Skattalagasafn ríkisskattstjóra 23.11.2024 13:15:12

Lög nr. 50/1988, kafli 1 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=50.1988.1)
Ξ Valmynd

I. KAFLI
Skattskyldusvið.

2. gr.

(1) [Skattskyldan nær til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra.]1) Með vörum í þessu sambandi teljast ekki fasteignir, en hins vegar rafmagn, varmi og önnur orka. Hlutabréf, skuldabréf, eyðublöð og aðrir slíkir hlutir eru vörur þegar þeir eru látnir í té sem prentvarningur. Peningaseðlar, mynt og frímerki eru vörur þegar þeir hlutir eru seldir sem söfnunargripir.

(2) Skattskyldan nær til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sbr. þó 3. mgr.

(3) [Eftirtalin vinna og þjónusta er undanþegin virðisaukaskatti:]1)

  1. Þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo og lækningar, [tannlækningar, önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta og sjúkraflutningar]9).
  2. Félagsleg þjónusta, svo sem rekstur leikskóla, barnaheimila, skóladagheimila og upptökuheimila og önnur hliðstæð þjónusta.
  3. [Rekstur skóla og menntastofnana, svo og ökukennsla, flugkennsla og danskennsla.]1)
  4. [Starfsemi safna, svo sem bókasafna, listasafna og náttúrugripasafna, og hliðstæð menningarstarfsemi. Sama gildir um aðgangseyri að tónleikum, [---]8) listdanssýningum, leiksýningum og leikhúsum, enda tengist samkomur þessar ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi.]1)
  5. [Íþróttastarfsemi. Aðgangseyrir að íþróttamótum, íþróttakappleikjum og íþróttasýningum. Jafnframt aðgangseyrir og aðrar þóknanir fyrir afnot af íþróttamannvirkjum til íþróttaiðkunar, svo sem íþróttasölum, íþróttavöllum, sundlaugum og skíðalyftum ásamt íþróttabúnaði mannvirkjanna. Enn fremur aðgangseyrir að líkamsræktarstöðvum.]1)9)
  6. [Almenningssamgöngur, þ.e. fastar ferðir á ákveðinni leið innan lands samkvæmt fyrirframbirtri áætlun, jafnt á landi, í lofti og á legi. Undanþágan nær einnig til skipulagðrar ferðaþjónustu fatlaðs fólks, [skipulagðrar ferðaþjónustu aldraðra]10) og skipulagðs flutnings skólabarna. Sama gildir um akstur leigubifreiða. Að því leyti sem fólksflutningar eru undanþegnir samkvæmt ákvæði þessu nær undanþágan til farangurs farþega og flutnings ökutækja sem er í beinum tengslum við flutning farþega.]2)3)9)
  7. [Póstþjónusta vegna bréfasendinga, svo sem móttaka og dreifing á árituðum bréfum, þ.m.t. póstkortum, blöðum og tímaritum.]4)9)11)
  8. [[Fasteignaleiga og útleiga bifreiðastæða. Útleiga hótel- og gistiherbergja og útleiga tjaldstæða er þó skattskyld, svo og önnur gistiþjónusta þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar.]3) Sama gildir um sölu á aðstöðu fyrir veitingar og samkomur þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar.]2)
  9. [---]12)
  10. [Sala á og milliganga um fjármálaþjónustu, þó ekki eignaleigu lausafjár, útleigu geymsluhólfa eða ráðgjafarþjónustu, tækniþjónustu og aðra þjónustu sem ekki er veitt í beinum tengslum við sölu fjármálaþjónustu. Undir ákvæðið fellur m.a.:
    1. vátryggingastarfsemi og dreifing vátrygginga,
    2. móttaka innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi,
    3. útlánastarfsemi,
    4. greiðsluþjónusta,
    5. viðskipti og þjónusta með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti,
    6. rekstur verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða,
    7. útgáfa rafeyris.]12)
  11. Happdrætti og getraunastarfsemi.
  12. Starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi.
  13. [---]2)3)9)
  14. Útfararþjónusta og prestsþjónusta hvers konar.
  15. [---]1)

(4) Undanþágur skv. 3. mgr. ná aðeins til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu sem þar getur, en ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi, sbr. 3. og 4. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr.

(5) [Góðgerðarstarfsemi er undanþegin skattskyldu, enda renni hagnaður af henni að öllu leyti til lögaðila sem fellur undir 9. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Skilyrði fyrir undanþágu eru auk þess að starfsemin sé á ábyrgð og fjárhagslegri áhættu aðila sem hefur með höndum góðgerðarstarfsemi og að hann hafi fengið staðfestingu Skattsins um að framangreind skilyrði séu uppfyllt. Undanþága samkvæmt þessari málsgrein tekur eingöngu til eftirtalinnar starfsemi:

  1. basarsölu, merkjasölu og annarrar hliðstæðrar sölu, þ.m.t. sölu í netverslun, enda vari starfsemin ekki lengur en í 5 daga í hverjum mánuði eða í 25 daga sé um árlegan atburð að ræða,
  2. söfnunar og sölu verðlítilla notaðra muna, enda sé einungis selt til skattskyldra aðila,
  3. sölu nytjamarkaða á notuðum munum sem seljandi hefur fengið afhenta án endurgjalds
  4. sölu listaverka, enda falli listaverkin undir tollskrárnúmer 9701.1000–9703.0000.]13)

(6) [Frumsala tilefnismyntar sem gefin er út af Seðlabanka Íslands er undanþegin skattskyldu, enda þótt söluverð sé hærra en ákvæðisverði nemur.]6)

(7) [[Ráðherra]8) er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir undanþágum samkvæmt þessari grein.]1)

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 119/1989. 2)Sbr. 46. gr. laga nr. 111/1992. 3)Sbr. 16. gr. laga nr. 122/1993. 4)Sbr. 1. gr. laga nr. 46/1995. 5)Sbr. 1. gr. laga nr. 105/2000. 6)Sbr. 127. gr. laga nr. 126/2011. 7)Sbr. 1. gr. laga nr. 69/2012. 8)Sbr. 1. gr. laga nr. 146/2012. 9)Sbr. 1. gr. laga nr. 124/201410)Sbr. 56. gr. laga nr. 125/2015. 11)Sbr. 43. gr. laga nr. 98/201912)Sbr. 1. gr. laga nr. 141/202013)Sbr. 6. gr. laga nr. 32/2021

Fara efst á síðuna ⇑