Skattalagasafn ríkisskattstjóra 21.11.2024 12:47:06

nr. 118/2008 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=118.2008.0)
Ξ Valmynd

Reglur
nr. 118/2008, um skyldur áfengisframleiðanda við framleiðslu, geymslu, flutning, förgun, sölu eða afhendingu á áfengi.

Afmörkun.
1. gr.

     Reglur þessar eru settar sem liður í skyldubundnu eftirlitshlutverki ríkisskattstjóra með innlendri áfengisframleiðslu og taka til eftirfarandi þátta:

  1. Gjaldskyldrar framleiðslu og framleiðenda, sbr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. laga nr. 96/1995.

  2. Framleiðslu og átöppunar.

  3. Lokunar ölkúta (söluumbúða) með innsigli.

  4. Töku og meðferðar rannsóknarsýna.

  5. Afskriftar og förgunar skemmds eða gallaðs áfengis.
     

2. gr.

     Með áfengi í reglum þessum er átt við hvern þann vökva, sem inniheldur meira en 2,25% af vínanda að rúmmáli, mældan við 20°C hita. Áfengi flokkast með eftirgreindum hætti:

  1. Öl sem flokkast undir vörulið 2203 í tollskrá og blöndur af öli og óáfengum drykkjum sem flokkast undir vörulið 2206.

  2. Vín sem flokkast undir vöruliði 2204 og 2205 í tollskrá, svo og gerjaðar drykkjarvörur sem falla undir vörulið 2206 og ekki hafa verið blandaðar öðrum drykkjarvörum.

  3. Annað áfengi.
     

3. gr.

     Með eftirlitsmanni í reglum þessum er átt við starfsmann ríkisskattstjóra, sem hann hefur falið eftirlitsstörf, og starfsmann skattstjóra sem rækir eftirlitshlutverk ríkisskattstjóra í hans umboði.
 

Átöppun og flutningur á lager.
4. gr.

(1) Áfengisframleiðandi skal tilkynna eftirlitsmanni um fyrirhugaða átöppun, með tölvupósti eða á annan sannanlegan hátt, svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en fyrir kl. 16.00 næsta virkan dag fyrir átöppun.

(2) Við átöppun, hvort heldur dósa, glerflaskna, plastflaskna, smáflaskna (mineratora) eða þrýstikúta, skal notast við teljara, rennslismæli eða aðra aðferð, sem viðurkennd er af ríkisskattstjóra til ákvörðunar á magni framleidds áfengis.

(3) Gera skal framleiðsluskýrslu í lok hverrar átöppunar. Á framleiðsluskýrslu skal koma fram framleiðslunúmer, vöruheiti, stærð, tegund umbúða, fjöldi framleiddra eininga, fjöldi rannsóknareininga og fjöldi eininga sem fargað er. Framleiðsluskýrsla skal vera fyrirfram númeruð í hlaupandi númeraröð og undirrituð a.m.k. af tveimur starfsmönnum. Eftir lok hverrar framleiðslulotu skal án tafar farga því sem ekki fer til sölu.

(4) Á flutningsskýrslu með vörum á lager skal koma fram framleiðslunúmer, vöruheiti, stærð, tegund umbúða og fjöldi eininga. Flutningsskýrsla skal vera fyrirfram númeruð í hlaupandi númeraröð og undirrituð a.m.k. af tveimur starfsmönnum. Ef rýrnun verður á vöru frá verksmiðju til lagers skal hún færð á skýrsluna og bæði bílstjóri og móttakandi vöru staðfesta það

(5) Framleiðsluskýrslum og flutningsskýrslum skal skilað til ríkisskattstjóra ásamt skilagreinum áfengisgjalds 1. og 15. dag hvers mánaðar.

(6) Verði rýrnun á vörulager án þess að sala eða afhending komi fram í birgðabókhaldi ber gjaldskyldum framleiðanda ótilkvöddum að greiða áfengisgjald vegna vörurýrnunar á því uppgjörstímabili þegar rýrnunar verður vart.

