V. KAFLI
Sérstök ákvæði um einstaka liði í efnahagsreikningi
og liði utan efnahagsreiknings.
11. gr.
Eignaliður 1. „Sjóður og óbundnar innstæður í seðlabanka o.fl.“.
(1) Til sjóðs skal telja alla löglega gjaldmiðla, þar með talda erlenda seðla og mynt.
(2) Ennfremur færast undir þennan eignalið innstæður hjá seðlabanka og póstgíró (póstbönkum) í þeim löndum þar sem fyrirtækið er með starfsemi. Slíkar innstæður verða að vera lausar til ráðstöfunar hvenær sem er. Aðrar kröfur á slík fyrirtæki á að tilgreina sem kröfur á lánastofnanir (3. eignaliður) sem útlán (4. eignaliður) eða sem markaðsskuldabréf (5. eignaliður).
12. gr.
Eignaliður 2. „Ríkisvíxlar og aðrir víxlar endurseljanlegir í seðlabanka“.
Á þennan eignalið skal færa ríkisvíxla og sambærilega víxla útgefna af opinberum aðilum sem hægt er að nota til endursölu í seðlabanka í þeim löndum þar sem fyrirtækið er með starfsemi. Á þennan eignalið má aðeins færa víxla sem fyrirtækið hefur á uppgjörsdegi skilyrðislausan rétt á að endurselja. Ríkisskuldabréf og önnur sambærileg skuldaskjöl gefin út af opinberum aðilum skulu færast undir eignalið 5, „Markaðsskuldabréf o.fl“. Við færslu sölu- og endurkaupaviðskipta með verðbréf samkvæmt þessari grein ber að fylgja ákvæðum 10. gr. reglnanna.
13. gr.
Eignaliður 3. „Kröfur á lánastofnanir o.fl.“.
(1) Á eignalið 3.1, „Bundnar kröfur á seðlabanka“, skal færa allar kröfur á seðlabanka aðrar en þær sem tilgreindar eru í 11. gr. Í skýringum skal sérgreina bundnar kröfur á seðlabanka í annars vegar bundnar kröfur samkvæmt bindiskyldureglum og hins vegar aðrar bundnar kröfur.
(2) Á eignalið 3.2, „Kröfur á lánastofnanir“, skal færa allar kröfur á lánastofnanir, innlendar og erlendar, aðrar en skuldabréf og önnur verðbréf sem færast eiga á eignalið 5, „Markaðsskuldabréf og önnur verðbréf með föstum tekjum“, sbr. 15. gr. hér á eftir. Tékkakröfur á lánastofnanir og seðlabanka færast á eignalið 3.2.
(3) Kröfur á lánastofnanir, sem tengjast framvirkum viðskiptum eða viðskiptum með skiptirétt (options), skulu færast á eignalið 3.2.
(4) Víkjandi kröfur á lánastofnanir, sem ekki eru útgefnar sem markaðsbréf, skulu færast á eignalið 3.2. sbr. 2. mgr. 23. gr.
(5) Með lánastofnun samkvæmt þessari grein er átt við fyrirtæki sem tilgreind eru í 1. tl. 1. mgr. þessara reglna , auk seðlabanka og alþjóðlegra og fjölþjóðlegra bankafyrirtækja. Undir lánastofnanir í þessum skilningi falla því eftirtaldar stofnanir:
- Viðskiptabankar og sparisjóðir, og sambærileg fyrirtæki erlendis. Ennfremur Póstgíróstofan sem heimild hefur til þess að taka á móti innlánum, sbr. lög nr. 19/2002, og sambærileg fyrirtæki erlendis,
- lánafyrirtæki og sambærileg fyrirtæki erlendis,
- Seðlabanki Íslands og sambærilegar stofnanir erlendis, og
- alþjóðlegar fjármálastofnanir og fjölþjóðlegar lánastofnanir svo sem Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) og Fjárfestingarbanki Evrópu (EIB).
14. gr.
Eignaliður 4. „ Útlán o.fl.“.
(1) Á eignalið 4.1, „Útlán til viðskiptavina“, skal færa allar kröfur, þ.m.t. áfallna vexti, á innlenda eða erlenda viðskiptavini aðra en lánastofnanir, án tillits til kröfuheitis. Kröfur, sem flokkast sem markaðsskuldabréf, skal þó færa undir eignalið 5, „Markaðsskuldabréf og önnur verðbréf með föstum tekjum“, sbr. 15. gr. hér á eftir.
