Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.10.2024 20:50:46

nr. 834/2003, kafli 6 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=834.2003.6)
Ξ Valmynd

VI. KAFLI
Sérstök ákvæði um einstaka liði í rekstrarreikningnum.

34. gr

Rekstrarliður 1. „Vaxtatekjur o.fl.“.
(1) Á þennan rekstrarlið skal færa:

- vaxtatekjur,
- þóknunartekjur sem svipar til vaxta og eru tíma- eða fjárhæðartengdar kröfunni,
- afföll af verðbréfum og skuldbindingum sem eru ekki færð á markaðsvirði og skal þeim dreift miðað við upphaflega ávöxtunarkröfu, og
- verðbætur á eignaliði.

(2) Á rekstrarlið 1.1, „Vaxtatekjur af kröfum á lánastofnanir o.fl.“, skal færa vaxtatekjur, verðbætur og tíma- eða fjárhæðartengda þóknun af óbundnum innstæðum í seðlabanka og póstgíró (póstbönkum) í þeim löndum þar sem stofnunin hefur starfsemi, svo og sambærilegar tekjur af eignalið 2, „Ríkisvíxlar og aðrir víxlar endurseljanlegir í seðlabanka“, og eignalið 3, „Kröfur á lánastofnanir o.fl.“. Vextir og sambærilegar tekjur af kröfum á verðbréfafyrirtæki og önnur fyrirtæki tengd fjármálasviði en lánastofnanir, skal ekki færa hér.

(3) Á rekstrarlið 1.2, „Vaxtatekjur af útlánum o.fl.“, skal færa vaxtatekjur, verðbætur og tíma- eða fjárhæðartengda þóknun af eignalið 4, „Útlán o.fl.“, þar með talin tekjufærð afföll af útlánum.

(4) Á rekstrarlið 1.2 skal ennfremur færa tekjur af fjármögnunar- og kaupleigu-samningum. Tekjur af rekstrarleigusamningum skal hins vegar færa á rekstrarlið 7.1.

(5) Á rekstrarlið 1.3, „Vaxtatekjur af markaðsskuldabréfum o.fl.“, skal færa vaxtatekjur, verðbætur og tíma- eða fjárhæðartengda þóknun af eignalið 5, „Markaðsskuldabréf og önnur verðbréf með föstum tekjum“.

(6) Vaxtatekjur, verðbætur og tíma- eða fjárhæðartengda þóknun af víkjandi kröfum skal færa á rekstrarlið 1.1, „Vaxtatekjur af kröfum á lánastofnanir o.fl.“, 1.2, „Vaxtatekjur af útlánum o.fl.“, eða 1.3, „Vaxtatekjur af markaðsskuldabréfum o.fl.“, eftir því á hvaða eignalið krafan er færð.

(7) Á rekstrarlið 1.4, „Aðrar vaxtatekjur o.fl.“, skal færa t.d. hreinar vaxtatekjur af skiptasamningum (e. swaps).

(8) Bakfærsla á tekjufærðum vöxtum fyrri ára er óheimil. Hætta skal tekjufærslu vaxta af vafasömum kröfum, sbr. ennfremur Viðauka I með reglum þessum.

35. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 34. gr. og 40. gr. um skiptingu tekna vegna skuldabréfa í vaxtatekjur og gengishagnað er heimilt að færa gengishagnað sem vaxtatekjur, enda sé um óverulegar fjárhæðir að ræða.

36. gr.

Rekstrarliður 2. „Vaxtagjöld o.fl.“.
(1) Á þennan rekstrarlið skal færa:

- vaxtagjöld,
- þóknunargjöld sem svipar til vaxta og eru tíma- eða fjárhæðartengd skuldbindingunni,
- gjöld vegna affalla af verðbréfum og skuldbindingum sem ekki eru færð á markaðsvirði og skal afföllunum dreift miðað við upphaflega ávöxtunarkröfu, og
- verðbætur á skuldaliði.

