Skattalagasafn ríkisskattstjóra 18.4.2024 19:01:47

Reglugerð nr. 373/2001, kafli 2 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=373.2001.2)
Ξ Valmynd

II. KAFLI
Upphaf rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra, markmið hennar og afmörkun.

Upphaf rannsóknar máls.
11. gr.

(1) Upphaf rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattsvikum eða öðrum refsiverðum brotum getur verið með eftirfarandi hætti:

  1. Með tilkynningu frá skattstjóra.
     
  2. Með tilkynningu frá ríkisskattstjóra.
     
  3. Að eigin frumkvæði.
     
  4. Samkvæmt tilvísun frá lögreglu.
     
  5. Samkvæmt kæru, tilkynningu eða ábendingu frá þriðja manni (utanaðkomandi aðila).

(2) Skattrannsóknarstjóri ríkisins ákveður hvort ábending skv. 5. tölul. 1. mgr. eða tilkynning skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. gefur tilefni til rannsóknar eða annarrar umfjöllunar af hans hálfu. Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal hefja rannsókn samkvæmt 4. tölul. nema hann telji atvik vera með þeim hætti að rannsókn á hans vegum sé þýðingarlaus eða illframkvæmanleg af öðrum ástæðum eða varði mjög óverulegar fjárhæðir. Skal þá lögreglu tilkynnt sú niðurstaða. 

Markmið rannsóknar.
12. gr.

Markmið rannsóknar skal vera að afla allra nauðsynlegra gagna og upplýsa málsatvik til þess að unnt sé að ákvarða hvort skattskil hafi verið röng eða byggð á vafasömum, hæpnum eða ófullnægjandi forsendum, svo leggja megi grundvöll að endurákvörðun opinberra gjalda, og unnt sé að meta hvort krafist skuli refsimeðferðar og þá með hvaða hætti, sbr. VI. kafla. 

Heimildir til rannsóknar.
13. gr.

(1) Skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur heimild til að rannsaka framtalsskil og skattskil allra manna og lögaðila sem framtalsskyldir eru, hvort sem framtalsskyldu hefur verið fullnægt eða ekki.

(2) Skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur heimild til að rannsaka staðgreiðsluskil, virðisaukaskattsskil, og tryggingagjaldsskil m.a. á yfirstandandi rekstrarári.

(3) Þá hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins heimild til að rannsaka bókhald, grundvöll skattskila og ársreikninga. Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal við rannsókn hafa aðgang að öllum framtölum og skýrslum í vörslu skattstjóra og getur hann krafist allra upplýsinga og gagna sem hann telur þörf á frá skattstjórum og ríkisskattstjóra og aðilum sem um ræðir í 94. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt*1).

(4) Lögreglu er skylt að veita skattrannsóknarstjóra ríkisins nauðsynlega aðstoð í þágu rannsókna ef aðili færist undan afhendingu bókhaldsgagna og hætta er á sakarspjöllum vegna gruns um væntanlegt undanskot gagna.

*1)Nú laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. 

Umfang og afmörkun rannsóknar.
14. gr.

(1) Skattrannsóknarstjóri ríkisins tekur ákvörðun um afmörkun á rannsókn máls, þ.m.t. til hvaða ára eða tímabila rannsókn tekur, hvaða atriði verða rannsökuð, af hverjum skýrslur eru teknar og að öðru leyti með hvaða hætti rannsókn fer fram.

(2) Skattrannsóknarstjóra ríkisins er heimilt að fela löggiltum endurskoðanda að vinna að einstökum rannsóknarverkefnum. 

Fara efst á síðuna ⇑