(2) Á eignalið 4.2, „Eignarleigusamningar“, skal færa alla eignarleigusamninga vegna fjármögnunar- og kaupleigusamninga. Eign, sem fyrirtæki hefur yfirtekið til fullnustu fjármögnunar- eða kaupleigusamnings eða við lok samningstíma slíks samnings, skal færa undir eignalið 4.3, „Fullnustueignir“.
(3) Í skýringum með ársreikningi skulu útlán að lágmarki sundurliðuð eftir eftirstöðvatíma útlána í samræmi við viðauka III með þessum reglum, sbr. einnig 61. gr. Við sundurliðun útlána með afborgunarskilmálum skal eftirstöðvatíminn reiknast frá uppgjörsdegi til gjalddaga hverrar afborgunar.
(4) Afskriftareikningur útlána skal færast til lækkunar á viðeigandi útlánalið.
(5) Ótekjufærð afföll af kröfum skulu dragast frá viðeigandi útlánalið.
(6) Hafi fyrirtæki yfirtekið fasteign eða lausafjármuni til að tryggja fullnustu kröfu skal færa áætlað raunvirði (markaðsverð) þess undir eignalið 4.3, „Fullnustueignir“. Fjárhæð viðkomandi útlána færist til lækkunar á eignalið 4.1, „Útlán til viðskiptavina“, en yfirtekin áhvílandi lán á fullnustueign færast á skuldalið 4, „Aðrar skuldir“. Heimilt er að halda eign, sem fyrirtæki hefur eignast til fullnustu kröfu, á eignalið 4.1, „Útlán til viðskiptavina“, í allt að 6 mánuði frá því að eignin var formlega yfirtekin, enda eigi fyrirtækið enn kröfu á upprunalegan skuldara og talið sé fært að selja fullnustueignina innan eins árs frá því að eignin var yfirtekin. Fullnustueignir skal færa á áætluðu raunvirði.
(7) Á eignalið 4.3 skal einnig færa áætlað raunvirði hlutabréfa eða eignarhluta í fullnustufélögum og rekstrarfélögum, sbr. skilgreiningar í 2. gr. Útlán til sömu félaga skulu einnig færast hér enda sé fullnustufélag eða rekstrarfélag komið í meirihlutaeign fyrirtækisins og/eða annarra lánastofnana og útlánin ekki talin að fullu tryggð.
(8) Í skýringum með eignalið 4.3 skal sundurliða fullnustueignir í fasteignir og lausafjármuni svo og eignarhluti og útlán sbr. næstu mgr. á undan. Einnig skulu í skýringum koma fram upplýsingar um heildarverðmæti allra fullnustueigna fyrirtækisins, þ.e. allra fullnustueigna sem fyrirtækið er formlegur eigandi að. Einnig skulu í skýringum með þessum eignaliðum koma fram upplýsingar um eignarhluta fyrirtækis og rekstrarafkomu og eiginfjárstöðu einstakra fullnustu- og rekstrarfélaga.
(9) Sé um að ræða eignarhluta í fullnustufélagi sem er lánastofnun skal ársreikningur eða árshlutareikningur viðkomandi fyrirtækis fylgja reikningsskilunum enda sé félagið ekki með í samstæðuuppgjöri.
(10) Fjármálaeftirlitið getur veitt fyrirtæki undanþágu frá birtingu upplýsinga samkvæmt síðasta málslið 8. mgr. og 9. mgr. þessarar greinar.
15. gr.
Eignaliður 5. „Markaðsskuldabréf og önnur verðbréf með föstum tekjum“.
(1) Á eignaliði 5.1, og 5.2, „Veltuskuldabréf o.fl.“, skal færa markaðsskuldabréf og önnur skuldaskjöl, þ.m.t. markaðsverðbréf í formi víkjandi krafna, sem eru veltuverðbréf, og gefin eru út af lánastofnunum, öðrum fyrirtækjum eða opinberum aðilum. Slík skuldaskjöl, sem gefin eru út af hinum síðastnefndu, skulu þó aðeins talin með ef þau eru ekki færð undir eignalið 2, „Ríkisvíxlar og aðrir víxlar endurseljanlegir í seðlabanka“.
