Skattalagasafn ríkisskattstjóra 28.3.2024 19:15:51

Reglugerð nr. 373/2001, kafli 1 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=373.2001.1)
Ξ Valmynd

I. KAFLI
Um skatteftirlit og tilkynningar til skattrannsóknarstjóra.

Almenn ákvæði.
1. gr.

(1) Skattstjórar*) annast skatteftirlit hver í sínu skattumdæmi.

(2) Ríkisskattstjóri hefur á hendi yfirstjórn skatteftirlits og skatteftirlit á landinu öllu.

(3) Skattrannsóknarstjóri ríkisins skal hafa með höndum rannsóknir á skattsvikum og öðrum refsiverðum brotum á lögum um skatta og gjöld sem á eru lögð af skattstjórum eða þeim er falin framkvæmd á, ásamt rannsókn á brotum á lögum um bókhald og ársreikninga. 

*)Nú ríkisskattstjóri, sbr. lög nr. 136/2009. 

Skatteftirlit.
2. gr.

(1) Skatteftirlit í skilningi reglugerðar þessarar tekur til hvers konar könnunar skattstjóra og ríkisskattstjóra á réttmæti skattskila fyrir og eftir álagningu eða ákvörðun opinberra gjalda eða skatta, samtímaeftirlits með rekstraraðilum, svo og annarra aðgerða sem ætlað er að tryggja að skattaðilar standi skil á lögboðnum skýrslum og upplýsingum um skattstofn eða skattskyldu.

(2) Í könnun á réttmæti skattskila felst m.a. samanburður upplýsinga sem fyrir hendi eru innan skattkerfisins við skattframtöl og aðrar skýrslur skattaðila, könnun á réttmæti frádráttarliða, innskatts og endurgreiðslukrafna, skoðun bókhaldsgagna og eftirlit með tekjuskráningu. Einnig öflun frekari gagna frá skattaðilum eða öðrum, könnun á launabókhaldi og skilum á staðgreiðslu, virðisaukaskatti og öðrum gjöldum.

(3) Með samtímaeftirliti er átt við athugun á bókhaldi rekstraraðila ásamt leiðbeiningargjöf til þeirra, þar sem lögð skal áhersla á fyrirfram ákveðin atriði svo sem tekjuskráningu, launabókhald og skil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Samtímaeftirlit lýtur jafnframt að athugun á notkun bifreiða og annarra eigna rekstraraðila m.a. með tilliti til skattskyldra hlunninda starfsmanna. 

Skattstjórar.
3. gr.

(1) Skattstjóri skipuleggur og stýrir skatteftirliti í umdæmi sínu og ákveður að hverju eftirlit beinist hverju sinni á grundvelli framtala og annarra skattskila, upplýsinga og ábendinga og á grundvelli eftirlitsáætlunar ríkisskattstjóra. Við val á aðilum sem eftirlit beinist að skal gæta samræmis og skal valið gert á hlutlægan hátt eða látið ráðast af tilviljunarúrtaki.

(2) Fjármálaráðherra getur ákveðið að ríkisskattstjóri annist almennt skatteftirlit í tilteknu skattumdæmi í samráði við skattstjóra þess. 

Ríkisskattstjóri.
4. gr.

(1) Ríkisskattstjóri hefur á hendi yfirstjórn skatteftirlits. Hann setur skattstjórum verklagsreglur og veitir leiðbeiningar um málsmeðferð.

(2) Ríkisskattstjóri skal árlega semja áætlun um eftirlitsaðgerðir á sínum vegum og á vegum skattstjóra í samráði við þá. Skal ríkisskattstjóri árlega gefa fjármálaráðherra skýrslu um framkvæmd skatteftirlits og árangur af því.

(3) Ríkisskattstjóri annast öflun almennra upplýsinga vegna skatteftirlits samkvæmt eftirlitsáætlun hans og hefur með höndum vörslu þeirra ásamt skattstjóra. Hann skal annast vinnslu upplýsinga úr skatteftirliti, upplýsingaöflun frá erlendum skattyfirvöldum vegna skatteftirlits og miðlun þeirra til viðkomandi skattstjóra. 

Öflun og meðferð gagna vegna skatteftirlits.
5. gr.

(1) Um öflun gagna vegna skatteftirlits skulu gilda ákvæði 18. gr. um öflun gagna vegna skattrannsókna. Ákvæði 19. gr. gilda með sama hætti að því er varðar skráningu og meðferð gagna sem skattstjóri eða ríkisskattstjóri tekur í sínar vörslur vegna skatteftirlits.

(2) Eftir því sem aðstæður leyfa skal við það miðað að öll umfangsmikil gagnaöflun frá rekstraraðilum fari fram í starfsstöð eða á skrifstofu þeirra. 

Endurákvörðun opinberra gjalda vegna skatteftirlits.
6. gr.

