Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.10.2024 21:09:35

nr. 55/2000, kafli 2 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=55.2000.2)
Ξ Valmynd

II. KAFLI
Almenn ákvæði.
2. gr.

(1) Ársreikning skal semja fyrir hvert reikningsár. Einnig skal semja skýrslu stjórnar sem ásamt ársreikningi myndar eina heild. Ársreikningur skal hafa að geyma yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, efnahagsreikning, sjóðstreymi og skýringar. Lífeyrissjóður sem starfar í fjárhagslega aðskildum deildum skal sýna sérgreind yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, efnahagsreikning, sjóðstreymi og skýringar.

(2) Ákvæði reglna þessara gilda um samstæðureikning eftir því sem við getur átt. Í móðurfélagi skal semja samstæðureikning. Samstæðureikningur skal hafa að geyma skýrslu stjórnar, rekstrarreikning, efnahagsreikning, sjóðstreymi og skýringar.
 

3. gr.

(1) Ársreikningur og samstæðureikningur skulu gerðir í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju og gefa glögga mynd af breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris á reikningsárinu og efnahag í lok þess. Nægi ákvæði laga eða góð reikningsskilavenja ekki til að gefa glögga mynd af breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris og efnahag skal veita frekari upplýsingar í skýringum.

(2) Ársreikningur skal settur upp með hliðstæðum hætti frá ári til árs nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars. Breytingar skulu tilgreindar og rökstuddar í skýringum.
 

4. gr.

(1) Ársreikningurinn skal gerður í því formi sem fyrir er mælt í viðauka I, sem er hluti af þessum reglum, og skal heiti liða og röð þeirra vera eins og þar segir.

(2) Sameina má liði er nema óverulegum fjárhæðum öðrum liðum.

(3) Frekari greiningu má gera undir einstökum liðum sé það nauðsynlegt til að gera reikningsskilin gleggri og að því tilskildu að heiti tilgreindra liða sé ekki breytt né röð þeirra.

(4) Í sjóðstreymi skal m.a. gerð grein fyrir inngreiðslum og útgreiðslum, ráðstöfunarfé til kaupa á verðbréfum og annarri breytingu á sjóði og veltiinnlánum. Í viðauka II er gerð grein fyrir skilgreiningum hugtaka í sjóðstreymisyfirliti.
 

5. gr.

(1) Í yfirliti um breytingar á hreinni eign til greiðslu lífeyris og efnahagsreikningi skal birta fjárhæðir úr ársreikningi fyrra árs við hlið viðkomandi liða. Gæta skal þess að einstakir liðir séu samanburðarhæfir milli ára, en ef svo er ekki skal lagfæra liði fyrra árs og gera grein fyrir breytingum í skýringum.

(2) Sé ekki um neina fjárhæð að ræða undir einhverjum lið skal hans getið í ársreikningnum hafi einhver fjárhæð verið þar árið áður.
 

6. gr.

     Ef eigna- eða skuldaliður heyrir undir fleiri en einn lið í viðauka I skal tengsla getið annaðhvort þar sem liðurinn er færður, eða í skýringum ef slíkt er nauðsynlegt til skilnings á ársreikningnum.
 

Fara efst á síðuna ⇑