Skattalagasafn ríkisskattstjóra 20.4.2024 01:13:40

nr. 834/2003, kafli 1 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=834.2003.1)
Ξ Valmynd

I. KAFLI
Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

(1) Reglur þessar gilda fyrir eftirtalda aðila:

  1. lánastofnanir, þ.e. viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki, sbr. 1. – 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki,

  2. útibú lánastofnana með aðalstöðvar sínar í ríki utan hins evrópska efnahagssvæðis, og

  3. dótturfyrirtæki, sbr. 2. mgr. 82. gr. þessara reglna.

(2) Þeir aðilar, sem taldir eru upp í 1. mgr. þessarar greinar, nefnast fyrirtæki í eftirfarandi greinum.

(3) Reglurnar gilda ennfremur um eftirtalda aðila:

  1. samstæður þar sem móðurfyrirtæki er eitthvert þeirra fyrirtækja sem nefnt er í 1. tölul. 1. mgr. þessarar greinar, og

  2. samstæður þar sem móðurfyrirtæki er annaðhvort alfarið eða að stærstum hluta eigandi að hlutum í dótturfyrirtækjum sem eru lánastofnanir eða fyrirtæki tengd fjármálasviði.

2. gr.

     Í þessum reglum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Dótturfyrirtæki: Fyrirtæki sem hefur þau tengsl við móðurfyrirtæki sem kveðið er á um í 1. mgr. 97. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr.161/2002. Sjá einnig Hlutdeildarfyrirtæki; Samstæða, samstæðufyrirtæki; Tengt fyrirtæki; Rekstrarfélag; Fullnustufélag.

Eftirstöðvatími: Tímabil frá uppgjörsdegi til gjalddaga. Þegar um útlán eða skuldir með afborgunarskilmálum er að ræða skal eftirstöðvatími reiknaður frá uppgjörsdegi til gjalddaga hverrar afborgunar. Þegar um er að ræða sérstök innlán og önnur bundin innlán telst eftirstöðvatími sá tími sem er frá uppgjörsdegi reikningsskilanna til fyrsta mögulega útborgunardags innstæðunnar. Þegar um er að ræða yfirdráttarlán, afurðalán eða rekstrarlán telst eftirstöðvatími sá tími sem er á milli uppgjörsdags reikningsskilanna til þess dags þegar næst verður samið um framlengingu yfirdráttar/lánveitingar.

Fjárfestingarverðbréf: Markaðsskuldabréf svo og hlutabréf sem fyrirtæki hefur með formlegum hætti tekið ákvörðun um að eiga til lengri tíma, skemmst eitt ár. Til slíkra bréfa teljast ekki hlutir í hlutdeildarfyrirtækjum eða tengdum fyrirtækjum. Sjá einnig Veltuverðbréf.

Fyrirtæki tengt fjármálasviði: Fyrirtæki sem ekki er lánastofnun og starfar einkum að öflun eignarhluta eða stundar einhverja eða alla þá starfsemi sem um getur í 2.-12. tölul. 1. mgr. 20 gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Framvirk viðskipti (e. Future transactions): Viðskipti sem gerð eru upp þremur dögum eftir upphafsdag þeirra eða síðar. Sjá einnig Núviðskipti.

Fullnustufélag: Félag sem fyrirtæki hefur eignast hlut í vegna endurskipulagningar félagsins eða til fullnustu kröfu, sbr. ákvæði 22. gr. laga nr. 161/2002. Sjá einnig Rekstrarfélag.

Gjaldkræf krafa: Krafa sem fyrirtæki getur krafist endurgreiðslu á án fyrirvara. Sjá einnig Víkjandi krafa/skuld.

Gjaldkræf skuld: Skuld sem lánardrottinn getur krafist greiðslu á án fyrirvara. Sjá einnig Víkjandi krafa/skuld.

Hlutdeild: Hlutur í hlutdeildarfyrirtækjum eða tengdum fyrirtækjum sem ætlaður er til varanlegrar eignar.

Hlutdeildarfyrirtæki: Fyrirtæki, þó ekki dótturfyrirtæki, sem annað félag og dótturfyrirtæki þess eiga eignarhluta í og hafa veruleg áhrif á eða beinn og óbeinn eignarhlutur nemur 20% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti.

Hlutur: Hlutabréf í hlutafélagi eða eignarhlutdeild í eigin fé annarra félaga.

Lánastofnun: Fjármálafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 1.-4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki . Sjá einnig Fyrirtæki tengt fjármálasviði.

