Skattalagasafn ríkisskattstjóra 19.4.2024 11:25:17

nr. 834/2003, kafli 4 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=834.2003.4)
Ξ Valmynd

IV. KAFLI
Almenn ákvæði um efnahagsreikning,
rekstrarreikning, sjóðstreymi og liði utan efnahagsreiknings.

6. gr.

(1) Við framsetningu á efnahagsreikningi, rekstrarreikningi og sjóðstreymi fyrirtækis skal fylgja þeirri uppsetningu sem fram kemur í 2. og 3. kafla þessara reglna og viðauka IV með reglunum. Heimilt er að draga saman þá undirliði í efnahagsreikningi og rekstrarreikningi sem eru með stjörnumerkingu í kafla 2 og 3, enda verði liðir sem þannig eru sameinaðir sundurliðaðir sérstaklega í skýringum í ársreikningi. Skilyrði fyrir slíkri sameiningu eru þessi:

- að slík sameining hafi ekki áhrif á að reikningsskilin gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu og afkomu fyrirtækis, og
- að slík sameining liða varpi skýrara ljósi á reikningsskilin.

(2) Að uppfylltum framangreindum skilyrðum er ennfremur heimilt að draga saman liði í sjóðstreymi. Í viðauka IV er gerð nánari grein fyrir einstökum atriðum varðandi gerð sjóðstreymis.

7. gr.

     Eftirtalda liði ber að sýna sérstaklega sem undirliði með viðeigandi liðum í efnahagsreikningi nema fjárhæð þeirra og/eða mikilvægi sé þannig að nægjanlegt sé talið að þeir séu sundurliðaðir sérstaklega í skýringum viðeigandi liða í reikningsskilunum, sbr. skilyrði í 6.gr.:

- kröfur á eða skuldir við tengd félög,
- kröfur á eða skuldir við félög sem fyrirtæki á hlutdeild í,
- kröfur á eða skuldir við dótturfélag sem fyrirtæki á hlutdeild í, enda sé ekki um samstæðuuppgjör þessara fyrirtækja að ræða,
- kröfur á eða skuldir við félag sem fyrirtæki hefur tímabundið eignast hlut í sem lið í fjárhagslegri endurskipulagningu þess félags eða til að ljúka viðskiptum við félagið, og
- víkjandi eignir, þ.e. eignir sem við slit eða gjaldþrot koma fyrst til endurgreiðslu á eftir kröfum annarra lánardrottna.

8. gr.

(1) Mat á einstökum liðum ársreiknings skal vera í samræmi við eftirfarandi almennar reglur:

  1. Gera skal ráð fyrir að fyrirtækið haldi starfsemi sinni áfram.

  2. Samræmi skal vera í notkun matsaðferða frá einu reikningsári til annars.

  3. Í mati skal gætt tilhlýðilegrar varfærni og skal þannig meðal annars:

    1. aðeins telja hagnað með sé hann þegar áunninn á uppgjörsdegi,

    2. taka til greina allar fyrirsjáanlegar skuldir og allt tap sem myndast hefur á reikningsárinu eða í tengslum við fyrri reikningsár, jafnvel þótt skuldirnar eða tapið komi fyrst í ljós milli uppgjörsdags og þess dags þegar reikningsskil eru undirrituð,

    3. taka til greina verðmætarýrnun, hvort sem tap eða hagnaður er á reikningsárinu, og

    4. þegar óvissa ríkir, velja þann kost sem er líklegastur til að leiða ekki til ofmats eigna og hreinna tekna.

  4. Taka skal til greina tekjur og gjöld sem varða reikningsárið án tillits til þess hvenær tekjur eru innheimtar eða greiðslur inntar af hendi.

  5. Þá þætti sem mynda einstaka eigna- og skuldaliði, skal meta hvern fyrir sig.

  6. Efnahagsreikningur við upphaf hvers reikningsárs skal samsvara efnahags-reikningi við lok fyrra reikningsárs.

     

(2) Óheimilt er að jafna út eignir á móti skuldum eða tekjur á móti gjöldum nema annað komi fram í reglum þessum.

(3) Frávik frá hinum almennu reglum samkvæmt þessari grein eru heimil í undantekningartilvikum. Sé um veruleg frávik að ræða skal geta þeirra í skýringum í reikningsskilum og tilgreina ástæður og áhrif á fjárhagsstöðu og afkomu.

9. gr.

(1) Þegar margar lánastofnanir hafa veitt svonefnt fjölbankalán skal sérhver lánastofnun, sem hlutdeild á í láninu, aðeins tilgreina þann hluta af heildarláninu sem hún hefur sjálf fjármagnað.

(2) Þegar um er að ræða fjölbankalán og fjármögnunin, sem lánastofnun ábyrgist, fer fram úr þeirri lánsfjárhæð, sem hún hefur veitt, skal sá hluti ábyrgðarinnar tilgreindur sem ábyrgð undir lið 1.1 í liðum utan efnahags.

10. gr.

(1) Við raunveruleg sölu- og endurkaupaviðskipti skal halda áfram að tilgreina framseldar eignir í efnahagsreikningi framseljanda. Kaupverðið, sem framseljandi tekur á móti, skal tilgreint sem skuld við afsalshafa. Að auki skal verðmæti framseldra eigna tilgreint í skýringum í ársreikningi framseljanda. Afsalshafi á ekki að tilgreina framseldar eignir í efnahagsreikningi sínum, heldur færist kaupverðið sem krafa á framseljandann.

(2) Þegar um sölu með endurkauparétti er að ræða skal framseljandi ekki tilgreina í efnahagsreikningi sínum framseldar eignir. Framseljandi skal færa undir lið 2.1, „Sala með endurkauparétti“, undir liðum utan efnahagsreiknings þá fjárhæð sem samsvarar hinu umsamda endurkaupaverði.

(3) Framvirk gjaldeyrisviðskipti, skiptiréttur, viðskipti sem fela í sér útgáfu skuldabréfa með skuldbindingu um að kaupa aftur hluta eða alla útgáfuna fyrir gjalddaga eða sambærileg viðskipti skulu ekki teljast sölu- eða endurkaupaviðskipti samkvæmt þessari grein.
 

Fara efst á síðuna ⇑