(7) Lagergeymsla skal fullnægja skilyrðum 7. gr. reglugerðar nr. 828/2005, um framleiðslu, innflutning og heildsölu áfengis í atvinnuskyni og skal lager vera aðgengilegur, þannig að hægt verði að gera vörutalningar á auðveldan hátt skv. 14. gr. reglugerðar nr. 505/1998, um áfengisgjald.
 

Innsigli.
5. gr.

     Kútum (söluumbúðum) öls skv. 1. tölul. 2. gr., 20 lítra eða stærri, skal framleiðandi við átöppun loka með innsiglishettum sem ríkisskattstjóri hefur samþykkt til þeirra nota.
 

Rannsóknarsýni.
6. gr.

(1) Áfengisframleiðanda er heimilt, án greiðslu áfengisgjalds, að taka sýni af fullunnum framleiðsluvörum sínum til geymslu og rannsóknar síðar, þ.m.t. til bragð- og lyktgreiningar (smökkunar), sem hér segir:

  1. Af áfengi skv. 1. tölul. 2. gr., þ.e. öli og ölblöndum, sem tappað er á dósir eða flöskur, er við hverja átöppun (framleiðslulotu) heimilt að taka sem rannsóknarsýni eina dós eða flösku af hverjum tólfhundruð og fimmtíu dósum eða flöskum sem tappað er á í framleiðslulotunni. Framleiðslulota í þessu sambandi miðast við átöppun á hverja og eina umbúðategund.

  2. Af áfengi skv. 1. tölul. 2. gr., þ.e. öli og ölblöndum, sem tappað er á kúta er við hverja átöppun (framleiðslulotu) heimilt að taka sem rannsóknarsýni einn kút, enda sé í framleiðslulotunni tappað á minnst eitthundrað kúta.

  3. Af áfengi skv. 2. og 3. tölul. 2. gr. er heimilt að taka sem rannsóknarsýni allt að einum lítra áfengis úr hverri lögun, óháð því hvort löguninni er tappað á umbúðir í einni framleiðslulotu eða fleiri lotum. Nýti framleiðandi heimildina skal rannsóknarsýni tekið við átöppun. Hver lögun í þessu sambandi afmarkast í samræmi við blöndunarskýrslur.

(2) Við sérstakar aðstæður getur eftirlitsmaður heimilað áfengisframleiðanda frekari töku sýna til fyrirfram tiltekinna rannsókna.

(3) Rannsóknarsýni skulu eingöngu notuð til rannsóknar.
 

7. gr.

     Við átöppun áfengis skv. 1. tölul. 2. gr. er framleiðanda heimilt að taka eftir þörfum sýni til efnafræðilegra rannsókna meðan á átöppun stendur. Í lok átöppunar (framleiðslulotu) skal farga ónotuðum sýnum.
 

Afskrift og förgun.
8. gr.

(1) Skemmt eða gallað áfengi, sem framleiðandi á í birgðageymslum sínum og ekki hefur verið greitt áfengisgjald af, má því aðeins afskrifa og farga án greiðslu áfengisgjalds, að fylgt sé reglum þeim sem tilgreindar eru í 9. gr.

(2) Við uppgjör áfengisgjalds má framleiðandi draga frá gjaldi, sem honum ber að greiða, gjald sem hann hefur áður greitt af áfengi, sem skilað hefur verið til hans, þar sem það hefur reynst skemmt eða gallað. Frádráttur þessi er bundinn því skilyrði að áfengi sem skilað er hafi verið afskrifað og því fargað eftir þeim reglum sem tilgreindar eru í 9. gr.

(3) Áfengi, sem hefur verið skilað og greitt hefur verið áfengisgjald af, skal eingöngu farga á grundvelli kreditreikninga og undir eftirliti ríkisskattstjóra. Förgun á öðru áfengi, sem ekki hefur verið greitt áfengisgjald af, skal tilkynnt til ríkisskattstjóra sem gefur leyfi fyrir förguninni.

(4) Framleiðandi skal tilkynna áfengiseftirliti ríkisskattstjóra án tafar um óhöpp eða atvik sem átt hafa sér stað í framleiðslu eða flutningi, ef tilvik þessi kunna að hafa haft áhrif á gjaldstofn áfengisgjalds. Ríkisskattstjóri metur í hverju tilfelli hvort þörf sé á því að eftirlitsmenn komi á staðinn.
 

