Skattalagasafn ríkisskattstjóra 29.3.2024 00:25:17

Lög nr. 3/2006, kafli 5 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=3.2006.5)
Ξ Valmynd

V. KAFLI

Skýringar.
43. gr.

[(1) Í skýringum í ársreikningi skal a.m.k. veita upplýsingar um þau atriði sem tilgreind eru í 44.–64. gr., auk þeirra upplýsinga sem krafist er samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara. Enn fremur skulu veittar upplýsingar um:

  1. heiti félagsins, félagsform, heimilisfesti aðalskrifstofu félagsins og ef við á hvort verið sé að slíta félaginu,
  2. grundvöll reikningsskilanna auk helstu reikningsskilaaðferða, þ.m.t. matsaðferðir og útskýringar á viðkomandi reikningsskilaaðferðum,
  3. fjárhæðir og eðli einstakra liða í rekstrarreikningi og efnahagsreikningi sem eru óvenjulegir miðað við stærð eða tíðni,
  4. það gengi sem miðað er við þegar fjárhæðir í reikningsskilunum eru byggðar á erlendum gjaldmiðlum og til samanburðar það gengi sem við var miðað í reikningsskilum fyrra árs.

(2) Þegar skýringar við einstaka liði rekstrarreiknings og efnahagsreiknings eru settar fram skulu þær vera í þeirri röð sem viðkomandi liðir eru settir fram í í rekstrarreikningi og efnahagsreikningi.]1)

1)Sbr. 29. gr. laga nr. 73/2016.

44. gr.

[Veita skal upplýsingar um eftirfarandi þegar varanlegir rekstrarfjármunir eru endurmetnir skv. 31. gr.:

  1. aðferðir sem beitt var við endurmatið, ásamt upplýsingum um helstu forsendur sem liggja að baki matsaðferðum, upplýsingum um afskriftir endurmetinna varanlegra rekstrarfjármuna og hvort endurmatið hafi verið unnið af óháðum aðila eða ekki,
  2. fyrir hvern flokk varanlegra rekstrarfjármuna sem hefur verið endurmetinn skal upplýsa um hvert bókfært verð viðkomandi eigna hefði verið ef endurmat hefði ekki farið fram og
  3. hreyfingar á endurmatsreikningi á árinu, þ.m.t. matsbreytingar ársins og uppsafnaðar matsbreytingar við upphaf og lok fjárhagsárs ásamt upplýsingum um skattalega meðferð viðkomandi liða.]1)

1)Sbr. 30. gr. laga nr. 73/2016.

45. gr.

Veita skal eftirfarandi upplýsingar þegar fjármálagerningar, [fjárfestingarfasteignir eða eignir sem verða til við eldi lifandi dýra og ræktun plantna eru metnar til gangvirðis skv. 37. eða 39. gr.]1):

  1. helstu forsendur sem liggja að baki matslíkönum og matsaðferðum þegar gangvirði er ákvarðað skv. 3. tölul. 2. mgr. 37. gr.,
  2. breytingar á virði fyrir hvern flokk fjármálagerninga [og annarra eigna skv. 1.–3. tölul. 2. mgr. 37. gr. ]1),
  3. umfang og eðli hvers flokks afleiðusamninga, þ.m.t. mikilvægi skilmála og skilyrði sem gætu haft áhrif á fjárhæð, tímasetningu og áreiðanleika framtíðarfjárstreymis og
  4. hreyfingar á gangvirðisreikningi á árinu.
1) Sbr. 31. gr. laga nr. 73/2016.
 

46. gr.

[…]1)

(1) Þegar um er að ræða áhættufjármuni, sem eru fjármálagerningar í skilningi [17. tölul. 2. gr. ]1), og niðurfærsla í samræmi við 30. gr. hefur ekki farið fram skal upplýsa um bókfært verð og gangvirði einstakra eigna eða flokka eigna. Rökstyðja skal forsendur þess álits að um skammvinna verðlækkun sé að ræða.

(2) Fyrir fjárfestingar í dóttur- og hlutdeildarfélögum, sbr. 40. gr., skal jafnframt upplýst um gangvirði einstakra eignarhluta eða eignaflokka.

1)Sbr. 32. gr. laga nr. 73/2016.

47. gr.

Ef samsetning á starfsemi félags breytist á reikningsárinu skal veita upplýsingar um það. Ef ekki er hægt að aðlaga fjárhæðir ársreiknings fyrra árs skal gera grein fyrir því á fullnægjandi hátt í skýringum.

48. gr.

