Skattalagasafn ríkisskattstjóra 23.4.2024 07:28:46

Lög nr. 3/2006, kafli 4 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=3.2006.4)
Ξ Valmynd

IV. KAFLI

Matsreglur.
29. gr.

(1) Fastafjármuni skal eigi meta til eignar við hærra verði en kostnaðarverði, sbr. þó ákvæði 31., 36., 39. og 40. gr.

(2) Kostnaðarverð varanlegra rekstrarfjármuna samanstendur af kaupverði þeirra og þeim kostnaði sem hlýst af öflun og endurbótum á þeim fram til þess tíma að þeir eru teknir í notkun.

(3) Framleiðslukostnaðarverð varanlegra rekstrarfjármuna samanstendur af kostnaðarverði hráefnis og hjálparefna, svo og vinnuafls að viðbættum kostnaðarauka sem beint eða óbeint leiðir af framleiðslu fjármunanna.

(4) Til kostnaðarverðs má enn fremur telja fjármagnskostnað af lánsfé sem nýtt er til að fjármagna kaup eða framleiðslu varanlegra rekstrarfjármuna á framleiðslutímanum. Ef fjármagnskostnaður er talinn til kostnaðarverðs skal greint frá því í skýringum.

(5) [Fjármögnunarleigusamningar]1) skulu í samræmi við samningsákvæði og settar reikningsskilareglur færðir í efnahagsreikning ef þeir nema verulegum fjárhæðum.

1)Sbr. 19. gr. laga nr. 73/2016.
 

30. gr.

(1) Ef markaðsverð varanlegra rekstrarfjármuna og óefnislegra eigna er lægra en bókfært verð þeirra skv. 23. eða 29. gr. og ástæður þess verða ekki taldar skammvinnar ber að færa verð þeirra niður að því marki sem telja verður nauðsynlegt samkvæmt settum reikningsskilareglum.

(2) Áhættufjármunir og langtímakröfur skulu sæta niðurfærslu ef markaðsverð þessara eigna er lægra en bókfært verð, svo sem vegna hættu á að kröfur muni ekki innheimtast eða af öðrum ástæðum.

(3) Ef eignir hafa verið færðar niður skv. 1. eða 2. mgr. og ástæður verðlækkunarinnar eiga ekki lengur við ber að færa bókfært verð þeirra til fyrra horfs. [Hafi viðskiptavild sætt niðurfærslu, sbr. 1. mgr., er ekki heimilt að færa bókfært verð viðskiptavildar til fyrra horfs.]1)

(4) Matsbreytingar skv. 1.–3. mgr. skal færa í rekstrarreikning.  [Gera skal grein fyrir þeim í skýringum.]1)

1)Sbr. 20. gr. laga nr. 73/2016.

31. gr.

(1) [Heimilt er að færa varanlega rekstrarfjármuni á gangvirði. Séu varanlegir rekstrarfjármunir endurmetnir skal endurmat fara fram árlega.]1)

(2) Matsbreytingar skv. 1. mgr. skal færa á sérstakan endurmatsreikning meðal eigin fjár.

(3) Endurmatsreikning, sem myndaður er skv. 2. mgr., skal leysa upp til jafns við fjárhæð árlegrar afskriftar af mismun á endurmetnu verði og kostnaðarverði. Einnig skal leysa upp endurmatsreikning ef hin endurmetna eign er seld, tekin úr notkun eða fullafskrifuð, svo og ef forsendur fyrir endurmatinu eru ekki lengur fyrir hendi.

(4) [Hagnað eða tap sem myndast þegar eign skv. 1. mgr. er seld eða tekin úr notkun eða forsendur fyrir endurmatinu eru ekki lengur fyrir hendi skal færa í rekstrarreikning. ]1)

(5) [Óheimilt er að úthluta arði úr endurmatsreikningi.]1)

1)Sbr. 21. gr. laga nr. 73/2016.

32. gr.

(1) Veltufjármuni skal ekki færa til eignar við hærra verði en kostnaðarverði eða [gangvirði]1) ef það er lægra.

(2) Kostnaðarverð veltufjármuna samanstendur af kaupverði og þeim kostnaði sem tengist beint öflun þeirra. Til kostnaðarverðs má enn fremur telja eðlilegt hlutfall af útgjöldum sem tengjast öfluninni óbeint, enda hafi útgjöldin fallið til á sama tímabili og eignanna var aflað eða þær voru framleiddar.

1)Sbr. 22. gr. laga nr. 73/2016.

33. gr.

(1) Birgðir skal meta á kostnaðarverði eða dagverði, hvort sem lægra reynist.

(2) Ef birgðir eru metnar við dagverði og það er verulega lægra en kostnaðarverð skal gera grein fyrir því í skýringum.

(3) Kostnaðarverð birgða tekur til alls kostnaðar við kaup á birgðum eða áfallins kostnaðar við framleiðslu þeirra, sbr. 3. mgr. 29. gr. Auk þess telst til kostnaðarverðs birgða allur kostnaður við að koma þeim á núverandi stað og í það ástand sem þær eru. Dreifingarkostnað má ekki telja til kostnaðarverðs birgða.

