Skattalagasafn ríkisskattstjóra 28.3.2024 19:42:21

Lög nr. 90/2003, kafli 4 - álagningarár 2020 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=90.2003.4&alagningarar=2020)
Ξ Valmynd

 Álagningarár:

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði um tekjur.
 
Sameining og skipting félaga.
51. gr.
 
(1) Sé hlutafélagi slitið þannig að það sé algjörlega sameinað öðru hlutafélagi og hluthafar í fyrrnefnda félaginu fái eingöngu hlutabréf í síðarnefnda félaginu sem gagngjald fyrir hlutafé sitt í félagi því sem slitið var, þá skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem hlutabréfin lét af hendi. Við slíkan samruna hlutafélaga skal það félag, er við tekur, taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum þess félags sem slitið var.

[(2) Sé hlutafélagi slitið þannig að það sé algjörlega sameinað öðru hlutafélagi sem er heimilisfast í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og hluthafar í fyrrnefnda félaginu fái eingöngu hlutabréf í síðarnefnda félaginu sem gagngjald fyrir hlutafé sitt í félagi því sem slitið var skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem hlutabréfin lét af hendi. Við slíkan samruna hlutafélaga skal það félag, er við tekur, taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum þess félags sem slitið er, frá og með uppgjörsdegi efnahagsreikninga samkvæmt samrunaáætlun. Sé um hlutafélög að ræða sem eru heimilisföst í lágskattaríki á ákvæði þetta ekki við nema þau geti sýnt fram á að um raunverulega atvinnustarfsemi sé að ræða, sbr. 57. gr. a.

(3) Við samruna yfir landamæri, þar sem innlent félag er yfirtekið, skal fara með eignir, réttindi, kröfur og skuldbindingar sem eru yfirteknar og yfirfærðar, sbr. 2. málsl. 2. mgr., sem seldar eða innleystar væru. Leggja skal fram útreikninga á gangverði eigna með samrunaáætlun og skulu þeir byggjast á mati sérfræðinga og staðfestir af löggiltum endurskoðendum félagsins, sbr. XIV. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Þegar tilkynnt er um staðfestan samruna yfir landamæri og afskráningu félags skal jafnframt leggja fram skýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður um þann skattstofn sem slíkur samruni hefur í för með sér. Skattskyldar tekjur skal reikna út miðað við mismun á gangverði eigna og skattalegu stofnverði þeirra að teknu tilliti til áður fenginna fyrninga á þeim uppgjörsdegi sem efnahagsreikningur samrunaáætlunar miðast við og skal ákvörðun skatts taka mið af því tímamarki. Við útreikning skulda skal einungis miða við skuldir og skuldbindingar skv. 75. gr.

(4) Ákvörðun skatts samkvæmt ákvæði þessu skal hafa farið fram innan tveggja mánaða frá því að samruni er staðfestur með tilkynningu til hlutafélagaskrár og fellur hann í gjalddaga 10 dögum síðar. Við útreikning skattskyldra tekna samkvæmt ákvæði þessu er heimilt að undanskilja þær eignir skattlagningu sem eftir verða hér á landi og gætu talist til reksturs fastrar starfsstöðvar í eigu hins sameinaða félags enda verði hún skráð hér á landi.

(5) Fresta má greiðslu á þeirri skattskuld sem er gjaldfallin skv. 4. mgr. í allt að fimm almanaksár. Höfuðstóll skattskuldar skal bera vexti til greiðsludags í samræmi við almenna óverðtryggða vexti af peningakröfum sem birtir eru á vef Seðlabanka Íslands. Félög sem óska eftir frestun skulu hafa staðið skil á skattframtali fyrir liðin tekjuár og þann hluta tekjuárs sem efnahagsreikningur samrunaáætlunar miðast við. Ef eignir, réttindi og skuldbindingar eru færðar til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja fellur frestun á greiðslu eftirstöðva skattskuldar niður frá og með næsta gjalddaga.

(6) Afborgun af höfuðstól skattskuldarinnar skal að lágmarki á hverju tekjuári eftir samrunann nema 1/5 af hinni frestuðu fjárhæð þar til greitt hefur verið að fullu. Gjalddagi er [1. október]3) ár hvert og eindagi 15 dögum síðar. Reikna skal dráttarvexti í samræmi við 1. mgr. 114. gr. hafi greiðsla ekki farið fram á eindaga. Að öðru leyti en greinir í þessu ákvæði skulu ákvæði laga þessara um framtöl, skýrslugjafir, álagningu, eftirlit, kærur og innheimtu gilda eftir því sem við á.