(2) Á eignaliði 5.3, og 5.4, „Fjárfestingarskuldabréf o.fl.“, skal færa markaðsskuldabréf og önnur skuldaskjöl, þ.m.t. víkjandi kröfur, sem teljast vera fjárfestingarverðbréf og gefin eru út af lánastofnunum, öðrum fyrirtækjum eða opinberum aðilum. Slík skuldaskjöl, sem gefin eru út af hinum síðastnefndu, skulu þó aðeins talin með ef þau eru ekki færð undir eignalið 2, „Ríkisvíxlar og aðrir víxlar endurseljanlegir í seðlabanka“.
(3) Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða skal ekki færa undir eignalið 5, heldur undir eignalið 6, „Hlutabréf og önnur verðbréf með breytilegum tekjum“.
(4) Eigin skuldabréf skulu færð til frádráttar viðeigandi skuldalið.
(5) Í skýringum með eignalið 5 skal sérgreina ríkisskuldabréf og önnur sambærileg skuldaskjöl, sem hægt er að endurselja í seðlabanka í þeim löndum þar sem fyrirtækið er með starfsemi.
16. gr.
Eignaliður 6. „Hlutabréf og önnur verðbréf með breytilegum tekjum“.
(1) Á eignalið 6.1, „Veltuhlutabréf o.fl.“, skal færa hlutabréf, hlutdeildarskírteini og aðra hluti með breytilegum tekjum sem teljast vera veltuverðbréf, aðra en þá sem teljast til eignaliða 7 og 8.
(2) Á eignalið 6.2, „Fjárfestingarhlutabréf o.fl.“, skal færa hlutabréf, hlutdeildarskírteini og aðra hluti með breytilegum tekjum sem teljast vera fjárfestingarverðbréf, aðra en þá sem teljast til eignaliða 7 og 8.
(3) Bókfært verð eigin hluta skal sérgreina í skýringum með lið 6 séu þeir ekki færðir til lækkunar á bókfærðu hlutafé/stofnfé fyrirtækisins.
17. gr.
Eignaliður 7. „Hlutir í hlutdeildarfyrirtækjum“.
Á þennan eignalið skal færa hluti í hlutdeildarfyrirtækjum, sbr. 2. gr. þessara reglna, en þó ekki hluti í fullnustu- eða rekstrarfélögum.
18. gr.
Eignaliður 8. „Hlutir í tengdum fyrirtækjum“.
Á þennan eignalið skal færa hluti í tengdum fyrirtækjum, sbr. 2. gr. þessara reglna, en þó ekki hluti í fullnustu- eða rekstrarfélögum.
19. gr.
Eignaliður 9. „Óefnislegar eignir“.
(1) Á þennan eignalið skal færa viðskiptavild, eignfærðan langtímakostnað, eignfærðan þróunarkostnað og aðrar óefnislegar eignir.
(2) Kostnað við stofnun félags má ekki eignfæra.
20. gr.
Eignaliður 10. „Rekstrarfjármunir“.
(1) Á eignalið 10.1, „Húseignir og lóðir“, skal færa allar fasteignir aðrar en fullnustueignir sem fyrirtæki hefur eignast í eigin nafni. Eignarleigusamninga samkvæmt fjármögnunar- eða kaupleigusamningum skal þó færa undir eignalið 4.2, „Eignarleigusamningar“, og eignir, sem aflað hefur verið til rekstrarútleigu, undir eignalið 11, „Rekstrarleigueignir“. Fullnustueignir skal færa undir eignalið 4.3, „Fullnustueignir“.
(2) Á eignalið 10.2, „Húsbúnaður, tæki o.fl.“, skal færa t.d. húsbúnað, skrifstofuvélar, tölvur, bifreiðar og geymsluhólf sem ekki eru hluti af fasteign.
21. gr.
Eignaliður 11. „Rekstrarleigueignir“.
Á eignalið 11, „Rekstrarleigueignir“, skal færa allar eignir sem aflað er til rekstrarleigustarfsemi.
22. gr.
Eignaliður 12. „Aðrar eignir“.
Á eignalið 12, „Aðrar eignir“,skal færa ýmsar eignir og aðrar kröfur sem falla ekki undir aðra eignaliði.
23. gr.
Eignaliður 13. „Fyrirframgreidd gjöld og áfallnar óinnheimtar tekjur“.
