Skattalagasafn ríkisskattstjóra 20.4.2024 10:54:57

Reglugerð nr. 283/2005, kafli 4 (slóð: www.skattalagasafn.is?reg=283.2005.4)
Ξ Valmynd

IV. KAFLI
Geymsla á litaðri olíu og afhending á litaðri og ólitaðri olíu.

11. gr.
Geymsla og afhending.

(1) Búnað, tanka o.fl. sem leyfishafar nota til geymslu á litaðri olíu, má ekki nota til að geyma aðra vöru. Ef breyta á notkun tankanna o.fl. til geymslu á annarri vöru, skulu þeir tæmdir af litaðri olíu og hreinsaðir ef þess þarf til að uppfylla ákvæði 4. mgr.

(2) Leyfishafar geta afhent bæði litaða og ólitaða olíu úr mismunandi geymsluhólfum sama tankbíls án þess að hvert geymsluhólf fyrir sig sé með aðskilinn dælubúnað.

(3) Leyfishafar sem afhenda bæði litaða og ólitaða olíu í gegnum sama dælubúnað frá litunarbúnaði tankbíls, skulu setja upp kerfi, þ.m.t. skolunarkerfi eða kerfi sem tryggir það að ólituð olía innihaldi ekki meira af litunarefni en kveðið er á um í 4. mgr., og að lituð olía sé réttilega lituð, sbr. 4. gr.

(4) Ólituð olía má að hámarki innihalda 3% af litaðri olíu, án þess að verða talin lituð olía.
 

12. gr.
Mistök við afgreiðslu.

     Ef lituð olía er afgreidd vegna mistaka á ökutæki sem fellur ekki undir 2. gr. skal leiðrétta þá afgreiðslu og tæma og hreinsa eldsneytistank eða geyma vegna viðkomandi ökutækis. Ef lituð og ólituð olía blandast fyrir mistök í meðhöndlun og dreifingu eða að mistök verða við framkvæmd litunar á olíu, skal ríkisskattstjóra tilkynnt um það án tafar og skulu úrbætur og uppgjör vera í samræmi við fyrirmæli ríkisskattstjóra. Ef um ásetning eða stórkostlegt gáleysi er að ræða gilda ákvæði 20. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl.
 

Fara efst á síðuna ⇑