(7) Félag sem hefur fengið frest á greiðslu höfuðstóls skattskuldar skal leggja fram bankatryggingu til tryggingar greiðslunni til tollstjóra ef hin frestaða fjárhæð er umfram 50 millj. kr. [nema fyrir hendi sé heimild til að afla nauðsynlegra upplýsinga á grundvelli tvísköttunarsamnings eða annars alþjóðasamnings].2) Bankatrygging skal tryggja greiðslu á höfuðstól kröfunnar ásamt dráttarvöxtum og innheimtukostnaði. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. skal leggja fram bankatryggingu óháð fjárhæðarmörkum í þeim tilvikum þar sem ekki er fyrir hendi tvísköttunarsamningur með ákvæði um innheimtuaðstoð eða aðrir samningar um aðstoð við innheimtu í heimilisfestarríki yfirtökufélags. Árlega, á meðan frestur varir, skal yfirtökufélag skila ársreikningi og skýrslu til ríkisskattstjóra í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður þar sem fram koma upplýsingar um hinar yfirfærðu eignir, svo sem sölu þeirra eða aðrar ráðstafanir. Sé skýrslu ekki skilað fyrir 1. október ár hvert gjaldfellur hin frestaða fjárhæð frá og með næsta gjalddaga.

(8) Sömu reglur gilda eftir því sem við á þegar um innlent yfirtökufélag er að ræða. Fari skattalegt uppgjör ekki fram í samræmi við gangverðsreglur í fyrrverandi heimilisfestarríki skal eftir atvikum miða skattalegt stofnverð eigna við upphaflegt kostnaðarverð að frádregnum fyrningum umreiknað í íslenskar krónur eða starfrækslugjaldmiðil samkvæmt gengi á dagsetningu efnahagsreiknings samrunaáætlunar. Sé yfirfærslan byggð á gangverðsútreikningi skal sýnt fram á að skattuppgjör hafi tekið mið af því.

(9) Framangreind ákvæði eiga ekki við nema heimild sé fyrir hendi til að afla nauðsynlegra upplýsinga á grundvelli tvísköttunarsamnings eða annars alþjóðasamnings. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd samruna yfir landamæri, m.a. um bankatryggingu, skýrslur o.fl.]1)
 
(10) Þegar samvinnufélög sameinast, sbr. 56. gr. laga nr. 22/1991, um samvinnufélög, eða hluta­félag sameinast samvinnufélagi, sbr. 59. gr. sömu laga, skal hið sameinaða félag taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum hinna fyrri félaga.*1)
 
(11) Sé samvinnufélagi slitið á þann hátt að því sé breytt í hlutafélag og félagsaðilar samvinnu­félagsins fái eingöngu hlutabréf í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir séreignarhluti sína í samvinnufélaginu skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem séreignarhlutinn lét af hendi. Hafi samvinnufélag sem breyta á í hlutafélag myndað sérstaka B-deild stofnsjóðs með sölu hluta og eigendur samvinnuhlutabréfanna í B-deild fá eingöngu hlutabréf í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir B-deildarhluti sína í samvinnufélaginu, þá skulu skiptin á sama hátt ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem samvinnuhlutabréfin lét af hendi. Þegar samvinnufélagi er breytt í hlutafélag skal hlutafélagið, sem við tekur, taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum samvinnufélagsins sem slitið var.*2)

1)Sbr. 6. gr. laga nr. 142/2013. 2)Sbr. 3. gr. laga nr. 124/2015. 3)Sbr. 1. gr. laga nr. 50/2018. *1)Var áður 2. mgr., sbr. lög nr. 142/2013  *2)Var áður 3. mgr., sbr. lög nr. 142/2013.
 
 52. gr.
 
(1) [Sé hlutafélagi skipt þannig að öllum eignum og skuldum sé skipt á milli hins skipta félags og/eða þeirra félaga sem [við tóku eða]2) urðu til við skiptin, og hluthafar í félaginu sem skipt var fái eingöngu hlutabréf í þeim félögum sem eignir og skuldir deildust á við skiptin, skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem hlutabréfin lét af hendi].1) Eignarhlutir hluthafa í félögunum skulu vera innbyrðis í sömu hlutföllum og eignarhlutirnir voru í því félagi sem skipt er. Eignir og skuldir skulu yfirfærast á bókfærðu verði. Ákvæði þessarar málsgreinar eiga einnig við þegar hlutafélagi er skipt þannig að fleiri en eitt hlutafélag taka við hluta eigna og skulda í upprunalegu félagi. Sé samvinnufélagi skipt þannig að fleiri en eitt samvinnufélag eða hlutafélag taki við eignum og skuldum frá félaginu skulu ákvæði þessarar málsgreinar gilda um slíka skiptingu. Séreignarhlutir félagsaðila í samvinnufélögunum skulu vera inn­byrðis í sömu hlutföllum og séreignarhlutirnir í hinu skipta félagi en taki hlutafélag við eignum og skuldum frá samvinnufélaginu skulu allir hlutir í hlutafélaginu vera í eigu hins skipta félags.

(2) Við skiptingu skv. 1. mgr. skiptast skattalegar skyldur og réttindi milli félaganna í sama hlutfalli og bókfært verð eigna að frádregnum skuldum sem flytjast til þeirra.

