Skattalagasafn ríkisskattstjóra 1.11.2024 00:34:07

nr. 10/1999 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=10.1999.0)
Ξ Valmynd

Auglýsing
ríkisskattstjóra nr. 10/1999 um gildandi reglur þegar hlutabréf eru keypt á undirverði.

Eftirfarandi eru upplýsingar og skýringar á þeim reglum,sem gilda um kaup skattaðila á hlutabréfum á undirverði, þ.e. þegar það verð sem hann greiðir fyrir bréfin er lægra en gangverð þeirra, og um skyldur skattaðila til að veita skattyfirvöldum upplýsingar þar um.

A. Ákvæði laga og reglugerða.

Þau ákvæði gildandi laga og reglugerða, sem einkum ber að hafa hliðsjón af og fara eftir eru:

  1. 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1): 1. mgr. 1. gr. og 4. tölul. A-liðar.

  2. 13. gr. reglugerðar nr. 245/1963 um tekjuskatt og eignarskatt: 1. og 2. mgr. B-liðar.

  3. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*2): 2. mgr.

  4. Reglugerð nr. 677/1998 um breyting á reglugerð nr. 591/1987, um laun og hlunnindi utan staðgreiðslu.

  5. Ýmis ákvæði: 17. gr., 1. tölul. B-liðar 30. gr., 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*3), og lög nr. 113/1990, um tryggingagjald.

*1)Nú 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. *2)Nú 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. *3)18., 30. og 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

B. Skattskylda og skattstofn.

Skattaðili sem eignast hlutabréf án endurgjalds eða á verði, sem er lægra en gangverð hlutabréfanna eða með öðrum sérkjörum sem jafna má til þess, er skattskyldur skv. 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, af mismun á gangverði hlutabréfanna og því verði sem hann galt fyrir þau hafi það verið lægra.
Framangreint á m.a. við þegar launagreiðandi afhendir starfsmönnum sínum eða fyrrverandi starfsmönnum hlutabréf án endurgjalds eða á verði undir gangverði, svo og þegar hlutafélag eða hluthafi í því afhendir skattaðila hlutabréf með sama hætti.

  1. Tímaviðmiðun skattskyldu.

Skattskyldu vegna móttöku hlutabréfa á undirverði miðast við þann tíma sem móttakandi verður eigandi hlutabréfanna eða þegar á er kominn samningur sem skuldbindur þann sem hlutabréfin selur úr hendi t.d. þegar starfsmenn eða aðrir tilkynna að þeir taki tilboði hans um kaup á hlutabréfum á undirverði.

  1. Skattstofn.

Fái skattaðili hlutabréf til eignar án endurgjalds eða gegn endurgjaldi, sem er lægra en gangverð hlutabréfanna, telst mismunur á gangverði og afhendingarverði, þ.e. því verði sem hann greiddi fyrir það, til skattskyldra tekna, sem leggjast við aðrar tekjur skv. A lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), (launatekjur o.fl.) og eru skattlagðar með þeim. Við ákvörðun gangverðs og afhendingarverðs skal miða við eftirfarandi:

a) Gangverð.

1) Hlutabréf félaga, sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands hf. eða öðrum opinberum verðbréfamarkaði.
Gangverð hlutabréfa skal vera markaðsverð þeirra á verðbréfamarkaði á þeim degi sem skattskyldan stofnast. Hafi hlutabréfin ekki haft skráð markaðsverð á þeim degi skal miða við fyrsta skráð markaðsverð eftir það. Í stað markaðsverðs er heimilt að miða við söluverð hlutabréfanna í almennu útboði án nokkurs forkaupsréttar. Þessi viðmiðun gildir því aðeins að hlutabréfin hafi ekki verið skráð á verðbréfaþingi á söludegi.

