Skattalagasafn ríkisskattstjóra 24.4.2024 17:40:18

Reglugerð nr. 373/2001, kafli 6 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=373.2001.6)
Ξ Valmynd

VI. KAFLI
Um refsimeðferð.

Ákvörðun um upphaf refsimeðferðar.
35. gr.

(1) [Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur af sjálfsdáðum ákveðið að hefja refsimeðferð með því að gefa skattaðila kost á að gangast undir sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra, með því að vísa máli til sektarmeðferðar fyrir yfirskattanefnd eða með því að vísa máli til opinberrar rannsóknar og venjulegrar sakamálameðferðar.]1) Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur þó ekki vísað máli til sektarmeðferðar fyrir yfirskattanefnd ef sökunautur vill eigi hlíta því að mál hans verði afgreitt af nefndinni. Ákvörðun skattrannsóknarstjóra um upphaf refsimeðferðar er óháð því hvort málsmeðferð fyrir ríkisskattstjóra eða eftir atvikum yfirskattanefnd er lokið eða ekki. [---]2)

(2) Gefa skal skattaðila kost á að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun um refsimeðferð, áður en skattrannsóknarstjóri ríkisins tekur ákvörðun um refsimeðferðina, ef þess er kostur og tryggt er að rannsóknarhagsmunum sé ekki spillt.

1)Sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 334/2006. 2)Sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 334/2006. 

Grundvöllur ákvörðunar um refsimeðferð.
36. gr.

(1) [Við mat á því hvort mál skuli sæta sektarboði af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sektarmeðferð yfirskattanefndar eða opinberri rannsókn skal höfð hliðsjón af þeim atriðum sem greinir í 38. gr.]1)

(2) Sé undandregin fjárhæð skattstofns, skattskyldrar veltu eða innskatts, án álags, lægri en kr. 1.000.000 skal mál eigi sæta refsimeðferð, nema saknæmi brotsins að öðru leyti þyki gefa ástæðu til hennar. Hið sama á við um óveruleg brot á lögum nr. 145/1994, um bókhald og lögum nr. 144/1994, um ársreikninga*1).

1)Sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 334/2006. *1)Nú lög nr. 3/2006. 

Sektarmeðferð yfirskattanefndar.
37. gr.

(1) Þegar skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur tekið ákvörðun um að vísa máli til sektarmeðferðar yfirskattanefndar og sökunautur mælir ekki gegn því, skal skattrannsóknarstjóri annast kröfugerð í málinu og kemur að öðru leyti fram af hálfu hins opinbera fyrir nefndinni þegar hún fjallar um sektarmál. Í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins skal skilmerkilega lýst ætlaðri refsiverðri háttsemi, við hvaða lagaákvæði og eftir atvikum stjórnvaldsfyrirmæli hún er talin varða, hver sé huglæg afstaða hins brotlega til háttseminnar, hverjar séu kröfur skattrannsóknarstjóra fyrir nefndinni og önnur þau atriði sem talin eru hafa þýðingu í málinu. Ekki skal hefja refsimeðferð fyrir yfirskattanefnd nema skattaðili eða forsvarsmaður lögaðila hafi tjáð sig um sakarefni við rannsókn málsins.

(2) Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur vísað málum sem um ræðir í 22. gr. til sektarmeðferðar yfirskattanefndar þó að ekki hafi farið fram sjálfstæð rannsókn af hálfu skattrannsóknarstjóra. Ekki skal þó senda mál skv. 22. gr. í sektarmeðferð nema skattaðila hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um sakarefni fyrir skattrannsóknarstjóra ríkisins eða löglærðum fulltrúa hans.

(3) Kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins skal unnin af skattrannsóknarstjóra eða löglærðum fulltrúa hans. 

[Sektir skattrannsóknarstjóra ríkisins.
37. gr. A

(1) Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur lokið refsimeðferð máls með ákvörðun sektar, enda sé talið að brot sé skýlaust sannað. Ljúki refsimeðferð máls með þeim hætti verður máli hvorki vísað til opinberrar meðferðar né sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd.

(2) Sektarheimild skattrannsóknarstjóra ríkisins tekur m.a. til brota er varða vanhöld á skilum skattskilagagna til skattyfirvalda, þ.m.t. skattframtölum, virðisaukaskattsskýrslum, og skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda eða fjármagnstekna, skilum á efnislega röngum skattskilagögnum til skattyfirvalda og vanrækslu á greiðslu innheimts virðisaukaskatts eða afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda eða fjármagnstekna.

(3) Sektir ákvarðaðar af skattrannsóknarstjóra ríkisins geta numið frá kr. 100 þús. til kr. 6 millj. Telji skattrannsóknarstjóri ríkisins að fésekt vegna refsiverðra brota skuli nema hærri fjárhæð er ekki unnt að ljúka refsimeðferð máls með þessum hætti.

(4) Við ákvörðun sektarfjárhæðar skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota. Skal þar m.a. litið til þess hvort brot sé ítrekað, brotastarfsemi langvarandi eða skipuleg. Heimilt er ef veigamikil rök mæla með því að meta málsatvik eða aðstæður skattaðila honum til refsilækkunar, t. a. m. hafi hann leiðrétt skattskil sín undir rannsókn máls eða ríkissjóður ekki orðið fyrir tjóni vegna brota skattaðila. Þá skal gætt ákvæða 74. gr. alm. hgl. nr. 19/1940 eftir því sem við á, þ. á m. ef skattaðili hefur af sjálfsdáðum sagt til brots eða bætt úr því tjóni sem hann olli.

