

Fara efst á síðuna ⇑