Skattalagasafn ríkisskattstjóra 20.4.2024 08:44:20

Reglugerð nr. 373/2001, kafli 5 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=373.2001.5)
Ξ Valmynd

V. KAFLI
Lok rannsóknar máls hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Rannsóknarskýrsla.
31. gr.

(1) Við lok rannsóknar máls hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins skal tekin saman skýrsla um rannsóknina og niðurstöður hennar.

(2) Í skýrslu skal koma fram hvaða sönnunargögn liggja til grundvallar, hverjir hafa komið til skýrslugjafar, hver sé ætlaður undandreginn skattur eða skattstofn, hvort og hvenær skila- eða gjaldskyldum skatti hafi verið skilað, ef um það er að ræða, hvenær rannsókn teljist lokið og hvaða rannsóknarmenn hafa unnið að rannsókn málsins. 

Andmælaréttur.
32. gr.

(1) Þegar rannsókn máls er lokið hefur skattaðili rétt á að fá afhent eintak af skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

(2) Gefa skal skattaðila kost á að tjá sig um efni skýrslunnar og koma að mótmælum, gögnum og skriflegum skýringum, áður en skattrannsóknarstjóri ríkisins tekur ákvörðun um framhald málsins. Veita skal skattaðila hæfilegan frest til andmæla.

(3) Ákvæði þessarar greinar eiga þó ekki við ef mál hefur verið kært til lögreglu áður en rannsókn máls hefur verið lokið af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins eða málið er kært til lögreglu strax eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra lýkur. 

Endurupptaka rannsóknar.
33. gr.

(1) Telji skattrannsóknarstjóri ríkisins andmæli skattaðila, sbr. 2. mgr. 32. gr. gefa tilefni til þess, skal rannsókn máls endurupptekin og henni fram haldið og lokið, að teknu tilliti til andmæla skattaðila.

(2) Berist skattrannsóknarstjóra ríkisins engin andmæli frá skattaðila eða telji hann þau ekki gefa tilefni til breytinga á niðurstöðum skýrslunnar, tekur hann ákvörðun um framhald málsins. 

Ákvörðun um endurákvörðun.
34. gr.

Taki skattrannsóknarstjóri ríkisins ákvörðun um að senda mál skattaðila til endurákvörðunar hjá ríkisskattstjóra, skal skattaðila tilkynnt um þá ákvörðun. Honum skal þá jafnframt tilkynnt að rannsókn máls sé lokið hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og hvort tekin verði ákvörðun þá eða síðar um að hefja refsimeðferð. Andmæli skattaðila skulu fylgja með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins til ríkisskattstjóra 

Fara efst á síðuna ⇑