Skattalagasafn ríkisskattstjóra 25.4.2024 10:18:52

Reglugerð nr. 696/2019, kafli 3 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=696.2019.3)
Ξ Valmynd
 III. KAFLI
Framsetning skýringa.
7. gr.
Skýringar.
 
(1) Í skýringum í ársreikningi, eða samstæðureikningi ef við á, skal veita nauðsynlegar upplýsingar og sundurliðanir með vísan til viðeigandi liða í efnahagsreikningi, rekstrarreikningi og sjóðstreymis­yfirliti. Ársreikningur og samstæðureikningur, ef við á, skal að lágmarki innihalda skýringar sem til­greindar eru í V. kafla laga um ársreikninga, nr. 3/2006, eftir því sem við á, ásamt upplýsingum um reikningsskilaaðferðir.

(2) Upplýsingar í skýringum skulu vera það ítarlegar að þær geri notendum ársreikningsins, og samstæðu­reikningsins ef við á, kleift að leggja mat á eðli og fjárhagsleg áhrif viðskipta og annarra atburða á rekstur og efnahag félagsins eða samstæðunnar. Stjórnendur skulu leggja mat á mikil­vægi og hvaða upplýsingar eru viðeigandi til að tryggja að reikningsskilin gefi glögga mynd af afkomu félagsins eða samstæðunnar, fjárhagsstöðu og ef við á breytingum á handbæru fé. Hversu ítarlegar upplýsingar og sundurliðanir eru veittar í skýringum byggist því á mati stjórnenda. Við það mat skal meðal annars taka tillit til stærðar og umfangs rekstrar- og efnahagsreiknings og þarfa þeirra sem nota reikningsskilin. Stjórnendur skulu því leggja mat á hvort bæta þurfi við upplýs­ingum í ársreikn­inginn og samstæðureikninginn, ef við á, svo að glögg mynd náist, þar með talið hvort nauðsynlegt sé að birta ítarlegri sundurliðanir og skýringar en gerð er krafa um í lögum um ársreikn­inga, nr. 3/2006, eða reglugerð þessari.

(3) Í viðauka A er að finna yfirlit yfir upplýsingar sem nauðsynlegt kann að vera að veita að hluta til eða í heild vegna tiltekinna liða til viðbótar við kröfur V. kafla laga um ársreikninga, nr. 3/2006, svo ársreikningur eða samstæðureikningur gefi glögga mynd. Upptalningin er ekki tæmandi.

Fara efst á síðuna ⇑