34. gr.

     Við umreikning á liðum í efnahagsreikningi, sem byggjast á erlendum gjaldmiðli, skal miðað við lokagengi reikningsskiladagsins þegar um er að ræða peningalegar eignir og skuldir. Í öðrum liðum efnahagsreiknings skal miðað við lokagengi viðskiptadagsins.

35. gr.

     Skammtímakröfur skulu sæta niðurfærslu ef [virði]1) þeirra er lægra en bókfært verð, svo sem vegna hættu á að kröfur muni ekki innheimtast eða af öðrum ástæðum. Ákvæði 3. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. 30. gr. gilda um þetta eftir því sem við á.

1)Sbr. 23. gr. laga nr. 73/2016

36. gr.

(1) [Heimilt er að meta fjármálagerninga til gangvirðis og skal flokka þá annaðhvort sem fjáreign á gangvirði í gegnum rekstrarreikning eða sem fjáreign til sölu. ]1) […]1) Einnig má meta eignir og skuldbindingar, sem þeim tengjast, á gangvirði þegar þessar eignir og skuldbindingar uppfylla kröfur um áhættuvörn í skilningi settra reikningsskilareglna og skulu slíkar eignir og skuldbindingar metnar til gangvirðis eins og krafist er í þeim reikningsskilum.

(2) [Ákvæði 1. mgr.]1)  nær þó ekki til:

  1. útlána og viðskiptakrafna viðkomandi félags sem ekki er fyrirhugað að versla með,
  2. fjármálagerninga, annarra en afleiðusamninga, sem ætlunin er að eiga fram að gjalddaga,
  3. eignarhluta í dótturfélögum,
  4. eignarhluta í hlutdeildarfélögum,
  5. eignarhluta í samrekstrarfélögum, sbr. 3. mgr. 40. gr.,
  6. eigin eignarhluta, skilyrts viðbótarverðs við sameiningu fyrirtækja, sem og annarra fjármálagerninga sem tengjast eigin fé viðkomandi félags,
  7. allra annarra fjármálagerninga sem ekki er viðeigandi að færa á gangvirði samkvæmt settum reikningsskilareglum. 

(3)  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu afleiðusamningar metnir á [gangvirði].1)

1)Sbr. 24. gr. laga nr. 73/2016.

 

37. gr.

(1) Mat á fjármálagerningum og skuldbindingum til gangvirðis skv. 36. gr. skal vera í samræmi við settar reikningsskilareglur. Einungis er heimilt að beita slíku mati ef það byggist á áreiðanlegum upplýsingum um gangvirði.

(2) Gangvirði skal ákvarðað með tilliti til:

  1. markaðsverðs þeirra fjármálagerninga sem eru á virkum markaði,
  2. markaðsverðs undirliggjandi þátta í viðkomandi fjármálagerningi ef viðkomandi fjármálagerningur er ekki skráður á markaði,
  3. virðis sem reiknað er út með almennum viðurkenndum matslíkönum eða matsaðferðum fyrir þær eignir sem ekki eru á markaði; slík matslíkön og matsaðferðir skulu gefa góða mynd af markaðsverði.

(3) Ef ekki er hægt að meta þessar eignir eða skuldbindingar til gangvirðis samkvæmt framangreindum aðferðum skal matið byggjast á kostnaðarverði skv. 29. gr.

38. gr.

(1) [Í rekstrarreikning skal færa þær breytingar á virði fjármálagerninga og skuldbindinga sem metnar eru í samræmi við 37. gr. Færa skal sömu fjárhæð vegna matsbreytingar á fjáreignum tilgreindum á gangvirði við upphaflega skráningu af óráðstöfuðu eigin fé á gangvirðisreikning á meðal eigin fjár sem óheimilt er að úthluta arði af að teknu tilliti til skattáhrifa eftir því sem við á.]1)  

(2) Slík breyting skal þó færð beint á gangvirðisreikning sem færður er með eigin fé þegar:

  1. í reikningsskilum afleiðusamnings er byggt á að um sé að ræða áhættuvörn í skilningi settra reikningsskilareglna, að því marki sem þær leyfa að [matsbreyting]1 sé ekki tekin með í rekstrarreikningi eða
  2. um er að ræða [matsbreytingu fjáreignar til sölu] 1) eða
  3. [matsbreytingar]1 tengjast gengismun sem verður á peningalegum liðum sem eru hluti af nettófjárfestingu félagsins í starfsemi erlendis.

(3) Samræmi skal vera í færslu [matsbreytinga] 1) á virði fjármálagerninga og skuldbindinga skv. 1. eða 2. mgr. frá einu ári til annars.

(4) Leysa skal gangvirðisreikning upp til jafns við framkomnar breytingar á viðkomandi eign eða skuldbindingu þegar hún er seld eða innleyst eða forsendur fyrir [matsbreytingu] 1) eru ekki fyrir hendi.

