Skattalagasafn ríkisskattstjóra 28.3.2024 13:40:09

Lög nr. 50/1988, kafli 7 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=50.1988.7)
Ξ Valmynd

VII. KAFLI
Uppgjör á virðisaukaskatti.

15. gr.

(1) Skattskyldir aðilar skv. 3. gr. skulu greiða í ríkissjóð mismun útskatts og innskatts hvers uppgjörstímabils, sbr. 24. gr. Sé innskattur á uppgjörstímabili hærri en útskattur skal ríkissjóður endurgreiða mismuninn, [sbr. 25. gr.]1)

(2) Útskattur merkir í lögum þessum þann virðisaukaskatt sem fellur á skattskylda sölu eða afhendingu skattaðila á tímabilinu, sbr. V. kafla.

(3) Innskattur merkir í lögum þessum þann virðisaukaskatt sem á tímabilinu fellur á kaup skattaðila á skattskyldum vörum og þjónustu til nota í rekstrinum, sbr. þó 16. gr.

(4) Innskattur á uppgjörstímabili er sá virðisaukaskattur sem fram kemur á reikningum þeirra sem selt hafa hinum skattskylda aðila á tímabilinu, svo og virðisaukaskattur af innflutningi hans á tímabilinu, sbr. XI. kafla.

1)Sbr. 5. gr. laga nr. 163/2010.

16. gr.

(1) Til innskatts á hverju uppgjörstímabili, sbr. 24. gr., skal telja virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. [Skilyrði innskattsfrádráttar er að seljandi vöru og þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað.]10)

(2) [Ráðherra]11) er heimilt að setja reglura) um að til innskatts megi telja ákveðinn hluta af virðisaukaskatti innkaupa sem ekki varða eingöngu sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. [Jafnframt er ráðherra heimilt að kveða á um í reglugerð að aðilar, sem kaupa notuð ökutæki til niðurrifs í atvinnuskyni, geti reiknað sér innskatt sem skráður er á sérstakan reikning og nemur [19,35%]8) 12) af kaupverði vörunnar.]3) Ráðherra getur einnig sett reglur um leiðréttingu á frádrætti vegna innskatts þegar breyting verður á notkun varanlegra rekstrarfjármuna, þar á meðal fasteigna, sem hefur í för með sér breytingu á frádráttarrétti. Leiðréttingin getur tekið til allt að fimm ára frá því að fjármunanna var aflað. Varðandi fasteignir getur leiðréttingin þó tekið til allt að [tuttugu]7) ára. Í reglum um slíkar leiðréttingar getur ráðherra haft hliðsjón af þeim verðbreytingum sem orðið hafa frá því að fjármunanna var aflað.

(3) Til innskatts er ekki heimilt að telja virðisaukaskatt af aðföngum er varða eftirfarandi:

  1. Kaffistofu eða mötuneyti skattaðila og hvers konar fæðiskaup hans.
  2. Öflun eða rekstur íbúðarhúsnæðis fyrir eiganda eða starfsmenn.
  3. Hlunnindi til eiganda eða starfsmanna.
  4. Öflun og rekstur orlofsheimila, sumarbústaða, barnaheimila og þess háttar fyrir eiganda eða starfsmenn.
  5. Risnu og gjafir.
  6. [Öflun, rekstur og leigu fólksbifreiða [---]13). Sama á við um [sendi-, [vörubifreiðar]15)]13) með leyfða heildarþyngd 5.000 kg eða minna sem ekki uppfylla skilyrði um burðargetu og lengd farmrýmis er [ráðherra]11) setur í reglugerð.]1) 6)

(4) [Þeir sem skattskyldir eru á grundvelli 2. mgr. 3. gr. mega einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða hina skattskyldu þætti í starfsemi þeirra.]6)

(5) Þegar vörur, sem notaðar eru af eiganda fyrirtækis, teljast til skattskyldrar veltu fyrirtækisins skv. 1. mgr. 11. gr. má telja virðisaukaskatt af innkaupunum til innskatts. Hið sama gildir um skattskyldar vörur og þjónustu sem fyrirtæki notar í öðrum tilgangi en varðar sölu þess á skattskyldum vörum og þjónustu eða í tilgangi er varðar atriði er rakin eru í 3. mgr. þessarar greinar.

(6) Þrátt fyrir ákvæði 6. tölul. 3. mgr. þessarar greinar er skattskyldum aðilum, sem hafa með höndum sölu eða leigu bifreiða [og rekstraraðilum fólksbifreiða sem fengið hafa sérstakt leyfi Samgöngustofu til farþegaflutninga í ferðaþjónustu]14), heimilt að telja skatt af aðföngum vegna þeirra viðskipta sem innskatt.

(7) [Skattskyldum aðilum er skylt, eftir nánari reglum sem [ráðherra]11) setur með reglugerð,a) að auðkenna ökutæki sín þegar virðisaukaskattur af öflun þeirra eða leigu telst til innskatts.]2) [Hafi aðili talið til innskatts virðisaukaskatt af öflun eða leigu ökutækis en ökutækið er síðar tekið til annarrar notkunar þar sem honum er heimill minni eða enginn frádráttarréttur ber honum að tilkynna það til [ríkisskattstjóra]9) áður en notkun er breytt og fjarlægja auðkenni sem sett hafa verið á ökutækið samkvæmt þessari grein.]5)

(8) [Þeir aðilar, sem um ræðir í 1. mgr. 10. gr., geta við skil á virðisaukaskatti dregið frá reiknuðum útskatti á hverju uppgjörstímabili [19,35%]8)12) af neikvæðum mismun á söluverði og innkaupsverði seldra ökutækja á viðkomandi uppgjörstímabili, enda eigi formskilyrði 3. mgr. 10. gr. við um söluna að öðru leyti.]4)

1)Sbr. 3. gr. laga nr. 106/1990. 2)Sbr. 51. gr. laga nr. 111/1992. 3)Sbr. 20. gr. laga nr. 122/1993. 4)Sbr. 3. gr. laga nr. 40/1995. 5)Sbr. 2. gr. laga nr. 149/1996. 6)Sbr. 4. gr. laga nr. 105/2000. 7)Sbr. 4. gr. laga nr. 45/2006. 8)Sbr. 16. gr. laga nr. 130/20099)Sbr. 54. gr. laga nr. 136/2009. 10)Sbr. 6. gr. laga nr. 163/2010. 11)Sbr. 127. gr. laga nr. 126/2011. 12)Sbr. 1. gr. laga nr. 124/2014. 13)Sbr. 21. gr. laga nr. 125/2015. 14)Sbr. 3. gr. laga nr. 59/2018. 15)Sbr. 4. gr. laga nr. 143/2018. a)Reglugerð nr. 192/1993

Fara efst á síðuna ⇑