Skattalagasafn ríkisskattstjóra 20.4.2024 04:42:04

Lög nr. 37/1993, kafli 5 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=37.1993.5)
Ξ Valmynd

V. KAFLI
Birting ákvörðunar, rökstuðningur o.fl.

20. gr.
Birting ákvörðunar og leiðbeiningar.

(1) Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skal hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Ákvörðun er bindandi eftir að hún er komin til aðila.

(2) Þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skal veita leiðbeiningar um:

  1. heimild aðila til þess að fá ákvörðun rökstudda,
     
  2. kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufresti og kærugjöld, svo og hvert beina skuli kæru,
     
  3. frest til þess að bera ákvörðun undir dómstóla ef slíkur frestur er lögákveðinn. 

(3) Fylgi rökstuðningur ákvörðun þegar hún er tilkynnt skal veita leiðbeiningar skv. 2. og 3. tölul. 2. mgr.*1)

(4) Ekki þarf þó að veita leiðbeiningar skv. 2. og 3. mgr. þegar ákvörðun er tilkynnt hafi umsókn aðila verið tekin til greina að öllu leyti.

*1)Í Stjtíð. A 1993 bls. 183 stendur málsliðurinn „Fylgi rökstuðningur ákvörðun þegar hún er tilkynnt skal veita leiðbeiningar skv. 2. og 3. tölul. 2. mgr.“ sem síðari málsliður 3. tölul. 2. mgr. 20. gr. Ef tekið er mið af tilvísunum í málsliðnum í 2. og 3. tölul. 2. mgr. og tilvísunum í 2. og 3. mgr. í lokamálsgrein greinarinnar, sem og af athugasemdum við 20. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 37/1993 (Alþtíð. 1992–93 A, bls. 3301) er augljóst að málsliðurinn á með réttu að vera 3. mgr. greinarinnar.

21. gr.
Hvenær veita skal rökstuðning.

(1) Aðili máls getur krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt.

(2) Ákvæði 1. mgr. gildir þó ekki ef:

  1. umsókn aðila hefur verið tekin til greina að öllu leyti,
     
  2. um er að ræða einkunnir sem veittar eru fyrir frammistöðu á prófum,
     
  3. um er að ræða styrki á sviði lista, menningar eða vísinda.

(3) Beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun skal bera fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt ákvörðunin og skal stjórnvald svara henni innan 14 daga frá því að hún barst.

(4) Úrskurðum í kærumálum skal ávallt fylgja rökstuðningur.

22. gr.
Efni rökstuðnings.

(1) Í rökstuðningi skal vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.

(2) Þar sem ástæða er til skal í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

(3) Takmarka má efni rökstuðnings að því leyti sem vísa þarf til gagna sem aðila máls er ekki heimill aðgangur að, sbr. 16. og 17. gr.

(4) Hafi stjórnsýslunefnd ekki samþykkt rökstuðning með ákvörðun sinni skal formaður færa rök fyrir henni í samræmi við 1.–3. mgr.
 

Fara efst á síðuna ⇑