Skattalagasafn ríkisskattstjóra 20.4.2024 08:15:11

Lög nr. 162/2002, kafli 1 (slóð: www.skattalagasafn.is?log=162.2002.1)
Ξ Valmynd

I. KAFLI
Markmið og skilgreiningar.

1. gr.
Markmið.

Markmið laga þessara er að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurnýtingu úrgangs í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og tryggja viðeigandi förgun spilliefna.

2. gr.
Skilgreiningar.

Í lögum þessum er merking orða og orðasambanda sem hér segir:

  1. Endurnotkun: endurtekin notkun úrgangs í óbreyttri mynd.

  2. Endurnýting: hvers konar nýting úrgangs, önnur en endurnotkun, þ.m.t. endurvinnsla og orkuvinnsla.

  3. Endurnýtingarstöð: staður og aðstaða þar sem endurnýting úrgangs fer fram.

  4. Förgun úrgangs: aðgerð eða ferli þegar úrgangi er umbreytt og/eða komið fyrir varanlega, svo sem urðun og sorpbrennsla.

  5. Móttökustöð: staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til geymslu til lengri eða skemmri tíma, til umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Þaðan fer úrgangurinn til förgunar, endurnýtingar, endurnotkunar eða honum er fargað á staðnum. Undir móttökustöð falla flokkunarmiðstöðvar og förgunarstaðir.

  6. Söfnunarstöð (gámastöð): staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar og endurnýtingar eða er fluttur til móttökustöðva.

  7. [Umbúðir: allar vörur af hvaða tegund sem er og úr hvaða efni sem er, sem eru notaðar við pökkun, verndun, meðhöndlun og afhendingu framleiðsluvöru, hvort sem þar er um að ræða hráefni eða fullunna vöru, til notanda eða neytanda. Nánar tiltekið eru umbúðir:

    1. söluumbúðir eða grunnumbúðir, þ.e. umbúðir sem eru þannig gerðar að á sölustað mynda þær sölueiningu fyrir notanda eða neytanda,

    2. safnumbúðir, þ.e. umbúðir sem eru þannig gerðar að á sölustað mynda þær safn tiltekins fjölda sölueininga, hvort sem þær eru seldar sem slíkar til notanda eða neytanda eða aðeins notaðar til að fylla í hillur á sölustað; hægt er að taka þær utan af vörunni án þess að það hafi áhrif á eiginleika hennar,

    3. flutningsumbúðir, þ.e. umbúðir þannig gerðar að þær auðvelda meðhöndlun og flutning nokkurra sölueininga eða safnumbúða til að koma í veg fyrir tjón við meðhöndlun og flutning; gámar til vöruflutninga á landleiðum, með skipum og flugvélum eru ekki taldir til flutningsumbúða.]1) *1)

  8. Úrgangur: hvers kyns efni eða hlutir sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt og falla undir lög þessi.

  9. Úrvinnsla úrgangs: söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun úrgangs.

1)Sbr. 1. gr. laga nr. 128/2004. *1)Svo birt í Stjórnartíðindum. Þar er tiltekið að nýi töluliðurinn skuli vera nr. 7 án þess að fram sé tekið að merking tölul. nr. 7 og 8 (fyrir breytingu) skuli breytast.

Fara efst á síðuna ⇑