(1) Á þennan eignalið skal færa útgjöld sem stofnað er til á reikningsárinu, en varða síðari reikningsár, ásamt tekjum sem koma ekki til greiðslu fyrr en eftir lok reikningsárs þótt þær teljist til þess. Áfallna óinnheimta vexti skal þó færa með viðeigandi eignaliðum.
(2) Jákvæða stöðu á markaðsvirði framvirkra viðskiptasamninga um gjaldmiðilsskipti og eftir atvikum aðra álíka samninga skal færa á þennan eignalið. Hér skal eingöngu færa samtölu hreins hagnaðar af viðkomandi samningum. Neikvæð staða á markaðsvirði færist hins vegar á skuldalið 5. Gengishagnaður/tap færist á rekstrarlið 6.4 „Gengishagnaður/tap af öðrum fjármálaskjölum“. Kröfur á lánastofnanir sem tengjast sambærilegum samningum skal þó færa á eignalið 3.2. sbr. 3. mgr. 13. gr.
24. gr.
Skuldaliður 1. „Skuldir við lánastofnanir o.fl.“.
(1) Á skuldalið 1, „Skuldir við lánastofnanir o.fl.“, skal færa innlán, millibankalán og aðrar skuldir við lánastofnanir sem ekki eru í formi skuldabréfalána eða annarra framseljanlegra verðbréfa og færa skal á skuldalið 3, „Lántaka“ eða skuldalið 7, „Víkjandi skuldir“.
(2) Á skuldalið 1.1, „Gjaldkræfar skuldir“, skal færa allar gjaldkræfar skuldir við lánastofnanir að undanskildum lántökum og víkjandi skuldum sbr. 1. mgr.
(3) Á skuldalið 1.2, „Aðrar skuldir við lánastofnanir“, skal færa allar skuldir við lánastofnanir með umsömdum binditíma eða uppsagnarfresti að undanskildum lántökum og víkjandi skuldum sbr. 1. mgr.
(4) Skuldir við lánastofnanir vegna framvirkra viðskipta eða viðskipta með skiptirétt skal færa á skuldalið 1.2 sbr. 2. mgr. 28. gr. og 2. mgr. 23. gr.
(5) Hlut skulda við seðlabanka í skuldalið 1.1 og 1.2 skal sérgreina í skýringum með ársreikningi.
(6) Um nánari skilgreiningu á hugtakinu lánastofnun samkvæmt þessari grein vísast í 5. mgr. 13. gr. reglnanna.
25. gr.
Skuldaliður 2. „Innlán“.
(1) Hér skal færa öll innlán að undanskildum skuldum sem stofnað hefur verið til með útgáfu skuldabréfa eða annarra framseljanlegra verðbréfa og færa skal á skuldalið 3, „Lántaka“ eða skuldalið 7, „Víkjandi skuldir“. Innlán frá lánastofnunum skal ekki færa hér, heldur á skuldalið 1, sbr. 24. gr. reglnanna.
(2) Á skuldalið 2.1, „Óbundin innlán“, skal færa innlán sem falla undir skilgreiningu 2. gr. þessara reglna á hugtakinu „gjaldkræf skuld“.
(3) Á skuldalið 2.1, „Óbundin innlán“, skal ennfremur færa kröfur viðskiptavina vegna framvirkra viðskipta og viðskipta með skiptirétt, enda sé viðskiptavinurinn ekki lánastofnun.
(4) Á skuldalið 2.2, „Bundin innlán (allt að 3 mán)“, skal færa innlán með allt að 3 mánaða umsaminn binditíma eða uppsagnarfresti.
(5) Á skuldalið 2.3, „Bundin innlán (> 3 mán.)“, skal færa innlán með 3 mánaða eða þaðan af lengri binditíma eða uppsagnarfresti.
(6) Á skuldalið 2.4, „Sérstök innlán“, skal færa innlánsreikninga sem stofnaðir eru með tilvísun til sérstakra laga, t.d. af skattalegum ástæðum, sbr. húsnæðissparnaðarreikninga.
26. gr.
Skuldaliður 3. „Lántaka“.
(1) Á skuldalið 3, „Lántaka“, skal færa skuldir fyrirtækis, aðrar en innlán, sem stofnað er til með útgáfu skuldabréfa og annarra framseljanlegra verðbréfa. Útgefin verðbréf, sem falla undir skilgreiningu á víkjandi skuldum, skulu færð undir skuldalið 7, „Víkjandi skuldir“.