[(3) Sé hlutafélagi skipt þannig að öllum eignum og skuldum sé skipt á milli hins skipta félags og/eða þeirra félaga sem við tóku eða urðu til við skiptin, sem heimilisföst eru í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og hluthafar í félaginu sem skipt var fái ein­göngu hlutabréf í þeim félögum sem eignir og skuldir deildust á við skiptin, skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem hlutabréfin lét af hendi. Eignarhlutir hluthafa í félögunum skulu vera innbyrðis í sömu hlutföllum og eignarhlutirnir voru í því félagi sem skipt er. Eignir og skuldir skulu yfirfærast á bókfærðu verði. Ákvæði þessarar málsgreinar eiga einnig við þegar hlutafélagi er skipt þannig að fleiri en eitt hlutafélag taka við hluta eigna og skulda í upprunalegu félagi. Sé um hlutafélög að ræða sem eru eða yrðu heimilisföst í lágskattaríki á ákvæði þetta ekki við nema sýnt sé fram á með fullnægjandi hætti að um raunverulega atvinnustarfsemi sé að ræða, sbr. 57. gr. a.

(4) Ákvæði 3.–9. mgr. 51. gr., um samruna yfir landamæri, skulu gilda með sama hætti um skipt­ingu yfir landamæri, m.a. um útreikninga, skýrsluskil, ákvörðun skatts, frestun, afborgun, bankatryggingu, innlent félag og upplýsingaskyldu, eftir því sem við á, þó þannig að öll þau félög sem taka þátt í skiptingu skulu bera óskipta ábyrgð á þeim sköttum sem lagðir eru á við skiptin. Hafi skiptin í för með sér slit hins upphaflega skipta félags hvílir óskipt ábyrgð á þeim félögum sem við taka.]3)

1)Sbr. 8 .gr. laga nr. 128/2009. 2)Sbr. 7 .gr. laga nr. 165/2010. 3)Sbr. 4. gr. laga nr. 124/2015.
 
53. gr.
 
(1) Sé sameignarfélagi slitið, þannig að það sé algjörlega sameinað öðru slíku sam­eignar­félagi eða hlutafélagi og eigendur í fyrrnefnda félaginu fái eingöngu eignarhluta eða hlutabréf í síðarnefnda félaginu sem gagngjald fyrir eignarhluta sína í félagi því sem slitið var, þá skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem lét eignarhluta sinn af hendi og heldur ekki fyrir félag það sem slitið var. Við slíkan samruna félaga skal það félag, er við tekur, taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum þess félags sem slitið var.
 
(2) Ef sameignarfélagi, sbr. 1. mgr. þessarar greinar, er breytt í hlutafélag þannig að eigendur í fyrrnefnda félaginu fái eingöngu hlutabréf í síðarnefnda félaginu sem gagngjald fyrir eignarhluta sína í félagi því sem slitið var, þá skal þessi breyting ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigendur sameignarfélagsins eða félagið sjálft. Við slíka breytingu skal hlutafélagið taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum sameignarfélagsins.
 
(3) Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. bera eigendur sameignarfélags, sem slitið er eða breytt er í hlutafélag, ótakmarkaða ábyrgð á greiðslu þeirra opinberu gjalda sem varða reikningsár fyrir slit eða breytingu.
 
[53. gr. a
 
Sé verðbréfa- eða fjárfestingarsjóði slitið, sbr. lög nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, þannig að hann sé algjörlega sameinaður öðrum slíkum verðbréfa- eða fjárfestingarsjóði, skal sameiningin ekki leiða til skattskyldu hjá eigendum þess sjóðs sem slitið er, enda sé um jafngild verðmæti að ræða.

[---]2)]1)

1)Sbr. 5. gr. laga nr. 124/2015. 2)Sbr. 2. gr. laga nr. 54/2016.
 
54. gr.
 
(1) Þrátt fyrir ákvæði 51.-53. gr. [og 53. gr. a]2) skal rekstrartap, þar með taldar eftirstöðvar rekstrartapa frá fyrri árum, sbr. 8. tölul. 31. gr., hjá því félagi sem slitið var ekki flytjast til þess félags eða þeirra félaga sem við taka nema uppfyllt séu öll skilyrði þessarar greinar. Félag eða félög þau sem við taka skulu hafa með höndum skyldan rekstur eða starfsemi og það félag sem slitið var. Tap flyst ekki milli félaga við sameiningu eða skiptingu þegar það félag sem slitið var átti fyrir slitin óverulegar eignir eða hafði engan rekstur með höndum. Sameining eða skipting félaga verður að vera gerð í venjulegum og eðlilegum rekstrartilgangi. Hið yfirfærða tap verður að hafa myndast í sams konar rekstri og það félag sem við tekur eða þau félög sem við taka hafa með höndum.
 
(2) Við skiptingu eða sameiningu félaga er heimilt að miða uppgjör rekstrar og framtalsskil, sbr. 90. gr., félaga þeirra er skiptingin eða slitin varða við það tímamark þegar skiptingin eða slitin eiga sér stað samkvæmt samþykktum félaganna.

[(3) Ákvæði þessarar greinar gilda, eftir því sem við á, þegar yfirtökufélag skv. 2. mgr. 51. gr., við samruna yfir landamæri, er heimilisfast hér á landi enda hafi verið sýnt fram á að um raunverulega atvinnustarfsemi hafi verið að ræða í hinu yfirtekna félagi. Tap flyst ekki milli félaga nema sannað sé með fullnægjandi hætti að það hafi verið ónýtanlegt eða ekki nýtt áður.]1)

1)
Sbr. 7. gr. laga nr. 142/2013. 2)Sbr. 6. gr. laga nr. 124/2015.
 
