V. KAFLI
Matsreglur.
Almenn ákvæði.
24. gr.
Mat á einstökum liðum ársreikningsins skal byggt á tilhlýðilegri varkárni og skal eingöngu færa tekjur sem áunnar eru fyrir lok reikningsárs og taka tillit til allra fyrirsjáanlegra skuldbindinga sem hafa myndast á reikningsárinu eða á fyrri reikningsárum. Hliðstæðum aðferðum skal beitt við matið frá ári til árs.
25. gr.
Beita skal sömu matsaðferðum innan sama liðar ársreiknings þegar um fjárfestingar er að ræða sbr. 17. gr. Í skýringum skal greint frá þeim matsaðferðum sem beitt er við hvern lið fjárfestinga.
Varanlegir rekstrarfjármunir o.fl.
26. gr.
(1) [Óefnislegar eignir samkvæmt lið 1, húseignir og lóðir samkvæmt lið 2.1 og varanlegir rekstrarfjármunir samkvæmt lið 4.1 skulu færðir á kostnaðarverði. Ef raunvirði samkvæmt 1. ml. erverulega hærra en kostnaðarverð af ástæðum sem daldar eru varanlegar er heimilt að hækka bókfært verð þeirra í ársreikningi og skal matsbreytingin færð undir lið 10, „Matsbreytingar“.
(2) Eignir samkvæmt 1. mgr., sem nýtast takmarkaðan tíma vegna aldurs, slits eða af hliðstæðum ástæðum skulu afskrifaðar á kerfisbundinn hátt á áætluðum endingartíma þeirra. Óefnislegar eignir skulu þó ekki afskrifaðar á lengri tíma en fimm árum. Afskriftir skulu reiknast af kostnaðarverði. Séu þessir fjármunir endurmetnir samkvæmt 2. ml. 1. mgr. reiknast afskriftir af endurmetnu verði þeirra. Við útreikning á kostnaðarverði samkvæmt 1. og 2. ml. 1. mgr. skal taka tillit til framreiknings vegna áhrifa verðlagsbreytinga fram til ársins 2001.]1)
1)Sbr. 3. gr. reglna nr. 765/2002.
27. gr.
(1) Ef raunvirði eigna skv. 26. gr. er lægra en bókfært verð þeirra og ástæður þess verða ekki taldar skammvinnar ber að færa bókfært verð þeirra niður til samræmis við hið lægra verðgildi.
(2) Niðurfærsluna skal færa undir lið 9.2 óregluleg gjöld í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.
(3) Ef eignir hafa verið færðar niður og ástæður lækkunarinnar eiga ekki lengur við ber að færa bókfært verð þeirra til fyrra horfs.
Verðbréf.
28. gr.
(1) Skuldabréf skal færa til eignar miðað við þau vaxtakjör sem um var samið þegar bréfið var keypt eða móttekið, enda séu vaxtakjörin í samræmi við það sem almennt gerist á markaði. Hafi orðið breyting á markaðsvöxtum, sem telst varanleg og er talin hafa mikil áhrif, skal taka tillit til slíkrar breytingar við mat á skuldabréfaeign og skal matsbreytingin færð undir liði 3.6 og 4.3 í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.
(2) Skuldabréf skal færa með áföllnum vöxtum, verðbótum og gengismun á reikningsskiladegi. Verðbætur skal miða við viðeigandi vísitölu næsta mánaðar eftir lok reikningsárs. Skuldabréf í erlendum gjaldmiðli skal færa við kaupgengi gjaldmiðils í lok reikningsárs.
(3) Við mat á skuldabréfaeign skal með hæfilegri niðurfærslu taka tillit til þeirrar tapshættu sem kann að vera fyrir hendi á uppgjörsdegi og skal færa niðurfærsluna undir lið 3.8 Breyting á niðurfærslu í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.
29. gr.
(1) [Hlutabréf skal færa á kaupverði eða markaðsverði, hvort sem lægra er í lok reikningsárs, sbr. þó 30. gr.]1)
(2) Hlutdeildarskírteini skal færa á markaðsverði í lok reikningsárs.
1)Sbr. 4. gr. reglna nr. 765/2002.
30. gr.
(1) Hlutabréf sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði skal færa á markaðsverði. Með skipulegum verðbréfamarkaði er átt við eftirfarandi:
- Verðbréfaþing Íslands og hliðstæðar kauphallir innan Evrópska efnahagssvæðisins.
- Aðrir verðbréfamarkaðir innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem verðbréf ganga kaupum og sölum og sem eru opnir almenningi, starfa reglulega og eru viðurkenndir með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið metur gildan.
- Markaðir samkvæmt 1. og 2. lið sem staðsettir eru í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins og eru viðurkenndir með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið metur gildan.
(2) Hækkun eða lækkun á markaðsverði skráðra hlutabréfa skal færa undir lið 3.3 á yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris en hækkun eða lækkun á markaðsverði hlutdeildarskírteina skal færa undir lið 3.5 á sama yfirliti. Séu verðbréf sem falla undir sama lið jafnframt metin skv. 28. eða 29. gr. skal skipta viðkomandi lið í efnahagsreikningi með hliðsjón af 25. gr.
31. gr.
(1) [Þegar fjárfestingar eru færðar á kaupverði skal tilgreina ætlað markaðsverð þeirra í skýringum ársreikningsins.]1)
(2) Þegar fjárfestingar eru skráðar á skipulegum verðbréfamarkaði telst markaðsverð vera verðið á síðasta skráningardegi reikningsársins nema talin sé sérstök ástæða til að víkja frá því í einstökum tilvikum en þá skal greina frá því í skýringum.
1)Sbr. 5. gr. reglna nr. 765/2002.
Eignarhluti í dóttur- og hlutdeildarfélögum.
32. gr.
(1) Eignarhluti lífeyrissjóðs í dótturfélögum og hlutdeildarfélögum skal færður samkvæmt hlutdeildaraðferð í samræmi við hlutdeild sjóðsins í eigin fé slíkra félaga.
(2) Séu eignir og skuldir dótturfélags metnar á annan hátt en hjá móðurfélaginu skulu þessar eignir og skuldir endurmetnar eftir aðferðum móðurfélagsins, nema munur sé óverulegur.
Kröfur.
33. gr.
Meta skal kröfur með hliðsjón af tapshættu og færa framlag í afskriftarreikning eftir niðurstöðu slíks mats. Afskriftarreikningur skal myndaður með sérstökum og almennum niðurfærslum sem draga skal frá viðkomandi liðum í efnahagsreikningi. Framlag í afskriftarreikning skal færa undir lið 3.8 Breyting á niðurfærslu í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.
34. gr.
Eignir og skuldir í erlendri mynt skulu umreiknaðar í íslenskar krónur á opinberu gengi í lok reikningsárs. Nota skal opinbert gengi sem Seðlabanki Íslands auglýsir, kaupgengi fyrir eignir og sölugengi fyrir skuldir.
Áhrif verðlagsbreytinga.
35. gr.
[Við útreikning á kaup- eða kostnaðarverði samkvæmt ákvæðum 26., 29. og 31. gr. skal taka tillit til framreiknings vegna áhrifa verðlagsbreytinga fram til ársins 2001.]1)