Skattalagasafn ríkisskattstjóra 29.3.2024 10:49:04

Reglugerð nr. 373/2001, kafli 4 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=373.2001.4)
Ξ Valmynd

IV. KAFLI
Um skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Boðun til skýrslutöku.
23. gr.

(1) Boðun til skýrslugjafar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins skal að jafnaði vera skrifleg. Þó er heimilt að boða skattaðila munnlega. Við boðun skal þess gætt að fyrirvari manna til að mæta til skýrslugjafar sé nægur.

(2) Mæti maður ekki til skýrslugjafar skal hann boðaður á ný og þá með sannanlegum hætti en ef hann mætir ekki við þá boðun er heimilt að vísa málinu þá þegar til opinberrar rannsóknar, sbr. nánar 4. tölul. 1. mgr. 38. gr. 

Tilefni skýrslutöku.
24. gr.

Áður en skýrslutaka hefst skal skýrslugjafa gert kunnugt um tilefni skýrslutökunnar. Bóka skal sérstaklega að tilefni hafi verið kynnt.

Réttarstaða skýrslugjafa.
25. gr.

(1) Skýra skal skýrslugjafa frá því áður en skýrslutaka hefst, hvort hann er spurður vegna gruns á hendur honum um refsiverða háttsemi eða hvort hann er kvaddur til vitnisburðar.

(2) Sé skýrslugjafi grunaður um refsiverða háttsemi er honum óskylt að svara spurningum sem varða þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Ber að benda skýrslugjafa ótvírætt á þennan rétt strax þegar efni standa til.

(3) Skýrslugjafi skal fyrst spurður um nafn, kennitölu, stöðu og heimili. Ef hann kýs að gefa skýrslu um sakarefnið skal brýnt fyrir honum að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli kann að skipta.

(4) Spurningar skulu vera skýrar og ótvíræðar. 

Talsmaður skýrslugjafa.
26. gr.

(1) Skýrslugjafi, sem grunaður er um refsiverða háttsemi má hafa með sér við skýrslutöku talsmann, sem hann ræður á sinn kostnað.

(2) Við skýrslugjöf er talsmanni eigi heimilt að leggja skýrslugjafa orð í munn, né torvelda eða trufla framgang skýrslutöku. Skattrannsóknarstjóra er heimilt að meina talsmanni að vera við skýrslutöku ef hann truflar eða torveldar hana.

(3) Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur ákveðið að talsmanni sé óheimilt að vera viðstaddur skýrslugjöf skattaðila ef talsmaðurinn er einnig grunaður um refsivert brot vegna máls skattaðila, verður hugsanlega vitni í máli hans, eða er að öðru leyti svo viðriðinn mál hans eða hann sjálfan, að hætta sé á að hann geti ekki sem skyldi gætt hagsmuna skattaðila í málinu eða nærvera hans geti truflað framgang rannsóknarinnar.

(4) Ef skattrannsóknarstjóri þarf að víkja talsmanni úr skýrslutöku eða meina honum að vera viðstaddur, sbr. 2. og 3. mgr., skal fresta skýrslutöku og gefa skýrslugjafa hæfilegan frest til að ráða sér annan talsmann.

Lengd skýrslutöku.
27. gr.

Skýrslutaka má ekki standa lengur en sex klukkustundir samfleytt á sólarhring. Spyrja skal hvern mann án nærveru annarra grunaðra manna eða þeirra sem taldir eru vitni í málinu nema um samprófun sé að ræða. Heimilt er að samprófa tvo eða fleiri sakaða menn eða sakaðan mann og vitni þegar ástæða þykir til. 

Vottur við skýrslutöku.
28. gr.

Við skýrslutöku skal a.m.k. einn vottur vera viðstaddur og við undirritun eða staðfestingu skýrslu skulu a.m.k. tveir votta undirritun skýrslugjafa. 

Bókun skýrslutöku.
29. gr.

(1) Í upphafi skýrslutöku skal bóka eftirfarandi atriði:

  1. dagsetningu og ár,
     
  2. hvenær skýrslutaka hefst,
     
  3. hvaða starfsmaður skattrannsóknarstjóra ríkisins tekur skýrslu af skýrslugjafa,
     
  4. hvar skýrslutaka fer fram,
     
  5. fullt nafn skýrslugjafa, kennitölu, heimilisfang og stöðu,
     
  6. að skýrslugjafa sé gert kunnugt um tilefni skýrslutökunnar,
     
  7. hvaða réttarstöðu skýrslugjafi hefur við skýrslutökuna,
     
  8. að skýrslugjafa sé bent á heimild hans til að hafa talsmann við skýrslutökuna. Bóka skal hver mætir sem talsmaður með skýrslugjafa við skýrslutökuna.

(2) Sé um samprófun að ræða skal það bókað sérstaklega í upphafi skýrslutöku.

(3) Bóka skal aðalatriði í framburði skýrslugjafa. Fyrir skýrslugjafa skulu lagðar ákveðnar númeraðar spurningar. Þó er heimilt að bóka orðrétt þýðingarmesta hluta framburðar hans eða endursegja sjálfstæða frásögn hans sjálfs ef sú framsetning þykir heppilegri.

(4) Að skýrslugjöf lokinni skal skýrslugjafa gefinn kostur á að kynna sér bókaðan framburð sinn. Áður en skýrslugjafi undirritar skýrslu skal hann spurður hvort rétt sé eftir honum haft og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

(5) Bóka skal hvenær skýrslutöku er lokið. 

Tæknileg skráning skýrslutöku.
30. gr.

(1) Heimilt er að bóka skýrslutöku í ritvinnslu á tölvu, sbr. 29. gr. Skal bókunin þá prentuð og undirrituð og skjalfest af þeim er skýrsluna tekur, skýrslugjafa svo og vottum.

(2) Skýrslugjafi á ekki rétt á að fá eintak skýrslu í hendur fyrr en rannsókn máls er lokið, sbr. 32. gr. 

Fara efst á síðuna ⇑