Samsköttun félaga.
55. gr.
 
(1) [Ríkisskattstjóri]4) getur heimilað að tvö eða fleiri hlutafélög, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., séu skatt­lögð saman. [Sama gildir um fastar starfsstöðvar hlutafélaga og einkahlutafélaga í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr.]7) Skilyrði samsköttunar eru að eigi minna en 90% hlutafjár í dótturfélögum sé í eigu móðurfélagsins sem óskar samsköttunar eða annarra dótturfélaga sem einnig taka þátt í samsköttuninni. Jafnframt hafi öll hlutafélögin sama reikningsár og eignarhald hafi varað allt reikningsárið, nema þegar um nýstofnuð dótturfélög [eða fasta starfsstöð]7) er að ræða eða slit á dótturfélagi [eða lokun fastrar starfsstöðvar]7). Sam­sköttun skal að lágmarki standa í fimm ár og ef samsköttun er slitið er ekki heimilt að fallast á hana að nýju fyrr en að liðnum fimm árum frá því að henni var slitið. [Samsköttun skal þó falla niður með félagi sé það tekið til gjaldþrotameðferðar eða sæti slitameðferð, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002.]5)
 
(2) Umsókn um samsköttun skal beint til [ríkisskattstjóra]4) eigi síðar en þrjátíu dögum fyrir lok framtalsfrests vegna þess tekjuárs sem óskað er eftir að verði samskattað.
 
(3) Við samsköttun skal tekjuskattur af sameiginlegum tekjuskattsstofni [---]2) allra hluta­félaga sem taka þátt í samsköttuninni lagður á móðurfélagið en öll hlutafélögin bera sam­eiginlega ábyrgð á skattgreiðslum. Þó er [ríkisskattstjóra]4) heimilt að leggja tekjuskatt [---]2) á hvert og eitt félag óski hlutafélögin í samsköttun sérstaklega eftir því.
 
(4) Tap sem verður á rekstri eins eða fleiri samskattaðra hlutafélaga má draga frá tekjum hinna áður en tekjuskattur er reiknaður. Þó skal viðkomandi tekjuár ávallt gert upp áður en tekið er tillit til yfirfæranlegs taps fyrri ára. Yfirfæranlegt tap hlutafélags sem stafar af rekstri frá því fyrir samsköttun má aðeins nýta í því félagi. [---]3)
 
[(5) Tap í fastri starfsstöð skv. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. er aðeins frádráttarbært hjá íslensku félagi að ekki sé unnt að jafna tapið hjá erlendu félagi föstu starfsstöðvarinnar.]7)
 
(6) Nú er dótturfélag í eigu samvinnufélags [eða sparisjóðs]1) og gilda þá ákvæði þessarar greinar, enda sé skilyrðum hennar fullnægt.*1)
 
(7) [Ráðherra]6) er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um samsköttun móður- og dótturfélaga, svo sem um nýtingu taps á milli félaga.*1)
 
1)Sbr. 1. gr. laga nr. 77/2004. 2)Sbr. 7. gr. laga nr. 129/2004. 3)Sbr. 4. gr. laga nr. 164/20084)Sbr. 2. gr. laga nr. 136/2009. 5)Sbr. 8 .gr. laga nr. 165/2010. 6)Sbr. 377. laga nr. 126/2011. 7)Sbr. 1. gr. laga nr. 77/2018. *1)Númer málsgreina breyttist með 1. gr. laga nr. 77/2018.
  
Yfirfærsla einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag.a)
56. gr.
 
(1) Stofni einstaklingur í atvinnurekstri einkahlutafélag sem tekur við öllum eignum og skuldum atvinnurekstrarins og hefur með höndum samskonar rekstur eða starfsemi skal sú yfirfærsla ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigandann eða félagið, enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
  1. Eigandi rekstrarins skal bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, sbr. 1. gr. 

  2. Félagið er tekur við rekstrinum skal skráð hér á landi og bera ótakmarkaða skattskyldu, sbr. 2. gr.

  3. Við yfirfærsluna fær eigandi rekstrarins eingöngu hluti í félaginu sem gagngjald fyrir yfir­færðar eignir og skuldir rekstrarins.

  4. Tilkynningu til hlutafélagaskrár um stofnun félagsins skal auk þeirra upplýsinga sem krafist er samkvæmt lögum um einkahlutafélög*1) fylgja efnahagsreikningur einstaklings­rekstrarins sem jafnframt skal vera stofnefnahagsreikningur einkahluta­félagsins. Efnahagsreikninginn skal miða við 31. desember og má hann ekki vera eldri en fjögurra mánaða við stofnun einkahlutafélagsins og skal hann endurskoðaður af endurskoðanda og áritaður án fyrirvara. Jafnframt skal endurskoðandi staðfesta að hagur fyrirtækisins hafi ekki rýrnað vegna úttektar eiganda frá þeim tíma sem yfir­færslan skal miðuð við og fram að stofnun félagsins. Í skattalegu tilliti telst einkahluta­félagið yfirtaka rekstur og efnahag frá dagsetningu efnahagsreiknings. Stofnefnahags­reikningur ásamt yfirlýsingu um yfirfærslu einstaklingsrekstrar yfir í einkahlutafélag skal enn fremur fylgja fyrsta skattframtali félagsins. 

