Skattalagasafn ríkisskattstjóra 23.4.2024 09:28:35

Lög nr. 90/2003, kafli 5 - álagningarár 2020 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=90.2003.5&alagningarar=2020)
Ξ Valmynd

 Álagningarár:

V. KAFLI
Tekjuskattsstofn.

Almenn ákvæði.
61. gr.

 Tekjuskattsstofn er sú fjárhæð sem skattur er reiknaður af og ákveðst þannig:

  1. Tekjuskattsstofn manna, sem ekki hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, telst tekjur samkvæmt II. kafla, eftir því sem við á, að teknu tilliti til þess frádráttar sem slíkum aðilum er heimilaður skv. 30. gr.

  2. Tekjuskattsstofn lögaðila, sbr. 2. gr., telst tekjur samkvæmt II. kafla, að teknu tilliti til þess frádráttar sem þessum aðilum er heimilaður skv. 31. gr.

  3. Tekjuskattsstofn manna, sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, er þessi:
    1. Tekjur samkvæmt II. kafla, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, að teknu tilliti til þess frádráttar sem heimilaður er frá þeim tekjum, sbr. 30. gr.
    2. Tekjur samkvæmt II. kafla, sem tengdar eru atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, að teknu tilliti til þess frádráttar sem heimilaður er frá þeim tekjum, sbr. 31. gr. (1)

Samanlagðar tekjur ákveðnar eftir a- og b-liðum mynda tekjuskattsstofn aðila samkvæmt þessum tölulið. Sé tap á atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, þannig að b-liður þessa töluliðar verði neikvæður, telst tekjuskattsstofn einungis tekjur samkvæmt a-lið. (2)

Tap af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi er aldrei heimilt að draga frá tekjum sem ekki eru tengdar slíkri starfsemi, en heimilt er að yfirfæra það skv. 8. tölul. 31. gr. og draga það frá hagnaði sem síðar kann að myndast í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi aðila. (3)
 

Tekjuskattsstofn hjóna og barna.
62. gr.

(1) Hjón sem samvistum eru skulu telja fram tekjur sínar sem hér segir:

  1. Hvoru hjóna um sig ber að telja fram tekjur sínar skv. A-lið 7. gr. Frá þessum tekjum skal síðan draga frádrátt skv. A-lið 1. mgr. 30. gr.

  2. Tekjur hjóna skv. C-lið 7. gr. skal leggja saman og telja til tekna hjá því hjóna sem hærri hefur hreinar tekjur skv. 1. tölul. þessarar greinar. Ekki skiptir máli hvort tekjurnar eru af séreign samkvæmt kaupmála eða hjúskapareign. Frá tekjum þess hjóna skal síðan draga frádrátt skv. B-lið 1. mgr. 30. gr.

  3. Hreinar tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. B-lið 7. gr. og 31. gr., skal telja hjá því hjóna sem stendur fyrir rekstrinum og skulu þær skattlagðar með öðrum tekjum þess, sbr. ákvæði 3. tölul. 61. gr. (1)

    Þegar atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi er háð sérþekkingu eða persónubundnum rekstrarleyfum skulu hreinar tekjur af rekstrinum taldar hjá því hjóna sem sérþekkinguna eða leyfið hefur. Starfi hjón sameiginlega að atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi og hafi bæði þá sérþekkingu eða leyfi sem krafist er, eða sé slíkrar sérþekkingar eða leyfa ekki krafist, skal skipta hreinum tekjum af rekstrinum í hlutfalli við vinnuframlag hvors um sig og telja til tekna hjá hvoru hjóna. Geri hjón ekki fullnægjandi og rökstudda grein fyrir vinnuframlagi hvors um sig eða þyki skýrslur þeirra tortryggilegar skulu skattyfirvöld áætla skiptingu hreinna tekna af atvinnurekstrinum eða hinni sjálfstæðu starfsemi. (2)


    Um meðferð á tapi af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi fer eftir sömu reglum og gilda um hreinar tekjur, sbr. 1. og 2. mgr. þessa töluliðar. (3)

(2) Nemi heildarfrádráttur, er um ræðir í 1. og 2. tölul. 1. mgr., hærri fjárhæð hjá öðru hjóna en tekjur þær, er um ræðir í 1., 2. og 3. tölul. 1. mgr., skal það, sem umfram er, dregið frá tekjum hins hjóna við álagningu.

(3) [Einstaklingar í óvígðri sambúð eiga rétt á að telja fram og vera skattlagðir sem hjón, sem samvistum eru, enda óski þeir þess báðir skriflega við skattyfirvöld. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er eða skrá má í þjóðskrá skv. 3. mgr. 7. gr. laga um lögheimili, enda eigi sambúðarfólk barn saman eða von á barni saman eða hafi verið samvistum í samfellt eitt ár hið skemmsta. Ríkisskattstjóra er heimilt að leita umsagnar [Þjóðskrár Íslands]2) þyki leika vafi á um að skráningarskilyrði séu uppfyllt.]1)

(4) [---]1)

1)Sbr. 46. gr. laga nr. 65/2010. 2)Sbr. 5. gr. laga nr. 77/2010.

63. gr.