(1) Tilgreina skal nöfn, heimilisföng og félagsform dótturfélaga og hlutdeildarfélaga. Geta skal hlutdeildar í hverju þeirra fyrir sig og eigin fjár þeirra samtals, svo og rekstrarárangurs síðasta reikningsárs. Ekki er nauðsynlegt að veita þessar upplýsingar ef þær hafa óverulega þýðingu.

(2) Heimilt er að víkja frá ákvæðum 1. mgr. um upplýsingar um eigið fé og rekstrarárangur dóttur- og hlutdeildarfélaga ef:

  1. hlutdeildarfélag birtir ekki ársreikning sinn og hlutur félagsins í eigin fé þess er minni en 50%,
  2. reikningsskil dótturfélags eru hluti af samstæðureikningi félagsins eða
  3. félagið metur eignarhluta sína samkvæmt hlutdeildaraðferð, sbr. 40. gr.

49. gr.

Í skýringum skal tilgreina nöfn, heimilisföng og form félaga með ótakmarkaðri ábyrgð sem félagið er aðili að. Ekki þarf að gefa þessar upplýsingar ef þær hafa óverulega þýðingu. Ákvæði 2. mgr. 48. gr. gilda einnig eftir því sem við á.

50. gr.

Ef eignarhlutum í félagi er skipt í flokka skal sérgreina þá og tilgreina fjölda hluta og nafnverð þeirra eða bókfært verð ef nafnverð er ekki fyrir hendi. Í hlutafélögum skal ávallt tilgreina fjölda hluta og nafnverð þeirra.

51. gr.

(1) Hafi félagið tekið skuldabréfalán er veitir lánardrottnum rétt til að breyta kröfum sínum á hendur félaginu í hluti í því skal tilgreina eftirstöðvar hvers láns, skiptihlutfall og frest þann sem veittur hefur verið til breytingar í hluti.

(2) Hafi skuldabréfalán með rétti til vaxta verið tekið og vaxtakjörin ráðast að nokkru eða öllu leyti af rekstrarárangri félagsins skal tilgreina eftirstöðvar hvers láns og hina umsömdu ávöxtun.

(3) Sams konar upplýsingar skal veita um hlutdeildarskírteini og önnur sambærileg réttindi eftir því sem við á, m.a. um fjölda þeirra.

52. gr.

(1) Veita skal upplýsingar um þann hluta skulda, sem fellur árlega til greiðslu á næstu fimm árum frá lokum reikningsárs, annars vegar og hins vegar vegna þess hluta sem fellur til greiðslu síðar.

(2) Hafi félag sett eignir að veði skal veita upplýsingar um fjárhæð veðsetninganna og bókfært verð veðsettra eigna, sundurliðað eftir eignum. Heildartryggingar í þágu dótturfélaga og annarra félaga innan sömu samstæðu skulu tilgreindar sérstaklega.

(3) Veita skal upplýsingar um heildarfjárhæðir lífeyris-, ábyrgðar- og tryggingarskuldbindinga, seld viðskiptabréf og aðrar fjárskuldbindingar sem eru ekki tilfærðar í efnahagsreikningi, að því leyti sem það skiptir máli við mat á fjárhagsstöðu. Skuldbindingar gagnvart móðurfélagi og dótturfélögum þess skal tilgreina sérstaklega.

(4) Hafi félagið gert leigusamninga til lengri tíma en eins árs, sem nema verulegum fjárhæðum og ekki koma fram í efnahagsreikningi, skulu slíkar skuldbindingar tilgreindar sérstaklega.

53. gr.

(1) Tilgreina skal fjárhæðir lána, svo og veðsetningar, ábyrgðir og tryggingar sem veittar hafa verið félagsaðilum eða stjórnendum félags eða móðurfélags þess vegna tengsla þessara aðila við félögin, sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála.

(2) Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við gagnvart einstaklingum, nátengdum þeim sem þar eru taldir.

54. gr.

Upplýsa skal um síðasta opinbert fasteignamat. Sama á við um vátryggingarverðmæti varanlegra rekstrarfjármuna.

55. gr.

Upplýsa skal um hvernig hagnaður af langtímaverkefnum er innleystur í rekstrarreikningi.

56. gr.

(1) Félög skv. [c- og d-lið 11. tölul. 2. gr. ]1) skulu upplýsa um skiptingu rekstrartekna eftir starfsþáttum og markaðssvæðum ef þessir þættir og svæði hafa veruleg áhrif í rekstri félaganna.
 