(5) Ákveði skattrannsóknarstjóri ríkisins að gefa sakborningi kost á að ljúka máli með greiðslu sektar sendir hann sakborningi sektarboð þar um. Að jafnaði skal sakborningi gefinn kostur á að ljúka máli með þessum hætti, nema skattrannsóknarstjóri ríkisins telji að brot varði hærri sektarfjárhæð en kr. 6 milljónum eða sökunautur óski eftir því að máli hans verði vísað til opinberrar meðferðar.

(6) Áður en sakborningi er tilkynnt um sektarboð skal honum gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun um refsimeðferð í samræmi við 2. mgr. 35. gr. reglugerðar þessarar.

(7) Í sektarboði skal koma fram dagsetning sektarboðs, nafn sökunautar, kennitala og heimilisfang, nafn og kennitala skattaðila, stutt lýsing á broti og þau refsiákvæði sem það varðar við. Greint skal frá því að sökunautur eigi þess kost að ljúka refsimeðferð máls með greiðslu tiltekinnar sektar innan 14 daga frá dagsetningu sektarboðs. Skal sektarboð sent skattaðila með ábyrgðarbréfi.

(8) Nú vill sökunautur ljúka máli með greiðslu tiltekinnar sektar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og kemur hann þá á skrifstofu embættisins og lýsir sig reiðubúinn til að ljúka máli með þeim hætti sem fram kemur í boðinu. Gengst hann skriflega undir sektargerð með undirritun sinni á boðið. Koma skal fram á sektarboðinu hvenær það var samþykkt og skal það jafnframt undirritað af skattrannsóknarstjóra ríkisins eða löglærðum fulltrúa hans. Vararefsing fylgir ekki ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins.

(9) Ef sökunautur sinnir ekki eða hafnar boði um sektargerð, tekur skattrannsóknarstjóri ríkisins ákvörðun um hvort máli verði vísað til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd eða opinberrar meðferðar í samræmi við 36., 37. og 38. gr. reglugerðar þessarar.

(10) Sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins skal lokið innan sex mánaða frá því að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins lauk. Verði sektarákvörðun ekki lokið innan þess tíma er ekki unnt að ljúka refsimeðferð máls með þeim hætti. Tekur skattrannsóknarstjóri ríkisins þá ákvörðun um hvort máli verði vísað til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd eða opinberrar meðferðar í samræmi við 36., 37. og 38. gr. reglugerðar þessarar.

(11) Um innheimtu sekta sem ákveðnar eru af skattrannsóknarstjóra ríkisins gilda sömu reglur og um skatta, þar á meðal um lögtaksrétt, og innheimtu vanskilafjár og álags. Einnig má beita 3. mgr. 29. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, 3. mgr. 28. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 3. mgr. 18. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, eftir því sem við á.]1)

1)Sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 334/2006. 

Ákvörðun um opinbera rannsókn.
38. gr.

(1) Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur vísað máli til opinberrar rannsóknar í eftirfarandi tilvikum:

  1. Ef líkur eru á að ætlað undanskot nemi verulegum fjárhæðum og varði við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.
  2. Ef rökstuddur grunur er um að verknaður hafi verið framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög saknæmi brotsins.
  3. Samkvæmt ósk skattaðila ef skattaðili vill ekki hlíta því að mál hans verði afgreitt af yfirskattanefnd, sbr. 35. gr. og 37. gr.
  4. Ef upplýsingaskyldu er ekki gegnt, hvort sem um er að ræða skattaðila sjálfan eða annan aðila sem ekki gegnir upplýsingaskyldu, sbr. 94. gr. laga nr. 75/1981*1), 38. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og 25. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
  5. Ef skattaðili hefur áður orðið uppvís að skattsvikum með dómi eða sætt sektum yfirskattanefndar, enda hafi það brot verið framið innan síðustu fimm ára.
  6. Ef rökstuddur grunur er um að háttsemi geti talist meiri háttar brot gegn lögum nr. 145/1994, um bókhald og lögum nr. 144/1994, um ársreikninga*2), og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

(2) Við mat skattrannsóknarstjóra ríkisins á því hvort máli skuli vísað til opinberrar rannsóknar og sakamálameðferðar getur hann, auk þess sem í 1. mgr. er talið, tekið mið af því hvort um hefur verið að ræða skipulega eða langvarandi brotastarfsemi, harðan brotavilja, eða brot af öðrum ástæðum er svo alvarlegt að eðlilegt sé að mati skattrannsóknarstjóra ríkisins að vísa málinu til opinberrar rannsóknar hjá lögreglu.

(3) Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur vísað máli til opinberrar rannsóknar á hvaða stigi rannsóknar sem er. Ef háttsemi er talin varða við 262. gr. almennra hegningarlaga*3) skal vísa máli til opinberrar rannsóknar svo fljótt sem kostur er.

*1)Nú laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. *2)Nú lög nr. 3/2006. *3)Sjá lög nr. 19/1940. 

Meðferð skattkröfu.
39. gr.

(1) Ef máli er vísað til opinberrar rannsóknar skv. 38. gr., tekur skattrannsóknarstjóri ríkisins ákvörðun um hvort senda skuli málið til endurákvörðunar ríkisskattstjóra eða hvort skattkrafa verði höfð uppi í opinberu máli.

(2) Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur tekið ákvörðun skv. 1. mgr. hvenær sem er eftir að máli hefur verið vísað til opinberrar rannsóknar og fram til þess tíma sem ákæra er gefin út, enda fari það ekki í bága við ákvæði laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála*1).

*1)Nú laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Fara efst á síðuna ⇑