2) Hlutabréf félaga, sem ekki eru skráð á opinberum verðbréfamarkaði.
Gangverð hlutabréfanna skal miða við eðlilegt verð þeirra í viðskipum milli óháðra aðila á söludegi að mati skattyfirvalda sbr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*2). Það verð skal þó aldrei vera lægra en það verð sem svarar til eiginfjár félagsins á söludegi skv. reikningsskilum á grundvelli laga nr. 144/1994, um ársreikninga*3).

b) Afhendingarverð.
Afhendingarverð hlutabréfa skal vera það verð sem greitt er fyrir þau miðað við staðgreiðslu á kaupdegi. Séu bréfin keypt með ívilnandi greiðsluskilmálum, vaxtalausum eða vaxtalágum afborgunum, eða til kaupanna veitt vaxtalaus eða vaxtalág lán, skal afhendingarverðið reiknað sem núvirði greiddra afborgana og vaxta miðað við meðaltalsvexti af útlánum í samræmi við útreikninga Seðlabanka Íslands.

*1)Nú 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. *2)Nú 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. *3)Nú lög nr. 3/2006.

C. Stofnverð til útreiknings á söluhagnaði.

Selji skattaðili, hlutabréf sem hann hefur keypt á undirverði og mismunur þess og gangverðs hefur verið metinn til tekna með framangreindum hætti, er söluhagnaður skv. 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), mismunur á söluverðinu og því gangverði, sem notað var við að ákveða skattskyldar tekjur þegar hann eignaðist hlutabréfin.

*1)Nú 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

D. Frádráttur vegna fjárfestinga í hlutabréfum.

Eigi skattaðili rétt á frádrætti frá skattskyldum tekjum vegna kaupa á hlutabréfum skv. 1. tl. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), skal við ákvörðun þess frádráttar miða við gangverð hlutabréfanna eða annað það verð, sem miðað var við þegar skattskyldar tekjur hans við kaup þeirra voru ákveðnar.

*1)Nú 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

E. Skattlagning hlutafélaga og annarra rekstraraðila.

Hlutafélag, sem afhendir eigin hlutabréf endurgjaldslaust eða á undirverði til starfsmanna sem endurgjald fyrir vinnu, má draga frá sem rekstrarkostnað, sbr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), mismuninn á gangverði og afhendingarverði sbr. framangreint. Sama fjárhæð skal talin til gjaldstofns tryggingargjalds skv. lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald. Sama á við um aðra rekstraaðila, sem afhenda hlutabréf í öðrum félögum endurgjaldslaust eða á undirverði til starfsmanna sem endurgjald fyrir vinnu.

*1)Nú 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

F. Upplýsingagjöf.

  1. Einstaklingar.

Mönnum sem eignast hlutabréf með framangreindum hætti, ber að gera á framtali sínu grein fyrir mismun á gangverði og afhendingarverði og telja hann til tekna. Skylda þessi er eins fyrir hendi þótt misbrestur verði á af hálfu launagreiðanda eða annars þess sem afhenti bréfin að upplýsa skattyfirvöld og viðtakanda um afhendinguna.

  1. Aðrir.

Allir þeir sem hafa menn í þjónustu sinni og greiða þeim endurgjald fyrir starfa og afhent hafa hlutabréf endurgjaldslaust eða á undirverði til starfsmanna sinna skulu á launaskýrslum, sbr. 92. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), tilgreina sem tekjur viðkomandi mismun á gangverði og afhendingarverði hlutabréfa, sbr. framangreindar reglur. Aðrir, sem afhent hafa eða hafa haft milligöngu um afhendingu hlutabréfa með sambærilegum hætti, skulu afhenda skattyfirvöldum sambærilegar upplýsingar.

*1)Nú 92. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Reglur þessar eru birtar í samræmi við 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1), til nánari skýringa á ákvæðum þeirra laga og taka til álagningar skatta samkvæmt þeim lögum og álagningar tryggingagjalds skv. lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald.

*1)Nú 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
 

Fara efst á síðuna ⇑