Ef skatteftirlit leiðir til endurákvörðunar opinberra gjalda án þess þó að um skattrannsókn sé að ræða, sbr. 8. gr., skal skattstjóri eða eftir atvikum ríkisskattstjóri annast endurákvörðunina. Heimilt er skattaðila að kæra þá endurákvörðun til yfirskattanefndar. 

Skattsvik.
7. gr.

(1) Það teljast skattsvik þegar aðili gefur af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangar eða villandi upplýsingar sem ætlaðar eru til nota við skattákvarðanir. Sama gildir ef aðili vanrækir að gefa upplýsingar sem kunna að hafa þýðingu við skattákvarðanir.

(2) Hafi skattstjóri eða ríkisskattstjóri rökstuddan grun um að skattsvik eða refsiverð brot á lögum um bókhald og ársreikninga hafi verið framin skal hann tilkynna um það til skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. 8. gr., sem ákveður um framhald málsins. Tilkynningu skattstjóra eða ríkisskattstjóra skal fylgja greinargerð um athugun hans á skattskilum aðila ásamt þeim gögnum sem aflað hefur verið vegna málsins.

Hvenær skal vísa máli til skattrannsóknarstjóra ríkisins.
8. gr
.

(1) Svofelldir annmarkar á skattskilum skulu jafnan tilkynntir til skattrannsóknarstjóra ríkisins nema ljóst þyki af öllum atvikum máls að almennt gáleysi skattaðila hafi valdið þeim og ekki sé um að ræða tilvik sem 9. gr. tekur til:

  1. Þegar um er að ræða vanframtaldar tekjur af atvinnurekstri eða vanframtalda skattskylda veltu til virðisaukaskatts eða aðra vanframtalda skattstofna vegna atvinnurekstrar sem skattstjórar leggja á.
     
  2. Atvinnurekstur hefur ekki verið tilkynntur til skattyfirvalda, þrátt fyrir ábendingar eða tilmæli skattstjóra.
     
  3. Frádráttur frá tekjum er byggður á röngum gögnum, engum gögnum, gögnum sem tilheyra öðrum skattaðilum eða þau verið rangfærð.
     
  4. Skattaðili hefur áður verið til meðferðar hjá skattyfirvöldum vegna hliðstæðra atriða sem athugunarverð þykja, nema undandregin fjárhæð sé óveruleg. Ákvæði þessa töluliðar á ekki við um einstaklinga skv. 1. tölul. 1. mgr. 9. gr.
     
  5. Innskattsfærslur eru byggðar á röngum gögnum, gögnum sem tilheyra öðrum skattaðilum eða á annan hátt hefur verið stefnt að rangfærslu þeirra.
     
  6. Kröfur um endurgreiðslur virðisaukaskatts eru reistar á röngum gögnum eða eru á annan hátt ótrúverðugar eða rangar svo sem vegna viðskipta tengdra aðila þar sem annar aðilinn eða báðir hafa ekki uppfyllt lagaskyldur.

(2) Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er skattstjóra heimilt að ljúka máli án þess að vísa því til skattrannsóknarstjóra ríkisins ef undandregin fjárhæð er óveruleg og saknæmi brotsins þykir að öðru leyti ekki gefa tilefni til þess að máli sé vísað til hans. 

Mál sem ekki sæta meðferð hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.
9. gr.

(1) Í eftirfarandi tilvikum skal jafnan ekki tilkynna mál til skattrannsóknarstjóra ríkisins nema ljóst þyki af öllum atvikum að skattaðili hafi rangfært skattskil sín af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, sbr. og aðstæður sem greinir í 2. mgr.:

  1. Mál einstaklinga utan atvinnurekstrar.
     
  2. Mál sem varða einkum túlkun á skattalögum eða annarri löggjöf.
     
  3. Athugun beinist að tímamörkum tekjufærslu, enda sé eingöngu ágreiningur um hvenær færa skuli tekjur til skattlagningar.
     
  4. Mál sem varða frádrátt frá tekjum rekstraraðila, án þess að 3. tölul. 8. gr. eigi við.

(2) Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. skulu mál skattaðila utan rekstrar jafnan tilkynnt til skattrannsóknarstjóra ríkisins ef rangfærsla stendur í nánum tengslum við skattskil rekstraraðila, t.d. ef aðilar hafa sammælst um hana og hún hefur áhrif á skattskil beggja, enda séu skilyrði 7. og 8. gr. uppfyllt. Sama gildir ef annmarkar varðandi skattskil aðila utan rekstrar teljast sérlega vítaverðir að öðru leyti, m.a. ef rangfærsla varðar þrjú ár eða fleiri eða ef um ítrekuð brot er að ræða. 

10. gr.

Þegar athugun skattstjóra beinist að öðrum atriðum en tilgreind eru í 1. mgr. 9. gr., en atvik eru þó ekki með þeim hætti að mati skattstjóra að þörf sé á að málið sæti meðferð hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, og ekki er til að dreifa atvikum sem getið er í 7. sbr. 8. gr., getur skattstjóri gert þær ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar í því skyni að ljúka málsmeðferð sinni. 

Fara efst á síðuna ⇑