(2) Við yfirfærsluna skal félagið taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum rekstrarins, þar með töldum eftirstöðvum rekstrartapa frá fyrri árum, enda séu skilyrði 8. tölul. 31. gr. uppfyllt. Þó ber sá sem stundaði reksturinn ótakmarkaða ábyrgð á greiðslu þeirra opin­beru gjalda sem varða reksturinn fyrir yfirfærslu hans. Eignir og skuldir skulu yfirfærast á bókfærðu verði. Stofnverð gagngjalds hluta í einkahlutafélaginu, sbr. c-lið 1. mgr., ákvarðast jafnt bókfærðu eigin fé í efnahagsreikningi sem stofnefnahagsreikningur miðast við.

[(3) Þrátt fyrir ákvæði b- og d-liðar 1. mgr. gilda eftir atvikum almenn ákvæði 1. og 2. mgr. við þær aðstæður þegar einstaklingur í atvinnurekstri stofnar við yfirfærslu einstaklingsrekstrar einkahlutafélag sem er heimilisfast í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, enda séu skilyrði ákvæðisins uppfyllt að öðru leyti. Stofni einstaklingur í atvinnurekstri einkahlutafélag í lágskattaríki á ákvæði þetta ekki við nema sýnt sé fram á með fullnægjandi hætti að um raunverulega atvinnustarfsemi sé að ræða, sbr. 57. gr. a. Tilkynna skal yfirfærsluna til hlutafélagaskrár þess ríkis þar sem einkahlutafélagið er heimilisfast.

(4) Ákvæði 3.–9. mgr. 51. gr., um samruna yfir landamæri, skulu gilda með sama hætti um yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag yfir landamæri, m.a. um útreikninga, skýrsluskil, ákvörðun skatts, frestun, afborgun, bankatryggingu og upplýsingaskyldu, eftir því sem við á, þó þannig að óskipt ábyrgð á þeim sköttum sem eru lagðir á við yfirfærsluna hvílir á einstaklingnum og viðtökufélaginu.]1)
 
1)Sbr. 7. gr. laga nr. 124/2015. a)Sbr. reglugerð nr. 223/2003. *1)Sjá lög nr. 138/1994.
 
[56. gr. a
 
(1) Flytji hlutafélag lögheimili sitt eða eignir til annars aðildarríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða til Færeyja skal flutningurinn sem slíkur ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir félagið eða eigendur þess, sbr. þó 2. mgr., enda sé slíkt heimilt samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. Sé lögheimili hlutafélags eða eignir þess fluttar til lágskattaríkis á ákvæði þetta ekki við nema sýnt sé fram á með fullnægjandi hætti að um raunverulega atvinnustarfsemi sé að ræða, sbr. 57. gr. a.

(2) Ákvæði 3.–9. mgr. 51. gr., um samruna yfir landamæri, skulu gilda með sama hætti um flutning lögheimilis eða eigna yfir landamæri, m.a. um útreikninga, skýrsluskil, ákvörðun skatts, frestun, afborgun, bankatryggingu og upplýsingaskyldu, eftir því sem við á, þó þannig að við flutning eigna hvílir ábyrgð á þeim sköttum sem yrðu lagðir á við yfirfærsluna á því félagi sem lét eignir af hendi og er heimilisfast hér á landi.]1)

1)
Sbr. 8. gr. laga nr. 124/2015.
 
[Óvenjuleg skipti í fjármálum og milliverðlagning.]1)
57. gr.
 
(1) Ef skattaðilar semja um skipti sín í fjármálum á hátt sem er verulega frábrugðinn því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum skulu verðmæti, sem án slíkra samninga hefðu runnið til annars skattaðilans en gera það ekki vegna samningsins, teljast honum til tekna.
 
(2) Kaupi skattaðili eign á óeðlilega háu verði eða selji eign á óeðlilega lágu verði geta skatt­yfirvöld metið hvað telja skuli eðlilegt kaup- eða söluverð. Mismun kaupverðs eða söluverðs annars vegar og matsverðs hins vegar skal telja til skattskyldra tekna hjá þeim aðila sem slíkra viðskipta nýtur.

[(3) Ef verðlagning og/eða skilmálar í viðskiptum milli tengdra lögaðila [eða milli íslensks lögaðila og lögaðila í lágskattaríki]3) eru ekki sambærileg því sem almennt gerist í viðskiptum á milli ótengdra aðila skal meta og eftir atvikum leiðrétta verðlagninguna [---]2) og ákvarða skattstofn eða skattstofna að nýju eftir því hvort verð reynist of- eða vanmetið. Sama á við um verðlagningu í viðskiptum lögaðila við fastar starfsstöðvar sínar. Með viðskiptum er átt við almenn kaup og sölu á vörum og þjónustu, efnislegum og óefnislegum eignum og hvers kyns fjármálagerninga.