(2) Á skuldalið 3.1, „Verðbréfaútgáfa“, skal færa skuldabréfaútgáfu og útgáfu verðbréfa sem flokka má undir markaðsverðbréf, ennfremur víxla sem fyrirtæki hefur gefið út til eigin fjármögnunar og hún er aðalskuldari að.
(3) Á skuldalið 3.2, „Lán frá lánastofnunum“, skal færa skuldir við lánastofnanir sem falla undir skilgreiningu 1. mgr., aðrar en þær sem færast eiga undir skuldalið 3.1. Skammtímafyrirgreiðslu annarrar lánastofnunar skal þó ekki færa hér heldur á skuldlið 1, „Skuldir við lánastofnanir“.
(4) Á skuldalið 3.3, „Önnur lántaka“, skal færa aðrar lántökur sem falla undir skilgreiningu 1. mgr., aðrar en skuldir sem færast eiga undir skuldaliði 3.1 og 3.2.
27. gr.
Skuldaliður 4. „Aðrar skuldir“.
Á skuldalið 4, „Aðrar skuldir“, skal færa þær skuldir fyrirtækis sem ekki eru tengdar fjármögnun, svo sem almennar rekstrarskuldir, þá fjárhæð sem samsvarar tapshættu liða utan efnahagsreiknings og reiknuð opinber gjöld til greiðslu á næsta ári.
28. gr.
Skuldaliður 5. „Áfallin gjöld og fyrirframinnheimtar tekjur“.
(1) Tekjur sem greiddar eru fyrir uppgjörsdag, en varða síðari reikningsár, svo og gjöld sem koma til greiðslu síðar þótt þau tilheyri yfirstandandi reikningsári, skal færa á þennan skuldalið. Áfallna vexti skal þó færa með viðeigandi skuldaliðum.
(2) Á þennan skuldalið skal ennfremur færa neikvæða stöðu á markaðsvirði fjármunaviðskipta, sbr. 2. mgr. 23. gr.
29. gr.
Skuldaliður 6. „Reiknaðar skuldbindingar“.
(1) Á þennan skuldalið skal færa fjárhæðir sem ætlað er að standa undir reiknuðum skuldbindingum sem áfallnar eru á uppgjörsdegi þótt óvissa sé um fjárhæð þeirra eða gjalddaga.
(2) Framlög í afskriftareikning útlána og framlög vegna ábyrgða utan efnahags skal ekki færa á þennan skuldalið, heldur til frádráttar á eignalið 4 eða á skuldalið 4, sbr. 14. gr. og 27. gr.
(3) Á skuldalið 6.1, „Lífeyrisskuldbindingar“, skal færa áfallnar skuldbindingar sem fyrirtæki hefur tekist á hendur vegna lífeyrisréttinda starfsmanna, sbr. ennfremur Viðauka II með reglum þessum.
(4) Á skuldalið 6.2, „Skattskuldbindingar“, skal færa frestaða skattskuldbindingu, sbr. 47. gr.
(5) Á skuldalið 6.3, „Aðrar skuldbindingar“, skal færa t.d. neikvæðan mismun sem myndast við samstæðuuppgjör, sbr. nánar 9. kafla þessara reglna.
30. gr.
Skuldaliður 7. „Víkjandi skuldir“.
Á þennan lið skal færa skuldir sem víkja fyrir öllum öðrum kröfum en hlutafé eða stofnfé.
31. gr.
Eiginfjárliður 8. „Eigið fé“.
(1) Á eiginfjárlið 8.1, „Hlutafé/stofnfé“, skal færa innborgað hlutafé/stofnfé fyrirtækis.
(2) Á eiginfjárlið 8.2, „Varasjóðir“, skal færa þá varasjóði sem myndaðir eru, hvort sem um er að ræða lögbundna varasjóði eða ekki. Yfirverð hlutafjár skal færa á lögbundinn varasjóð sbr. 2. mgr. 100. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995.
(3) Á eiginfjárlið 8.3, „Endurmatsreikningur“ skal færa endurmat á varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum.
(4) Á eiginfjárlið 8.4, „Óráðstafað eigið fé“, skal færa þann hluta af hagnaði ársins eða hagnaði fyrri ára sem hefur ekki verið ráðstafað á aðra eiginfjárliði.