(1) Þeir skattaðilar sem uppfylla skilyrði 62. gr. aðeins hluta úr ári, t.d. vegna stofnunar eða slita hjúskapar á árinu, slita á samvistum eða andláts maka, skulu telja fram tekjur sínar á þeim tíma sem umrædd skilyrði voru uppfyllt í samræmi við ákvæði 62. gr. og skulu skattlagðir sem hjón þann tíma. Tekjur á öðrum tíma ársins skal telja fram hjá þeim, sem þær hafði, sem einstaklingi, og skattleggja þær samkvæmt því. Um útreikning tekjuskatts og ónýtts persónuafsláttar fer eftir ákvæðum 2. mgr. 69. gr., en tímamörk skulu miðast við þann dag sem til hjúskapar var stofnað eða skilnaður eða sambúðarslit fóru fram eða maki andaðist. Þeim sem gengið hafa í hjúskap á árinu eða uppfyllt hafa skilyrði 3. mgr. 62. gr. er þó jafnan heimilt að telja fram allar tekjur sínar á árinu sem hjón í samræmi við ákvæði 62. gr. og fer þá um álagningu tekjuskatts og ákvörðun ónýtts persónuafsláttar samkvæmt því. Eftirlifandi maka skal ætíð heimilt að telja fram allar tekjur sínar og hins látna maka sem hjón væru í samræmi við ákvæði 62. gr., í allt að níu mánuði frá og með andlátsmánuði makans og fer þá um álagningu tekjuskatts og ákvörðun persónuafsláttar samkvæmt því. Þá er hjónum sem slíta hjúskap eða samvistum á árinu heimilt að telja fram allar tekjur sínar á því ári hvoru í sínu lagi. Hafi þau samnýtt persónuafslátt þannig að annar makinn hefur nýtt persónuafslátt hins á staðgreiðsluárinu skal telja þannig nýttan persónuafslátt þeim fyrrnefnda til góða, en skerða persónuafslátt hins síðarnefnda sem því nemur. Gera skal sérstaka grein fyrir þessari nýtingu með framtali að staðgreiðsluári liðnu.

(2) Sé svo ástatt hjá hjónum að annar hvor makanna er skattskyldur hér á landi skv. 1. gr. en hinn makinn ber ekki ótakmarkaða skattskyldu hér á landi vegna ákvæða samninga Íslands við önnur ríki eða af öðrum ástæðum, þá skal sá maki sem skattskyldur er hér á landi skattlagður sem einstaklingur. Til tekna hjá honum skal telja allar sérafla- og séreignatekjur hans í samræmi við ákvæði um ótakmarkaða skattskyldu hér á landi að viðbættu sannanlegu framfærslufé frá hinum makanum. Sé eigi unnt að færa sönnur á slíkt framfærslufé skal skattyfirvöldum heimilt að áætla sanngjarnt og hæfilegt framfærslufé með hliðsjón af öllum aðstæðum hjónanna.

64. gr.

(1) Tekjur barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 6. gr., skulu teljast með tekjum þess foreldris sem hærri hefur hreinar tekjur skv. 1. tölul. 1. mgr. 62. gr. ef foreldrar þess eru skattlagðir sem hjón en ella með tekjum þess foreldris eða manns sem nýtur barnabóta vegna barnsins, sbr. A-lið 68. gr.

(2) Þær tekjur barns, sem um ræðir í 1. tölul. A-liðar 7. gr. að frádregnum frádrætti skv. 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr., skulu þó skattlagðar sérstaklega hjá því í samræmi við ákvæði 2. mgr. 66. gr.

(3) [Ríkisskattstjóri]1) má taka til greina umsókn framfæranda barns um að allar tekjur barns, sem misst hefur báða foreldra sína og hefur ekki verið ættleitt, skuli skattlagðar hjá barninu sjálfu í samræmi við ákvæði 2. mgr. 66. gr. Sama á við ef barn hefur misst annað foreldri sitt.

1)Sbr. 6. gr. laga nr. 136/2009.

Heimild til lækkunar á tekjuskattsstofni.
65. gr.

(1) [Ríkisskattstjóri skal taka til afgreiðslu umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns þegar svo stendur á sem hér greinir:]2)

  1. Ef ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafa skert gjaldþol manns verulega.

  2. Ef á framfæri manns er barn sem haldið er langvinnum sjúkdómum eða er fatlað [---]1) og veldur framfæranda verulegum útgjöldum umfram venjulegan framfærslukostnað og mótteknar bætur.

  3. Ef maður hefur foreldra eða aðra vandamenn sannanlega á framfæri sínu.

  4. Ef maður hefur veruleg útgjöld vegna menntunar barna sinna 16 ára og eldri.

  5. Ef maður hefur orðið fyrir verulegu eignartjóni sem hann hefur ekki fengið bætt úr hendi annarra aðila.

  6. Ef gjaldþol manns hefur skerst verulega vegna tapa á útistandandi kröfum sem ekki stafa frá atvinnurekstri hans.

(2) [Ríkisskattstjóri getur veitt ívilnanir samkvæmt þessari grein án umsóknar. Berist umsókn eftir að kærufresti skv. 99. gr. lýkur er ríkisskattstjóra heimilt að taka hana til afgreiðslu enda séu skilyrði 2. mgr. 101. gr. uppfyllt.]4)

(3) [[Í upphafi hvers árs skal ríkisskattstjóri að fenginni staðfestingu ráðherra gefa út reglur*1) um nánari skilyrði fyrir veitingu ívilnana samkvæmt ákvæði þessu.]3) 5)

1)Sbr. 4. gr. laga nr. 61/2008. 2)Sbr. 12. gr. laga nr. 128/2009. 3)Sbr. 7. gr. laga nr. 136/2009. 4)Sbr. 1. gr. laga nr. 16/2010. 5)Sbr. 2. gr. laga nr. 50/2018. *1)Sjá nú auglýsingu nr. 495/2017.

Fara efst á síðuna ⇑