(4) Lögaðilar teljast tengdir í skilningi 3. mgr. þegar: 
  1. þeir eru hluti samstæðu skv. 2. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, eða eru undir beinu og/eða óbeinu meirihlutaeignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum tveggja eða fleiri lögaðila innan samstæðu, eða
  2. meirihlutaeignarhald eins lögaðila yfir öðrum er til staðar samanlagt með beinum og óbeinum hætti, eða
  3. þeir eru beint eða óbeint í meirihlutaeigu eða undir stjórnunarlegum yfirráðum einstaklinga sem eru tengdir sifjaréttarlegum böndum, t.d. einstaklinga í hjónabandi eða staðfestri samvist, systkina og einstaklinga sem eru skyldir í beinan legg. [---]2)
(5) Ef rekstrartekjur lögaðila á einu reikningsári eða heildareignir í upphafi eða við lok reikningsárs eru yfir 1 milljarði kr. er hann skjölunarskyldur frá og með næsta reikningsári vegna viðskipta við tengda lögaðila, sbr. 4. mgr. Með skjölunarskyldu er átt við að lögaðili skrái upplýsingar um eðli og umfang viðskipta við tengda lögaðila, eðli tengsla og grundvöll ákvörðunar milliverðs. [Skjölunarskyldur aðili skal varðveita sérstaklega gögn um slík viðskipti, upplýsingar um viðskiptaskilmála, veltu, eignir og annað sem þýðingu kann að hafa við milliverðlagninguna og sýna fram á að verð og skilmálar séu sambærileg því sem almennt gerist í viðskiptum milli ótengdra aðila undir sambærilegum kringumstæðum. Skjölunarskylda gildir ekki um viðskipti milli tengdra lögaðila þegar allir aðilar eru heimilisfastir hér á landi.]2) Gagna og upplýsinga skal gæta í sjö ár frá lokum reikningsárs. Lögaðili skal staðfesta skjölunarskyldu við framtalsskil og að fullnægjandi skjölun hafi átt sér stað. Lögaðili skal bregðast við beiðni skattyfirvalda um aðgang að skjölunarskyldum gögnum eigi síðar en 45 dögum eftir að beiðnin kom fram.

(6) Ráðherra setur með reglugerða) nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar, meðal annars um kröfur varðandi skjölun á ákvörðun milliverðlagningar.]1)

1)Sbr. 8. gr. laga nr. 142/2013. 2)Sbr. 3. gr. laga nr. 33/2015. 3)Sbr. 2. gr. laga nr. 112/2016a)Reglugerð nr. 1180/2014.

 
[Skattlagning vegna [---]3) eignarhalds á lágskattasvæðum.
57. gr. a
 
(1) Skattaðili sem á beint eða óbeint hlut í hvers kyns félagi, sjóði eða stofnun sem telst heimilisföst í lágskattaríki skal greiða tekjuskatt af hagnaði slíkra aðila í hlutfalli við eignarhluta sinn án tillits til úthlutunar. Hið sama á við um skattaðila sem stjórnar félagi, sjóði, stofnun eða eignasafni í lágskattaríki sem skattaðili hefur beinan eða óbeinan ávinning af. Tekjur þessar eru skattskyldar með sambærilegum hætti og um væri að ræða starfsemi hér á landi.
 
(2) Ríki eða lögsagnarumdæmi telst lágskattaríki þegar tekjuskattur af hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar, sem um ræðir, er lægri en tveir þriðju hlutar af þeim tekjuskatti sem hefði verið lagður á félagið, sjóðinn eða stofnunina hefði hún verið heimilisföst á Íslandi.
 
(3) Ákvæði 1. mgr. á við þegar minnst helmingur eignarhalds í aðilum, sbr. 1. mgr., er beint eða óbeint í eigu íslenskra skattaðila eða stjórnunarleg yfirráð hafa verið til staðar innan tekjuárs.  
 
(4) Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef:
  1. félag, sjóður eða stofnun fellur undir samning milli Íslands og lágskattaríkis til að koma í veg fyrir tvísköttun [eða annan alþjóðasamning]2) enda sé unnt á grundvelli samningsins að fá allar nauðsynlegar upplýsingar og tekjur félags, sjóðs eða stofnunar eru ekki að meginstofni til eignatekjur; eða

  2. félag, sjóður eða stofnun er stofnsett og skráð í öðru EES-ríki, [aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum]2) og hefur þar með höndum raunverulega atvinnustarfsemi, og íslensk skattyfirvöld geta á grundvelli tvísköttunarsamnings eða annars alþjóðasamnings krafist allra nauðsynlegra upplýsinga, sbr. 1. tölul. Þar sem ekki er fyrir hendi samningur, sbr. 1. málsl., hvílir upplýsingaskyldan á skattaðilanum. 

