Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 13:23:47

nr. 409/2009 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=409.2009.0)
Ξ Valmynd

Reglur
nr. 409/2009, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar.


1. gr.
Gildissvið.

     Eftir ákvæðum reglna þessara getur Evrópska einkaleyfastofnunin, hér á eftir nefnd „stofnunin“, fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem hún hefur greitt hér á landi vegna kaupa á vörum og þjónustu í þágu opinberrar starfsemi hennar.
 

2. gr.
Endurgreiðslutímabil o.fl.

(1) Endurgreiðslutímabil samkvæmt reglum þessum er sex mánuðir, janúar til og með júní og júlí til og með desember.

(2) Fjárhæð virðisaukaskatts sem sótt er um endurgreiðslu á hverju sinni skal nema a.m.k. 29.400 kr.*1)

(3) Stofnunin getur fengið heimild skattstjóra*2) til aukauppgjörs samkvæmt almennum reglum um uppgjörstímabil virðisaukaskatts nái endurgreiðslufjárhæð 200.000 kr. á tímabilinu.

*1)Fjárhæðin breytist 1. janúar ár hvert í samræmi við byggingarvísitölu. Frá 1. janúar 2022 er hún 48.100 kr. *2)Nú ríkisskattstjóri.

3. gr.

     Umsókn um endurgreiðslu, í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, skal hafa borist skattstjóranum í Reykjavík*1) í síðasta lagi sex mánuðum eftir lok þess endurgreiðslutímabils sem umsóknin tekur til. Með umsókn skal fylgja frumrit sölureikninga eða greiðsluskjala úr tolli þar sem kemur fram sá virðisaukaskattur sem stofnunin hefur greitt. Þessi skjöl skulu endursend stofnuninni að lokinni afgreiðslu. 

*1)Nú ríkisskattstjóri.

4. gr.
Afgreiðsla á umsóknum.

(1) Skattstjórinn í Reykjavík*1) afgreiðir beiðnir um endurgreiðslu samkvæmt reglum þessum. Skattstjóri*1) skal rannsaka endurgreiðslubeiðni og getur hann í því sambandi krafið stofnunina og þá sem selt hafa henni vörur þær og þjónustu sem umsókn varðar nánari skýringa á viðskiptunum. Skattstjóri*1) skal tilkynna Fjársýslu ríkisins um samþykki sitt til endurgreiðslu. Fjársýsla ríkisins annast endurgreiðslu.

(2) Umsóknir sem berast innan skilafrests og með réttum fylgigögnum skulu afgreiddar eigi síðar en einum mánuði og fimm dögum eftir lok endurgreiðslutímabils. Endurgreiðslubeiðnir sem berast eftir lok skilafrests skulu afgreiddar með beiðnum næsta endurgreiðslutímabils.

*1)Nú ríkisskattstjóri.
 

5. gr.
Gildistaka.

     Reglur þessar, sem settar eru vegna skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt 4. gr. bókunar um forréttindi og friðhelgi Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar við samning um evrópska einkaleyfasamninginn sem birtur var í C-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 1/2004, taka þegar gildi. 
 

Bráðabirgðaákvæði.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. ml. 3. gr. reglna þessara er endurgreiðsla virðisaukaskatts heimil frá gildistöku evrópska einkaleyfasamningsins þann 1. nóvember 2004 samkvæmt auglýsingu nr. 1/2004 í C-deild Stjórnartíðinda.
 

Fara efst á síðuna ⇑