1)Sbr. 25. gr. laga nr. 73/2016

39. gr.

(1) Félög, sem eru með starfsemi á sviði fjárfestinga í [fjárfestingarfasteignum] 1), mega meta eignir og skuldbindingar, sem þeim tengjast innan þessarar starfsemi, til gangvirðis. […]1)

(2) Ákvæði 1. mgr. tekur til fjárfestinga í [fjárfestingarfasteignum]1 eða hluta þeirra, svo sem fasteigna og annarra efnislegra eigna ásamt skuldbindingum þeim tengdum.

(3) Félög, sem stunda eldi á lifandi dýrum eða rækta plöntur, í þeim tilgangi að selja þau eða afurðir þeirra, með úrvinnslu eða framleiðslu í huga, mega meta þær eignir á gangvirði.

(4) Við mat á eignum og skuldbindingum þeim tengdum, sbr. 1.–3. mgr., skulu ákvæði 37. gr. gilda.

(5) Breyting á virði eigna og skuldbindinga, sem tengjast þeim, sbr. 2. og 3. mgr., skal færð á rekstrarreikning.

1)Sbr. 26. gr. laga nr. 73/2016.

Tengd félög.
40. gr.

(1) Móðurfélag skal færa eignarhlut sinn í dótturfélagi til eignar samkvæmt hlutdeildaraðferð í samræmi við hlutdeild sína í eigin fé dótturfélagsins. Þó er heimilt að styðjast við kostnaðarverð þegar heimilt er að halda dótturfélögum utan samstæðureiknings, sbr. ákvæði 70. gr. Mismunur á upphaflegu kaupverði eignarhlutans annars vegar og hlutdeildar í eigin fé dótturfélagsins á kaupdegi hins vegar skal enn fremur hafa áhrif á bókfært verð fjárfestingar í dótturfélaginu.

(2) Einnig skal beita hlutdeildaraðferð við eignfærslu á eignarhlutum í hlutdeildarfélögum. Þó er heimilt að styðjast við kostnaðarverð að uppfylltum skilyrðum 70. gr.

(3) Nú rekur félag starfsemi í sameign með einu eða fleiri félögum og skal þá beita hlutdeildaraðferð vegna samrekstrarins, sbr. þó 70. gr.

41. gr.

(1) Þegar hlutdeildaraðferð er beitt skal taka tillit til rekstrarárangurs og annarra breytinga á eigin fé dóttur- eða hlutdeildarfélagsins. Hlutdeild þess í rekstrarárangri skal færa til tekna eða gjalda sem áhrif dóttur- og hlutdeildarfélaga í rekstrarreikningi. [Hlutdeild í bundnum eiginfjárreikningum hjá dóttur- eða hlutdeildarfélögum skal færa á samsvarandi bundna eiginfjárreikninga félagsins.] 1)

(2) Hafi félag greitt meira fyrir fjárfestingu sína í dóttur- eða hlutdeildarfélagi en sem nemur hlutdeild í hreinni eign þess við kaup ber að heimfæra mismuninn undir tilgreindar eignir ef það er unnt, ella telst hann viðskiptavild. Mismun þennan ber að afskrifa með sama hætti og þær eignir. [Ef mismunurinn telst viðskiptavild skal hún afskrifuð með kerfisbundnum hætti á 10 árum, sbr. 24. gr.]1) Gjaldfærsla á framangreindum mismun skal færð sem áhrif dóttur- eða hlutdeildarfélags í rekstrarreikningi. Hafi félag hins vegar greitt minna fyrir fjárfestingu sína í dóttur- eða hlutdeildarfélagi en sem nemur hlutdeild í hreinni eign þess við kaup ber að heimfæra mismuninn á sama hátt og að framan greinir en með öfugum formerkjum.

(3) Móttekinn arður vegna eignarhluta í félagi, sem meðhöndlað er samkvæmt hlutdeildaraðferð, skal færður til lækkunar á eignarhluta í því.

(4) Taka skal tillit til hagnaðar af viðskiptum milli félaga innan sömu samstæðu, sem ekki hefur verið innleystur með sölu til aðila utan samstæðunnar, við mat á verðmæti eignarhluta í dótturfélagi.

[(5) Nemi hlutdeild sem færð er í rekstrarreikningi hærri fjárhæð en sem nemur mótteknum arði eða þeim arði sem ákveðið hefur verið að úthluta skal mismunurinn færður á bundinn hlutdeildarreikning á meðal eigin fjár. Sé hlutdeild félagsins í dóttur- eða hlutdeildarfélagi seld eða afskrifuð skal leysa hlutdeildarreikning upp og færa breytinguna á óráðstafað eigið fé eða ójafnað tap eftir atvikum.]1)

1)Sbr. 27. gr. laga nr. 73/2016.

[…]1)
42. gr.

[…]1)
 

1)Sbr. 28. gr. laga nr. 73/2016.


 

Fara efst á síðuna ⇑