Skattalagasafn ríkisskattstjóra 24.11.2024 00:17:31

nr. 834/2003, kafli 8 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=834.2003.8)
Ξ Valmynd

VIII. KAFLI
Skýringar í reikningsskilum.

Almenn ákvæði.
61. gr.

     Auk þeirra upplýsinga, sem gert er ráð fyrir í viðauka III með reglum þessum, skulu upplýsingar þær, sem kveðið er á um í 6.-8. gr., 10. gr., 14.-16. gr., 24. gr., 33. gr., 42. gr. og 65.-80. gr. koma fram í skýringum í reikningsskilum.

62. gr.

     Þar sem þess er krafist í skýringum, að notað sé kostnaðarverð, er heimilt að byggja útreikning þess á vegnu meðaltali eða „fyrst inn fyrst út“ aðferðinni (FIFO).

63. gr.

     Þar sem þess er krafist í skýringum, að gefnar séu upplýsingar um eftirstöðvatíma, sbr. 2. gr., þegar um útlán eða skuldir með afborgunarskilmálum er að ræða, skal eftirstöðvatími reiknaður frá uppgjörsdegi til gjalddaga hverrar afborgunar.

64. gr.

     Við hvern lið í efnahagsreikningi og rekstrarreikningi skal tilgreina samsvarandi fjárhæðir frá fyrra reikningsári. Ávallt skal geta þess í skýringum í reikningsskilum og með tilheyrandi athugasemdum ef fjárhæðir eru ekki sambærilegar eða þeim hefur verið breytt.

65. gr.

(1) Gera skal grein fyrir þeim aðferðum sem beitt er við mat á hinum ýmsu liðum ársreiknings. Þessar upplýsingar má greina í þeim hluta skýringanna sem fjalla um reikningsskilaaðferðir.

(2) Upplýsa skal, eftir því sem við á, um aðferðir sem beitt er við:

- mat á afskriftaþörf útlána og fullnustueigna,
- vaxtafrystingu útlána,
- mat á liðum í erlendum gjaldmiðli,
- mat á verðbréfum í eigu fyrirtækisins og skiptingu markaðsverðbréfaeignar í veltuverðbréf og fjárfestingarverðbréf,
- mat á afleiðusamningum og skiptingu afleiðusamninga í veltuverðbréfaliði og fjárfestingarverðbréfaliði. Einnig skal upplýsa um hvort og þá hvernig afleiðusamningar eru notaðir við stjórnun vaxta- og gjaldmiðlaáhættu fyrirtækisins,
- endurmat og afskriftir fastafjármuna, og
- mat á liðum tengdum eignarleigustarfsemi.

Skýringar með eignaliðum.
66. gr.

     Tilgreina skal verðmæti hlutabréfa eða annarra hluta sem aflað hefur verið í tengslum við endurskipulagningu fyrirtækis, sbr. einnig ákvæði 14. gr.

67. gr.

     Í skýringum með eignalið 7 og 8 skal gerð grein fyrir eftirfarandi varðandi einstök dóttur- og hlutdeildarfélög:

- bókfært verð eignarhluta,
- eignarhlutdeild, og
- hlutdeild í afkomu.

68. gr.

     Í skýringum með eignalið 9.2, „Aðrar óefnislegar eignir“, skal gera grein fyrir þeim fjárhæðum sem skipta máli fyrir notendur reikningsskilanna. Sundurliða skal afskriftir óefnislegra eigna sem tengjast dóttur- og hlutdeildarfyrirtækjum sbr. 67.gr.

69. gr.

     Í skýringum með eignalið 12, „Aðrar eignir“, skal sundurliða helstu undirliði enda sé um að ræða liði sem skipta máli fyrir notendur reikningsskilanna.

70. gr.

     Í skýringum með eignalið 13, „Fyrirframgreidd gjöld og áfallnar óinnheimtar tekjur“, skal sundurliða í helstu undirliði sem skipta máli, en þó að lágmarki tilgreina „áfallnar óinnheimtar vaxtatekjur“ og „fyrirframgreidd vaxtagjöld“.

Skýringar með skulda- og eiginfjárliðum.
71. gr.

     Í skýringum með skuldalið 4, „Aðrar skuldir“, skal sundurliða í helstu undirliði sem skipta máli.

72. gr.

     Í skýringum með skuldalið 5, „Áfallin gjöld og fyrirframinnheimtar tekjur“, skal sundurliða í helstu undirliði sem skipta máli, en þó að lágmarki tilgreina „áfallin ógreidd vaxtagjöld“ og „fyrirframinnheimtar vaxtatekjur“.

73. gr.

