Skattalagasafn ríkisskattstjóra 25.11.2024 00:03:58

Lög nr. 162/2002, kafli 4 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=162.2002.4)
Ξ Valmynd

IV. KAFLI
Úrvinnslusjóður.

14. gr.
Framkvæmd.

Úrvinnslusjóður er stofnun í eigu ríkisins og heyrir undir [ráðherra]1). Úrvinnslusjóður fer með framkvæmd laga þessara og er ráðherra til ráðgjafar um mál þau sem undir lögin falla.

1)Sbr. 356. gr. laga nr. 126/2011.

15. gr.
Hlutverk Úrvinnslusjóðs.

(1) Úrvinnslusjóður sér um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess.

(2) Úrvinnslusjóður skal með hagrænum hvötum koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs sem er tilkominn vegna vara sem falla undir lög þessi. Úrvinnslusjóður skal leitast við að skapa sem hagkvæmust skilyrði til úrvinnslu úrgangs. Úrvinnslusjóður semur við aðila um úrvinnslu úrgangs á grundvelli útboða eða verksamninga eftir því sem við á.

[(3) Úrvinnslusjóði ber að ná á landsvísu tölulegum markmiðum um hlutfall pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangs sem fara skal í endurnýtingu og endurvinnslu [sem og tölulegum markmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og rörgun raf- og rafeindatækjaúrgangs]4).]2)

(4) [Úrvinnslusjóði er heimilt að semja við rekstraraðila um endurgreiðslu úrvinnslugjalds vegna endurnýtingar á eigin úrgangi rekstraraðila samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð.]1) a)

[(5) Úrvinnslusjóði er heimilt að gera samninga um að taka að sér verkefni sam falla undir lög um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003. Slíkir samningar skulu samþykktir af ráðherra.]3)

(6) Úrvinnslusjóður skal ár hvert gera skýrslu um innheimtu og ráðstöfun úrvinnslugjalds eftir uppgjörsflokkum, svo og um magn og skilahlutfall gjaldskyldrar vöru og úrvinnslu hennar. Auk þess geri Úrvinnslusjóður ár hvert fjárhagsáætlun fyrir næsta ár þar á eftir með hliðsjón af áætlun um magn gjaldskyldrar vöru á markaði, flokkaðs úrgangs sem safnast og kostnaði við úrvinnslu hans á grundvelli útreikninga, útboða og verksamninga.

(7) Úrvinnslusjóður skal hafa samráð við hlutaðeigandi aðila um atriði er þá varða.

1)Sbr. 3. gr. laga nr. 114/2005. 2)Sbr. 7. gr. laga nr. 106/2006. 3)Sbr. 7. gr. laga nr. 73/20084)Sbr. 38. gr. laga nr. 63/2014a)Reglugerð nr. 1124/2005.

16. gr.
Stjórn Úrvinnslusjóðs.

(1) [Ráðherra skipar sjö manna stjórn Úrvinnslusjóðs til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar formann stjórnar og varamann hans án tilnefningar en sex meðstjórnendur og jafnmargir til vara skulu skipaðir að fenginni tilnefningu eftirfarandi aðila; einn samkvæmt tilnefningu Samtaka iðnaðarins, einn samkvæmt tilnefningu SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu, einn samkvæmt tilnefningu Félags atvinnurekenda, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og tveir samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Varaformaður sem skipaður er af ráðherra eftir tilnefningu stjórnar skal koma úr hópi stjórnarmanna.]1) 3)

(2) Þóknun til stjórnarmanna greiðist úr Úrvinnslusjóði og skal ákveðin af [ráðherra]2).

1)Sbr. 24. gr. laga nr. 58/2011. 2)Sbr. 356. gr. laga nr. 126/2011. 3)Sbr. 1. gr. laga nr. 39/2015.

17. gr.
Hlutverk stjórnar Úrvinnslusjóðs.

(1) Stjórn Úrvinnslusjóðs hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim og er [ráðherra]1) til ráðgjafar við framkvæmd laga þessara.

(2) Stjórnin hefur það hlutverk að móta stefnu um starfsemi sjóðsins, svo sem um helstu áherslur, verkefni og starfshætti hans, og leggur fyrir ráðherra til staðfestingar.

(3) Stjórnin staðfestir skýrslur og áætlanir skv. 15. gr. og hefur eftirlit með því að þær séu gerðar og leggur þær fyrir ráðherra fyrir 1. júní ár hvert. Þá staðfestir stjórnin einnig samninga skv. 3. mgr. 8. gr., að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar.

(4) Stjórnin skal eftir því sem við á leggja fram tillögu til [ráðherra]1) um breytingar á fjárhæð úrvinnslugjalds, nýjar gjaldskyldar vörur og fjárhæð úrvinnslugjalds á þær. Telji stjórnin þörf á að leggja skilagjald á vöru til að ná fram auknum skilum hennar skal hún jafnframt leggja fram tillögu um það til ráðherra og fjárhæð þess. Við gerð tillögu að nýjum gjaldskyldum vörum og undanþágu frá gjaldskyldu skal stjórnin taka mið af skuldbindingum og stefnumörkun stjórnvalda í úrgangsmálum.

1)Sbr. 356. gr. laga nr. 126/2011.

18. gr.
Umsjón með daglegum rekstri Úrvinnslusjóðs.

Stjórn Úrvinnslusjóðs ræður framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og ber ábyrgð á fjárreiðum hans og reikningshaldi gagnvart stjórn. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk Úrvinnslusjóðs.

19. gr.
Rekstur Úrvinnslusjóðs.

Tekjur af úrvinnslugjaldi samkvæmt lögum þessum [þ.m.t. vaxtatekjur]1) skulu renna óskiptar til Úrvinnslusjóðs að undanþegnu umsýslugjaldi til ríkissjóðs sem nemur 0,5% af þeim tekjum.

[---]2)

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 37/2005. 2)Sbr. 38. gr. laga nr. 63/2014.
 

Fara efst á síðuna ⇑