Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 17:22:49

nr. 532/2003, kafli 8 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=532.2003.8)
Ξ Valmynd

VIII. kafli
Könnun árshlutareikninga fjármálafyrirtækja.
14. gr.

(1) Endurskoðandi skal því aðeins árita árshlutareikning sem kannaðan að hann þekki vel til starfsemi fyrirtækisins og rekstrarumhverfis þess.

(2) Könnun á árshlutareikningum byggist á mati á mikilvægi og áhættu með sama hætti og þegar um endurskoðun er að ræða, en vinna endurskoðanda er hins vegar ekki eins umfangsmikil og við endurskoðun.

(3) Við framkvæmd könnunar á árshlutareikningi skal endurskoðandi með greiningaraðgerðum meta innra samræmi reikningsskila og hvort afkoma og breytingar á eignum og skuldum fyrirtækisins séu eðlilegar og í samræmi við þá þekkingu sem endurskoðandi hefur á starfsemi fyrirtækisins. Í þessu felst m.a. að endurskoðandi skal meta þróun í stærstu útlánunum, greiðslutryggingum og afskriftaframlögum og endurskoðandi skal með fyrirspurnum afla vitneskju um þau atvik eftir lok uppgjörstímabils, fram til þess dags sem áritun endurskoðanda er dagsett, sem gætu haft verulega þýðingu fyrir reikningsskilin.

(4) Könnun felur í sér greiningaraðgerðir og fyrirspurnir sem gerðar eru í því skyni að staðfesta niðurstöðu reikningsskila og að gera enn frekari athuganir ef þær aðgerðir reynast ekki fullnægjandi. Umfang og eðli þeirra aðgerða sem endurskoðandi telur þörf á að beita í hverju einstöku tilfelli byggist á faglegri þekkingu hans og þekkingu hans á einstökum áhættuþáttum í reikningsskilum fyrirtækisins.

(5) Komist endurskoðandi að því að reikningsskilum sé áfátt í verulegum atriðum skal hann framkvæma frekari athuganir til þess að geta tekið ákvörðun um fyrirvaralausa yfirlýsingu í áritun sinni eða hvort sérstakur fyrirvari sé nauðsynlegur.

(6) Vinnuskjöl endurskoðanda um könnun árshlutareiknings skulu innihalda lýsingu á því í hverju vinna hans var fólgin ásamt niðurstöðum.

(7) Að lokinni könnun sinni skal endurskoðandi gefa yfirlýsingu um reikningsskilin með áritun á þau. Yfirlýsingin skal vera ótvíræð, skýr og skiljanleg og þar skal gerð grein fyrir könnuninni og umfangi hennar. Hafi endurskoðandi komist að raun um umtalsverða skekkju, verulega óvissu, að mikilvægar upplýsingar vanti í árshlutareikning eða að líkur séu á að eigið fé hlutaðeigandi fyrirtækis sé undir lögbundnu lágmarki skal endurskoðandi setja fram fyrirvara og gera grein fyrir í hverju hann er fólginn. Séu reikningsskilin einhverjum annmörkum háð m.t.t. laga og reglna um bókhald og reikningsskil fjármálafyrirtækja skal endurskoðandi ekki gefa yfirlýsingu um afkomu eða efnahag fyrirtækisins.
 

Fara efst á síðuna ⇑