     Í skýringum með skuldalið 6, „Reiknaðar skuldbindingar“, skal sundurliða í helstu undirliði, enda skipti þeir máli fyrir notendur reikningsskilanna. Lífeyrisskuldbindingar vegna stjórnenda skulu tilgreindar sérstaklega.

74. gr.

(1) Í skýringum með skuldalið 7, „Víkjandi skuldir“, skal tilgreina:

- vexti og kostnað við öflun eða niðurgreiðslu víkjandi lána á reikningsárinu, og
- hve stór hluti af víkjandi skuldum getur talist með eigin fé við útreikning á eiginfjárhlutfalli.

(2) Varðandi einstakar lántökur, sem fara fram úr 10% af heildarfjárhæð víkjandi skulda, skal tilgreina:

- fjárhæð láns, gjaldeyristegund, vaxtakjör og gjalddaga eða hvort það er útgefið án gjalddaga,
- hvort einhverjar aðstæður krefjist þess að endurgreiðslum sé flýtt, og
- skilmála fyrir víkjandi skuldum, tilvist ákvæða um möguleika á að umbreyta víkjandi skuld í eigið fé eða annars konar skuldbindingu og skilmála slíkra ákvæða.

(3) Varðandi aðrar víkjandi skuldir skal gefa almenna lýsingu á skilmálum þeirra.

75. gr.

(1) Í skýringum með lið 8, „Eigið fé“, skal upplýsa um fjölda og nafnverð hluta. Einnig skal tilgreina heildarfjárhæð útgefinna hluta svo og fjárhæð eigin hluta í eigu fyrirtækisins.

(2) Ennfremur skal greina lið 8.2, „Varasjóðir“, eftir einstökum varasjóðum og hvernig lögbundinn varasjóður greinist í yfirverð innborgaðs hlutafjár og önnur tillög.

76. gr.

     Í skýringum með lið 8, „Eigið fé“, skal gera grein fyrir eiginfjárhreyfingum á reikningsárinu.

77. gr.

(1) Fyrirtæki skal fyrir sérhvern skuldalið og sérhvern lið, sem er utan efnahagsreiknings, tilgreina tegund og fjárhæð eigna sem settar hafa verið að veði sem trygging fyrir skuldbindingum fyrirtækisins.

(2) Heildarfjárhæð veðsetninga vegna dótturfyrirtækja og annarra tengdra fyrirtækja skal tilgreina sérstaklega.

78. gr.

(1) Gera skal grein fyrir eignarleiguskuldbindingum sem fyrirtæki hefur gengist undir og skipta máli fyrir rekstur þess.

(2) Gera skal grein fyrir útistandandi framvirkum viðskiptum á uppgjörsdegi, þar sem sérstaklega komi fram fyrir hverja tegund viðskipta, hvort þau eru gerð að verulegu leyti til að draga úr áhrifum vaxtabreytinga, gengisbreytinga eða breytinga á markaðsverði eða gerð að verulegu leyti í viðskiptaskyni. Til þessara tegunda viðskipta teljast öll þau viðskipti sem hafa í för með sér tekjur eða gjöld sem skal færa í rekstrarlið 6, „Gengishagnaður/tap af annarri fjármálastarfsemi“ svo sem vegna erlends gjaldeyris, eðalmálma, framseljanlegra verðbréfa, innlánsskírteina og annarra eigna.

Skýringar með rekstrarreikningi.
79. gr.

(1) Í skýringum með rekstrarlið 7, „Aðrar rekstrartekjur“, rekstrarlið 10, „Önnur rekstrargjöld“, rekstrarlið 14.1, „Óreglulegar tekjur“, og rekstrarlið 14.2, „Óregluleg gjöld“, skal í skýringum sundurliða helstu undirliði þessara rekstrarliða, enda skipti þeir máli fyrir notendur ársreikningsins.

(2) Gera skal grein fyrir í skýringum ef fyrirtæki rekur þjónustustarfsemi vegna þriðja aðila þegar umfang slíkrar starfsemi er verulegt í hlutfalli við starfsemi fyrirtækisins í heild.

80. gr.

     Þegar fyrirtæki rekur útibú í öðru landi, á hluti í erlendu dótturfyrirtæki eða erlendu hlutdeildarfyrirtæki skal í skýringum í ársreikningi sýna sundurliðun á eftirtöldum tekjuliðum eftir löndum:

1. „Vaxtatekjur o.fl.“,
3. „Tekjur af hlutabréfum o.fl. og öðrum eignarhlutum“,
4. „Þóknunartekjur o.fl.“,
6. „Gengishagnaður/tap af annarri fjármálastarfsemi“, og
7. „Aðrar rekstrartekjur“.

Fara efst á síðuna ⇑