Markaðsverðbréf: Framseljanlegt verðbréf (skuldabréf, hlutabréf eða hlutdeildarskírteini) sem boðið er einstaklingum og/eða lögaðilum til kaups með útboði þar sem öll helstu einkenni bréfa í hverjum flokki eru hin sömu, þar á meðal nafn útgefanda (skuldara), fyrsti vaxtadagur og endurgreiðslu-, vaxta- og uppsagnarákvæði eftir því sem við á. Sjá einnig Fjárfestingarverðbréf; Veltuverðbréf.

Móðurfyrirtæki: Fyrirtæki skilgreint í 1. mgr. 97. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og 2. tölulið 3. mgr. 1. gr. þessara reglna. Sjá einnig Dótturfyrirtæki; Samstæða, samstæðufyrirtæki; Tengt fyrirtæki.

Núviðskipti (e. Spot transactions): Viðskipti sem gerð eru upp eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir upphafsdag þeirra. Sjá einnig Framvirk viðskipti.

Opinber aðili: Ríki eða sveitarfélag á Íslandi eða samsvarandi aðili í öðrum löndum.

Óvaxtaberandi útlán: Til slíkra eigna teljast öll útlán sem sérstakar afskriftir hafa verið færðar fyrir og önnur vaxtafryst útlán, sbr. ennfremur viðauka I með reglum þessum. Við flokkun óvaxtaberandi útlána er heimilt að undanskilja þau lán viðkomandi lánþega sem talin eru að fullu tryggð.

Raunveruleg sölu- og endurkaupaviðskipti: Sölu- og endurkaupaviðskipti þar sem afsalshafi hefur skuldbundið sig til að skila eignunum aftur. Sjá einnig Sala með endurkauparétti.

Rekstrarfélag: Félag sem hefur það hlutverk að sjá um eignarhald og rekstur fullnustueigna.fyrirtækis. Sjá einnig Fullnustufélag.

Sala með endurkauparétti: Sölu- og endurkaupaviðskipti þar sem afsalshafi á rétt á, en hefur ekki skuldbundið sig til, að skila eignunum aftur. Sjá einnig Raunveruleg sölu- og endurkaupaviðskipti.

Samstæða, samstæðufyrirtæki: Móðurfyrirtæki og dótturfyrirtæki þess.

Skráð verðbréf: Verðbréf sem hefur verið skráð á skipulegum verðbréfamarkaði.

Sölu- og endurkaupaviðskipti: Viðskipti sem fela í sér framsal fyrirtækis eða viðskiptavinar (framseljanda) til annars fyrirtækis eða viðskiptavinar (afsalshafa) á eignum, t.d. víxlum, skuldabréfum eða framseljanlegum verðbréfum, með samningi um að sömu eignir verði síðar framseldar aftur til framseljanda á tilteknu verði. Sjá einnig Raunveruleg sölu- og endurkaupaviðskipti; Sala með endurkauparétti.

Tengt fyrirtæki: Dótturfyrirtæki fyrirtækis, móðurfyrirtæki þess eða systurfyrirtæki (þ.e. fyrirtæki undir sama móðurfyrirtæki).

Veltuverðbréf: Markaðsverðbréf sem er ekki aflað í þeim tilgangi að halda því til varanlegrar eignar í rekstri. Sjá einnig Fjárfestingarverðbréf.

Víkjandi krafa/skuld: Krafa sem við slit eða gjaldþrot lántakanda er endurgreidd í samræmi við lánsskilmála á eftir öllum öðrum kröfum á hendur lántakanda. Sjá einnig Gjaldkræf krafa; Gjaldkræf skuld.

3. gr.

(1) Fyrirtæki samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skulu semja ársreikning, sbr. kafla 2-8 í þessum reglum og skýrslu stjórnar. Fyrirtæki samkvæmt 1. mgr. 1. gr. með heildareignir yfir 2.000 m.kr. skulu ennfremur semja árshlutareikning miðað við 30. júní ár hvert, sbr. kafla 10 í þessum reglum.

(2) Samstæður samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skulu semja ársreikning á samstæðugrundvelli, sbr. kafla 2-9 í þessum reglum og skýrslu stjórnar. Samstæður samkvæmt 3. mgr. 1. gr. með heildareignir yfir 2.000 m.kr. skulu ennfremur semja árshlutareikning miðað við 30. júní ár hvert, sbr. kafla 10 í þessum reglum.
 

Fara efst á síðuna ⇑