9. gr.

(1) Förgun skemmds eða gallaðs áfengis skal ætíð fara fram undir eftirliti eftirlitsmanns. Áður en förgun skemmds eða gallaðs áfengis fer fram skal hún tilkynnt til áfengiseftirlits ríkisskattstjóra. Áfengi telst skemmt s.s., ef komið er fram yfir síðasta tilgreindan neysludag. Áfengi telst m.a. gallað ef það er ósöluhæft vegna skemmdra umbúða.

(2) Samhliða förgun samkvæmt 1. mgr. má afskrifa skemmt eða gallað áfengi sem hér segir:

  1. Áfengi á flösku má því aðeins afskrifa að flaska hafi ekki verið opnuð, þ.m.t. að ekki hafi verið rofið innsigli á tappa. Afskrift miðast við upprunalegt magn í flösku.

  2. Áfengi í dós má því aðeins afskrifa að dós sé órofin. Afskrift miðast við upprunalegt magn í dós.

  3. Afskrifa má öl á kút þótt innsigli hafi verið rofið. Innihaldi kútur við afskrift meira en 90% upphaflegs magns skal afskrift miðast við upprunalega magnið. Að öðrum kosti skal afskrift miðast við það magn sem á kútnum er við afskrift.
     

Kynningar og gjafir.
10. gr.

     Framleiðanda er heimilt að afhenda áfengi af eigin lager til kynningar eða gjafa að neðangreindum skilyrðum uppfylltum:

  1. Ávallt skal gefa út sölureikning á nafn kynningaraðila eða móttakanda gjafar í þeim tilvikum þegar tekið er út af eigin lager við þessar aðstæður. Á hefðbundnum sölureikningum skal koma fram nafn móttakanda og tilefni, þ.e. vegna ...., ásamt skilyrði fyrir afhendingunni, s.s. hvort kynningaraðili skuli veita áfengið endurgjaldslaust eða ekki. Jafnframt skal koma fram á sölureikningi tegund, magn og lýsing á hinu afhenta áfengi, en ekki skal tilgreina fjárhæð. Frumrit sölureiknings skal afhent kynningaraðila, en tekið skal fram að honum er óheimilt að gjaldfæra hið móttekna áfengi. Sölureikningur sem gefinn er út í umræddum tilvikum skal því ávallt gefinn út á nafn þess sem kynnir áfengið eða gjafþega, en ítrekað skal að fjárhæð hans skal vera 0 kr.

  2. Þegar um er að ræða kynningu á áfengi, annaðhvort fyrir seljendum áfengis eða almennum neytendum á vínveitingastöðum, skal aðili með vínveitingaleyfi skv. 12. gr. áfengislaga nr. 75/1998 annast kynninguna f.h. dreifingaraðila/framleiðanda. Með kynningu áfengis er m.a. átt við það tilvik þegar áfengi er afhent söluaðila með vínveitingaleyfi í þeim tilgangi að hann afhendi það án endurgjalds og er því óheimilt að gefa eða afhenda öðrum áfengi í þessum tilgangi.

  3. Þegar um er að ræða afhendingu á áfengi út af eigin lager til kynningar eða gjafa skv. ofanrituðu ber framleiðanda ávallt að innheimta og skila áfengisgjaldi, sbr. 6. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi.
     

Ýmis ákvæði.
11. gr.

     Þegar framleiðandi bruggar öl á vínveitingastað gilda ofangreindar reglur eftir því sem við á um ákvörðun á magni gjaldskylds áfengis, sýnatöku, förgun og kynningar framleiðanda.
 

12. gr.

     Brot gegn reglum þessum getur leitt til endurákvörðunar á áfengisgjaldi, álags og dráttarvaxta.
 

13. gr.

     Reglur þessar eru settar á grundvelli 14. gr. reglugerðar nr. 505/1998, um áfengisgjald og öðlast þegar gildi.
 

Fara efst á síðuna ⇑