Skattalagasafn ríkisskattstjóra 22.11.2024 02:30:28

Lög nr. 50/1988, kafli 5 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=50.1988.5)
Ξ Valmynd

V. KAFLI
Uppgjör skattskyldrar veltu.

13. gr.

(1) Skattskyld velta á hverju uppgjörstímabili, sbr. 24. gr., telst heildarskattverð allra vara sem afhentar hafa verið, svo og heildarskattverð allrar skattskyldrar vinnu og þjónustu sem innt hefur verið af hendi á tímabilinu.

(2) [Ef gefinn er út reikningur vegna afhendingar telst hún hafa farið fram á útgáfudegi reiknings, enda sé reikningur gefinn út fyrir eða samtímis afhendingu.]2)

(3) Þegar greiðsla fer fram að fullu eða að hluta áður en afhending á sér stað teljast [80,65%]1) 4) 5) af hinni mótteknu fjárhæð til skattskyldrar veltu á því tímabili sem greiðsla fer fram [eða [90,09%]3) 5) þegar um er að ræða sölu skv. 2. mgr. 14. gr.]2) [---]1)

(4) Vörur, sem afhentar eru til umsýslu- eða umboðssölu, má annað hvort telja til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili þegar afhending fer fram eða til veltu þess tímabils þegar gert er upp við umsýslu- eða umboðsmann. Sé síðarnefnda aðferðin valin má ekki gefa út reikning skv. 20. gr. fyrr en uppgjörið fer fram.

(5) Við uppgjör á skattskyldri veltu er seljanda heimilt að draga frá sem hér segir:

  1. [80,65%]1) 4) 5) þeirrar fjárhæðar sem hann endurgreiðir viðskiptavinum sínum vegna endursendra vara [eða [90,09%]3) 5) þegar um er að ræða sölu skv. 2. mgr. 14. gr.]2)
  2. [80,65%]1) 4) 5) af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum, enda hafi hin tapaða fjárhæð áður verið talin til skattskyldrar veltu [eða [90,09%]3) 5) þegar um er að ræða sölu skv. 2. mgr. 14. gr.]2) Fáist fjárhæðin síðar greidd skulu [80,65%]1) 4) 5) hennar talin með skattskyldri veltu á því tímabili þegar hún fæst greidd [eða [90,09%]3) 5) þegar um er að ræða sölu skv. 2. mgr. 14. gr.]2)
  3. Afslátt sem veittur er eftir að afhending hefur átt sér stað ef hann er veittur aðila sem getur dregið virðisaukaskattinn frá sem innskatt í uppgjöri sínu, sbr. 3. og 4. mgr. 15. gr., og skilyrði til að veita afslátt voru ekki fyrir hendi við afhendingu. Afsláttur af þessu tagi til annarra er ekki frádráttarbær. Frádráttur samkvæmt þessum tölulið er háður því að gefinn sé út innleggsreikningur (kreditreikningur) fyrir afslættinum og fjárhæð skattsins komi þar einnig fram, sbr. 1. og 3. mgr. 20. gr.

(6) Skattskyld vara og þjónusta, sem eigandi tekur út úr eigin fyrirtæki, telst til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili þegar úttektin á sér stað. Sama gildir um skattskylda vöru og þjónustu sem fyrirtæki notar í öðrum tilgangi en varðar sölu þess á skattskyldum vörum og þjónustu eða í tilgangi er varðar atriði sem rakin eru í 3. mgr. 16. gr.

1)Sbr. 7. gr. laga nr. 119/1989. 2)Sbr. 49. gr. laga nr. 111/1992. 3)Sbr. 1. gr. laga nr. 14/2007. 4)Sbr. 14. gr. laga nr. 130/2009. 5)Sbr. 1. gr. laga nr. 124/2014.

Fara efst á síðuna ⇑