(5) Á eiginfjárlið 8.5, „Óráðstafað eigið fé“, skal færa þann hluta af hagnaði ársins eða hagnaði fyrri ára sem hefur ekki verið ráðstafað á aðra eiginfjárliði.
(6) Heimilt er að endurmeta einstaka liði innan eiginfjár í samræmi við góða reikningsskilavenju.
(7) Efnahagsliði, sem skoða á sem leiðréttingu á bókfærðu verði eignaliða, má ekki færa meðal eiginfjárliða né meðal skuldaliða, heldur skulu þeir færðir til frádráttar viðeigandi eignalið þannig að eignir í efnahagsreikningi séu tilgreindar á réttu verði.
32. gr.
Liðir utan efnahagsreiknings, 1. „Ábyrgðir o.fl.“.
(1) Liður 1, „Ábyrgðir o.fl.“, skal taka til allra viðskipta fyrirtækis þar sem það hefur gengist í ábyrgð fyrir skuldbindingar viðskiptamanns við þriðja aðila.
(2) Á lið 1.1, „Veittar ábyrgðir“, skal færa ábyrgðir á lánum, tilboðsábyrgðir, fullnustuábyrgðir og tolla- og skattaábyrgðir.
(3) Á lið 1.1, skal ennfremur færa skjalfestar ábyrgðir vegna innflutnings og staðfestar skjalfestar ábyrgðir vegna útflutnings.
(4) Á lið 1.1, skal ekki færa sölutryggingar vegna verðbréfaútgáfu og hlaupandi sölutryggingar vegna verðbréfa, heldur séu slíkar skuldbindingar færðar á lið 2.4, „Aðrar skuldbindingar utan efnahagsreiknings“, sbr. 33. gr. hér á eftir.
(5) Á lið 1.2, „Framseld skuldaskjöl o.fl.“, skal færa ábyrgðir sem verða til vegna samþykkis á víxlum og framsals á endurseldum víxlum. Ennfremur komi undir þennan lið aðrar skuldbindingar þar sem þriðji aðili á endurkröfurétt á fyrirtækið.
(6) Afskriftareikningur vegna tapshættu á liðum utan efnahagsreiknings samkvæmt þessari grein skal færður á skuldalið 4, „Aðrar skuldir“. Viðeigandi liðir utan efnahagsreiknings skulu lækkaðir um sömu fjárhæð.
33. gr.
Liðir utan efnahagsreiknings, 2. „Aðrar skuldbindingar“.
(1) Á lið 2.1, „Sala með endurkauparétti“, skal færa viðskipti sem tengjast sölu með endurkauparétti eins og lýst er í 2. mgr. 10. gr. þessara reglna.
(2) Á lið 2.2, „Eignir keyptar samkvæmt framvirkum kaupsamningi“, skal færa allar eignir, þ.m.t. skuldabréf, hlutabréf, gjaldeyri og framvirka samninga, sem keyptar eru samkvæmt framvirkum kaupsamningi til afhendingar þremur bankadögum eftir samningsdag eða síðar.
(3) Á lið 2.3, „Óafturkallanleg loforð o.fl.“, skal færa öll óafturkallanleg loforð um að veita lán eða ábyrgð, þ.m.t. ónotaðar yfirdráttarheimildir. Í skýringum skal gera grein fyrir lánsloforðum til allt að 1 árs annars vegar og yfir 1 ár hinsvegar.
(4) Á lið 2.4, „Aðrar skuldbindingar utan efnahagsreiknings“, skal færa sölutryggingar vegna verðbréfaútgáfu og hlaupandi sölutryggingar, þar með talið NIF (Note issuance facilities) og RUF (Revolving underwriting facilities), og aðrar álíka skuldbindingar. Ennfremur skal færa hér allar aðrar skuldbindingar sem ekki eru færðar í efnahagsreikning, en gætu haft áhættu í för með sér.
(5) Afskriftareikningur vegna tapshættu á liðum utan efnahagsreiknings samkvæmt þessari grein skal færður á skuldalið 4, „Aðrar skuldir“. Viðeigandi liðir utan efnahagsreiknings skulu lækkaðir um sömu fjárhæð.
(6) Í skýringum í ársreikningi skal greina frá eðli og fjárhæð skuldbindinga sem skipta máli í starfsemi fyrirtækis.