(5)  Tekjur skattaðila með beina eignaraðild miðast við samsvarandi hlutdeild í hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar eins og hagnaður yrði ákveðinn hér á landi ef aðilinn væri íslenskur skattaðili. Sé um óbeina eignaraðild að ræða skal miða við sameiginlegt eignarhald á þeirri starfsemi sem skattlagningin tekur til. Tap [færist eingöngu á móti hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar og]3) er því aðeins frádráttarbært skv. 8. tölul. 31. gr. að skattaðili geti, að ósk skattyfirvalda, lagt fram fullnægjandi gögn er liggja að baki útreikningi á tapi.

(6)  Hafi félag, stofnun eða sjóður úthlutað hagnaði til skattaðila, sem skattlagður hefur verið skv. 1. mgr., skal úthlutnin ekki talin til skattskyldra tekna hjá honum nema hún sé hærri en þær tekjur sem skattlagðar eru skv. 5. mgr.

(7)  [Ráðherra skal með reglugerða) setja ákvæði um nánari framkvæmd þessarar greinar og meðal annars skilgreina hvað felst í hugtakinu raunveruleg atvinnustarfsemi o.fl.]3)]1)

1)Sbr. 2. gr. laga nr. 46/2009. 2)Sbr. 9. gr. laga nr. 128/20093)Sbr. 1. gr. laga nr. 45/2013. a)Reglugerð nr. 1102/2013.


[Takmörkun á frádrætti vaxtagjalda..
57. gr. b
 

(1)   Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 31. gr. takmarkast frádráttur vaxtagjalda og affalla, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 49. gr., skattaðila skv. 2. gr. vegna lánaviðskipta við tengda aðila skv. 4. mgr. 57. gr. við 30% af hagnaði skattaðilans. Þau vaxtagjöld og afföll sem umfram eru koma ekki til frádráttar.

(2)   Með hagnaði í 1. mgr. er átt við hagnað samkvæmt ársreikningi að viðbættum tekjuskatti, fjármagnsliðum, afskriftum og niðurfærslum fastafjármuna. Hafi skattaðili fært í rekstrarreikning hlutdeildartekjur frá öðru félagi innan samstæðunnar skal draga þær frá framangreindum hagnaði og bæta við úthlutuðum arði frá sama félagi hafi arðgreiðsla átt sér stað.

(3)   Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef:

  1. vaxtagjöld og afföll skattaðila, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 49. gr., vegna lánaviðskipta við tengda aðila skv. 4. mgr. 57. gr. eru lægri en 100 millj. kr.,
  2. lánveitandi ber ótakmarkaða skattskyldu hérlendis,
  3. skattaðili sýnir fram á að eiginfjárhlutfall hans sé eigi lægra en tveimur prósentustigum undir eiginfjárhlutfalli samstæðu sem hann tilheyrir; undanþágan gildir þó ekki ef eigið fé skattaðila var hækkað innan við sex mánuðum fyrir dagsetningu efnahagsreiknings og lækkað aftur að samsvarandi fjárhæð innan við sex mánuðum eftir dagsetningu efnahagsreiknings; hafi skattaðili bókfært eignarhlut í öðru fyrirtæki samstæðunnar samkvæmt hlutdeildaraðferð ber við útreikning á eiginfjárhlutfalli að miða við kostnaðarverð eignarhlutans, eða
  4. skattaðili er fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, vátryggingafélag sam­kvæmt lögum um vátryggingastarfsemi eða félag í eigu fyrrgreindra aðila sem starfar í sambærilegum rekstri.

(4)   Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem kveðið er á um nánari skilyrði um framkvæmd þessarar greinar og skilgreiningar hugtaka.]1)

1)Sbr. 3. gr. laga nr. 112/2016.


 
Ákvörðun launa við eigin atvinnurekstur.
58. gr.
 
(1)  Endurgjald fyrir vinnu manns, sem reikna skal sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr., skal eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Sama gildir um endurgjald fyrir starf maka manns, barns hans innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, venslamanns hans eða nákomins ættingja. [Ríkisskattstjóri setur árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald og birtir þær að fenginni staðfestingu [ráðherra].4) Við ákvörðun lágmarksendurgjalds skal höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf að viðbættum hvers konar hlunnindum og skiptir ekki máli hvernig þau eru greidd eða í hvaða formi þau eru. Ákvörðun reiknaðs endurgjalds samkvæmt þessari málsgrein er óháð ákvörðun launa skv. 11. gr.]1)
 
(2) Færi maður sér til tekna á framtali lægra endurgjald en áskilið er í reglum [ríkisskattstjóra]1), sbr. 1. mgr., skal [ríkisskattstjóri]2) hækka endurgjaldið, óháð ákvörðun á staðgreiðsluári, enda hafi framteljandi ekki lagt fram fullnægjandi gögn og rökstuðning með skattframtali sem honum ber að gera ótilkvaddur. [Ríkisskattstjóra]2) er heimilt að fallast á lægra endurgjald en viðmiðunarreglur [þessar]1) kveða á um, enda liggi fyrir viðhlítandi gögn og rök­stuðningur framteljanda og eftir atvikum launagreiðanda sem réttlætt getur slíka ákvörðun. Framteljandi skal m.a. láta í té upplýsingar um umfang og eðli starfs og starfsemi, afkomu rekstrarins, fjármagn bundið í rekstri og upplýsingar um útselda vinnu eftir því sem það á við.
 
