Skattalagasafn ríkisskattstjóra 24.4.2024 12:24:28

Reglugerð nr. 627/2005, kafli 4 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=627.2005.4)
Ξ Valmynd

IV. KAFLI
Akstursbækur, álestur, eigendaskipti o.fl.

6. gr.

(1) Eigandi eða umráðamaður ökutækis, sem kílómetragjald er greitt af skv. 3. gr., skal á eigin kostnað láta setja ökumæli í ökutæki sitt, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 599/2005, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds.

(2) Ríkisskattstjóri getur, ef sérstaklega stendur á, veitt undanþágu frá því að ökumælisskyld bifreið eða eftirvagn sé útbúin ökumæli, enda fari ákvörðun kílómetragjalds fram á annan jafntryggan hátt.
 

7. gr.

(1) Ökumaður skal við lok hvers dags, sem ökutæki er ekið, lesa kílómetrastöðu af ökumæli og skrá hana í sérstaka akstursbók sem ríkisskattstjóri gefur út. Ef annars konar ökumælir en ökuriti er notaður, skal ökumaður skrá kílómetrastöðu hraðamælis daglega í akstursbókina, hins vegar er honum einungis skylt að skrá kílómetrastöðu ökumælis einu sinni í viku. Ökumaður skal athuga hvort ökuriti eða ökumælir og hraðamælir hafi talið rétt og að kílómetrastöðu beri saman við akstur dagsins. Ökumaður skal staðfesta skráningu með nafnritun sinni.

(2) Ef sérstakur ökumælir er í eftirvagni skal ökumaður einu sinni í viku, sem eftirvagn hefur verið hreyfður, skrá kílómetrastöðu ökumælis eftirvagns og athuga hvort mælir hafi talið rétt. Ökumaður skal staðfesta skráningu með nafnritun sinni.

(3) Eigandi og umráðamaður ökutækis bera ábyrgð á að ökumælir telji rétt og að akstur sé skráður í akstursbók skv. ákvæðum 1. og 2. mgr.

(4) Ef í ljós kemur við skráningu á kílómetrastöðu ökurita eða ökumælis og hraðamælis, eða við skoðun á skráningarblöðum ökurita, að einhver fyrrgreindra mæla telur rangt eða telur ekki, skal ökumaður þá svo fljótt sem honum er unnt tilkynna um bilun mælis til Vegagerðarinnar. Jafnframt skal hann, innan tveggja virkra daga frá því er bilun í mæli kom fram, fara með hann á löggilt verkstæði til viðgerðar.

(5) Ef taka þarf ökumæli úr ökutæki til viðgerðar skal lesið af ökumælinum áður en hann er tekinn úr og annar settur í stað hins bilaða. Tilkynna skal þegar í stað til Vegagerðarinnar ef nýr ökumælir er settur í ökutæki. Jafnframt skal lesið af mælinum.
 

8. gr.

(1) Eiganda eða umráðamanni ber ávallt að hafa akstursbókina í ökutækinu. Óheimilt er að breyta því, sem skráð hefur verið í akstursbók, eða fjarlægja blaðsíður úr henni.

(2) Eiganda eða umráðamanni ökutækis ber að varðveita skráningarblöð ökurita og akstursbók í sjö ár frá lokum gjaldárs.
 

9. gr.

(1) Eiganda eða umráðamanni ökutækis er skylt án sérstakrar tilkynningar að koma á álestrartímabili hvers gjaldtímabils með ökutæki til aðila, sem fjármálaráðherra hefur falið að annast álestur, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 599/2005, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila kílómetragjalds, til að láta lesa af ökumæli og akstursbók ökutækisins. Álestrartímabil eru frá 1. desember til 15. desember og frá 1. júní til 15. júní ár hvert.

(2) Almennt skal ekki lesið af ökumælum utan þeirra tímabila sem um getur í 1. mgr. nema eigandi eða umráðamaður hafi vanrækt að láta lesa af ökumæli á síðasta álestrartímabili eða til standi að skrá eigendaskipti að ökutæki eða skipta um ökumæli.

(3) Álestur utan álestrartímabils leysir eiganda eða umráðamann ekki undan skyldu til að koma með ökutæki til álestrar skv. 1. mgr.
 

10. gr.

     Óheimilt er að skrá eigendaskipti að ökutæki, nema lesið hafi verið af ökumæli og kílómetragjald vegna þess álestrar greitt til þess dags sem álestur er skráður í álestrarskrá ökumæla. Við eigendaskipti ökutækis er gjalddagi og álestrardagur sá sami.
 

11. gr.

(1) Við aðalskoðun bifreiðar ár hvert skal eigandi hennar eða umráðamaður færa sönnur á að greitt hafi verið af henni kílómetragjald sem fallið er í eindaga á skoðunardegi. Að öðrum kosti skal skoðunarmaður neita um skoðun á henni og tilkynna lögreglu um það þegar í stað. Eiganda eða umráðamanni bifreiðar er þó ekki skylt að færa sönnur á að hafa greitt gjaldfallið kílómetragjald fyrr en eftir eindaga.

(2) Óheimilt er að skrá eigendaskipti að ökutæki nema gjaldfallið kílómetragjald hafi verið greitt og lesið hafi verið af ökumæli og kílómetragjald vegna þess álestrar greitt.

(3) Hafi kílómetragjald ekki verið greitt á eindaga skal lögreglustjóri að kröfu innheimtumanns ríkissjóðs stöðva ökutækið hvar sem það fer og taka skráningarmerki þess til geymslu.

(4) Skráning bifreiðar skal ekki fara fram nema gjaldfallið kílómetragjald hafi áður verið greitt af henni.

(5) Óheimilt er að afhenda skráningarmerki sem afhent hafa verið skráningaraðila til varðveislu nema gjaldfallið kílómetragjald hafi áður verið greitt.

(6) Kílómetragjaldi fylgir lögveðsréttur í viðkomandi ökutæki.
 

Fara efst á síðuna ⇑