[(2) Félög skv. 9. tölul. og c- og d-lið 11. tölul. 2. gr. skulu upplýsa um heildarfjárhæð þóknana til hvers endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis vegna endurskoðunar á ársreikningi og samstæðureikningi. Félög skv. 1. málsl. skulu einnig upplýsa um heildarfjárhæðir þóknana til hvers endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis vegna annarrar vinnu, þ.m.t. vinnu við aðstoð vegna skattskila fyrirtækisins og rekstrarráðgjafar.]1)

1) Sbr. 33. gr. laga nr. 73/2016.

57. gr.

(1) Upplýsa skal um heildarfjárhæð skatta vegna rekstrar á árinu og eigna í lok þess.

(2) Upplýsa skal um skattaleg áhrif af óreglulegum rekstrarliðum.

(3) Upplýsa skal um frestaða skattskuldbindingu eða skattinneign vegna mismunar á gjaldfærðum sköttum á reikningsárinu og fyrri árum annars vegar og þeim sköttum, sem álagðir eru vegna sömu ára, hins vegar nema þessar upplýsingar hafi óverulega þýðingu.

(4) Upplýsingar skv. 3. mgr. skulu bera með sér á hvaða liðum ársreiknings skattkvöðin hvílir.

58. gr.

Upplýsa skal um heildarlaunakostnað og fjölda [ársverka]1) að meðaltali á reikningsári. Samsvarandi upplýsingar skal veita fyrir fyrra reikningsár.

1) Sbr. 34. gr. laga nr. 73/2016.

59. gr.

Félög skv. [c- og d-lið 11. tölul. 2. gr. ]1)  skulu veita upplýsingar um starfsmannakostnað, þ.m.t. launakostnað, eftirlaun, iðgjöld til lífeyrissjóða og annan launatengdan kostnað. Veita skal enn fremur upplýsingar um heildarlaun, þóknanir og ágóðahluta til núverandi og fyrrverandi stjórnenda félags vegna starfa í þágu þess. Greina skal frá samningum sem gerðir hafa verið við stjórn, framkvæmdastjóra eða starfsmenn um eftirlaun og tilgreina heildarskuldbindingar. Samsvarandi upplýsingar skal veita fyrir fyrra reikningsár.
1) Sbr. 35. gr. laga nr. 73/2016

60. gr.

(1) Eftirfarandi upplýsingar skal veita um eign félags á eigin hlutum:

  1. fjölda og nafnverð eigin hluta, svo og hlutfall þeirra af heildarhlutum,
  2. fjölda og nafnverð eigin hluta sem hafa verið keyptir eða seldir á reikningsárinu, svo og kaup- og söluverð þeirra og
  3. ástæður þess að félagið eignaðist eigin hluti á reikningsárinu.

(2) Sömu upplýsingarnar og taldar eru í 1. mgr. skal veita ef tekið hefur verið veð í eigin hlutum.

(3) Sömu upplýsingar og getið er í 1. og 2. mgr. skal veita um hluti í félagi sem dótturfélag þess hefur eignast eða látið af hendi á reikningsárinu.

61. gr.

Sundurliða skal breytingar á eigin fé félags á reikningsárinu.

62. gr.

(1) Félag, sem er hluti samstæðu, skal tilgreina nafn og aðsetur móðurfélags síns og móðurfélags heildarsamstæðunnar.

(2) Enn fremur skal upplýsa um hvar samstæðureikningar erlendra móðurfélaga skv. 1. mgr. liggja frammi.

63. gr.

[Félög skv. c- og d-lið 11. tölul. 2. gr. skulu gera grein fyrir viðskiptum við tengda aðila, þ.m.t. á hverju tengslin við viðkomandi aðila byggjast, fjárhæð slíkra viðskipta og aðrar upplýsingar um viðskiptin sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að leggja mat á fjárhagsstöðu félagsins.]1)   […]1)  

1)Sbr. 36. gr. laga nr. 73/2016

64. gr.

Félög skv. [9. tölul. og c- og d-lið 11. tölul. 2. gr.]1) skulu upplýsa um starfsemi sem er lögð niður, lokað eða hætt á reikningsárinu eða samkvæmt áætlun skal láta af hendi, loka eða hætta, að því tilskildu að hægt sé að skilja hana frá annarri starfsemi. Í því felst m.a. að tilgreina, að svo miklu leyti sem unnt er, hagnað eða tap af aflagðri starfsemi ásamt skattalegum áhrifum og áhrif hennar á flokka yfirlits um sjóðstreymi.

1)Sbr. 37. gr. laga nr. 73/2016

Fara efst á síðuna ⇑