(3) Ákvörðun [ríkisskattstjóra]2) um hækkun á reiknuðu endurgjaldi manns með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi má ekki mynda tap umfram það sem nemur samanlögðum almennum fyrningum skv. 37. gr. [Ríkisskattstjóri]2) skal við ákvörðun reiknaðs endurgjalds elli- og örorku­lífeyrisþega við eigin atvinnurekstur gæta þess að tap myndist ekki við það í rekstrinum.
 
(4) [Ákvæði 1. og 2. mgr. skulu gilda um starf á vegum lögaðila eftir því sem við getur átt, enda vinni maður við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann, maki hans, barn eða nákomnir ættingjar hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, þó ekki ef um er að ræða starf á vegum lögaðila sem skráður er á opinberum verðbréfamarkaði. [Maður telst hafa ráðandi stöðu í þessu sambandi ef hann einn eða ásamt maka, börnum, foreldrum, systkinum eða öðrum nákomnum ættingjum eða starfandi hluthöfum á samtals 50% hlut eða meira í lögaðila enda eigi hver um sig a.m.k. 5% hlut í þeim lögaðila.]5).]3)
 
(5) Telji skattyfirvöld að endurgjald fyrir starf maka manns eða barns hans innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr., sé hærra en makinn eða barnið hefði aflað hjá óskyldum eða ótengdum aðila skulu þau ákvarða tekjur makans eða barnsins af starfinu.
 
1)Sbr. 10. gr. laga nr. 128/2009.  2)Sbr. 3. gr. laga nr. 136/2009. 3)Sbr. 3. gr. laga nr. 73/2011. 4)Sbr. 377. gr. laga nr. 126/20115)Sbr. 9. gr. laga nr. 142/2013.
 
 
[Útleiga manna á íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði og öðru húsnæði.
58. gr. a

(1) Tekjur manna af útleigu íbúðarhúsnæðis, frístundahúsnæðis eða annars húsnæðis, m.a. þar sem gisting er boðin gegn endurgjaldi, skulu teljast stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi nema:

  1. Tekjurnar stafi af útleigu íbúðarhúsnæðis sem fellur undir húsaleigulög, enda séu hinar útleigðu sérgreindu fasteignir ekki fleiri en tvær. Frá tekjum manns af útleigu íbúðarhúsnæðis, sem fellur undir húsaleigulög, er heimilt að draga leigugjald sem hann greiðir af íbúðarhúsnæði til eigin nota. Frádráttur þessi leyfist eingöngu á móti leigutekjum af íbúðarhúsnæði sem ætlað er til eigin nota en er í útleigu.
  2. Útleigan teljist heimagisting samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, hún hafi verið tilkynnt sýslumanni og fengið skráningarnúmer. Þá skal heildarfjárhæð leigutekna viðkomandi af heimagistingu á tekjuárinu aldrei nema hærri fjárhæð en 2.000.000 kr. Sé húsnæðið í útleigu tveggja eða fleiri manna skal við afmörkun heildarfjárhæðarinnar telja tekjur þeirra allra hjá hverjum og einum.

(2) Tekjur af starfsemi sem fellur undir b-lið 1. mgr. skulu skattlagðar samkvæmt ákvæði 1. málsl. 3. mgr. 66. gr. án frádráttar. Nemi heildarfjárhæð leigutekna skv. b-lið 1. mgr. hærri fjárhæð en 2.000.000 kr. eða ef sýslumaður fellir niður skráningu heimagistingar falla allar leigutekjurnar á tekjuárinu undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.]1) *1)

1)Sbr. 4. gr. laga nr. 59/2017. *1)Ákvæði 4. gr. öðlaðist gildi 1. janúar 2017 og kom til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2018 nema a. liður 1. mgr. sem öðlast gildi 1. janúar 2018 og kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2019.

Tekjutímabil.
59. gr.
 
(1) [Tekjuskatt skal miða við tekjur næsta almanaksár á undan skattákvörðun, nema annað sé venjulegt rekstrarár í atvinnugrein aðila eða hann sýnir, þegar hann telur fram, að hann hafi annað reikningsár. Getur ríkisskattstjóri þá veitt honum heimild til að hafa það reikningsár í stað almanaksársins.]1) [Ákvörðun ríkisskattstjóra um synjun má skjóta til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd.]2)

(2) Tekjur skal að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.
 
1)Sbr. 4. gr. laga nr. 136/2009. 2)Sbr. 9 .gr. laga nr. 165/2010.
 
60. gr.
 
[Ríkisskattstjóri getur heimilað þeim sem hafa mjög breytilegar tekjur milli ára af framleiðslu og sölu eigin verka, svo sem listaverka, að telja þær tekjur til skattskyldra tekna á fleiri en einu ári, þó að hámarki fjórum árum. Einnig er ríkisskattstjóra heimilt að leyfa sams konar dreifingu á skattlagningu björgunarlauna sem áhafnir skipa, annarra en björgunarskipa, hljóta.]1)
 
1)Sbr. 11. gr. laga nr. 128/2009.
Fara efst á síðuna ⇑