(2) Á lið 2.1, „Vaxtagjöld til lánastofnana“, skal færa vaxtagjöld o.fl. vegna skuldaliðar 1, „Skuldir við lánastofnanir o.fl.“.

(3) Á lið 2.2, „Vaxtagjöld af innlánum o.fl.“, skal færa vaxtagjöld og verðbætur vegna skuldaliðar 2, „Innlán“.

(4) Á lið 2.3, „Vaxtagjöld af verðbréfaútgáfu o.fl.“, skal færa vaxtagjöld o.fl. vegna skuldaliðar 3, „Verðbréfaútgáfa“.

(5) Á lið 2.4, „Vaxtagjöld af víkjandi skuldum“, skal færa vaxtagjöld o.fl. vegna skuldaliðar 7, „Víkjandi skuldir“.

(6) Á lið 2.5, „Önnur vaxtagjöld o.fl.“, skal færa vaxtagjöld af öðrum skuldum og reiknuðum skuldbindingum.

37. gr.

Rekstrarliður 3. „Tekjur af hlutabréfum o.fl. og öðrum eignarhlutum“.
(1) Á rekstrarlið 3.1, „Tekjur af veltu- og fjárfestingarhlutabréfum o.fl.“, skal færa arð og álíka tekjur af veltu- og fjárfestingarhlutabréfum og öðrum svipuðum verðbréfum með breytilegum tekjum. Heimilt er þó að færa arð af veltuhlutabréfum á rekstrarlið 6.2.

(2) Á rekstrarlið 3.2, „Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfyrirtækja í fjármálastarfsemi“, og rekstrarlið 3.4, „Tekjur af hlutum í tengdum fyrirtækjum“, skal færa hlutdeild í afkomu hlutdeildarfyrirtækja sem teljast vera lánastofnanir eða fyrirtæki tengd fjármálasviði og tengdra fyrirtækja .

(3) Á rekstrarlið 3.3, „Tekjur af öðrum hlutdeildarfyrirtækjum“, skal færa móttekinn arð og álíka tekjur af hlutdeildarfyrirtækjum öðrum en þeim sem eru í fjármálastarfsemi, sbr. næstu mgr. hér á undan.

38. gr.

Rekstrarliður 4. „Þóknunartekjur o.fl.“.
(1) Til þóknunartekna á rekstrarlið 4, sbr. þó 34. gr., skal telja tekjur vegna liða utan efnahagsreiknings, greiðslumiðlunar, gjaldeyrisviðskipta og fjárvörslu- og fjárfestingarþjónustu. Á þennan lið færist meðal annars:

- þóknun vegna ábyrgða, lánaumsjónar vegna annarra lánveitenda og verðbréfaviðskipta vegna þriðja aðila,
- þóknun og tekjur vegna greiðslumiðlunar, fjármálaþjónustu, fjárfestingarþjónustu, innheimtu á verðbréfum og verðmætavörslu, þ.m.t. geymsluhólfaleigu,
- þóknun vegna viðskipta með erlendan gjaldeyri, sölu og kaup á mynt, eðalmálmum o.fl., og
- þóknun sem farið er fram á fyrir þjónustu verðbréfamiðlara í sambandi við innlána- og tryggingarsamninga og lánsviðskipti.

(2) Á rekstrarlið 4.1, „Ábyrgðarþóknun“, skal færa þóknunartekjur vegna ábyrgða.

(3) Á rekstrarlið 4.2, „Aðrar þóknunartekjur“, skal færa aðrar þóknunartekjur sem falla undir skilgreiningu í 1. mgr. hér á undan.

39. gr.

Rekstrarliður 5. „Þóknunargjöld“.
     Til þóknunargjalda, sbr. þó 36. gr., skal telja gjöld vegna þjónustu sem veitt er af þriðja aðila, sbr. ennfremur upptalningu á viðskiptum og þjónustu í 38. gr. hér á undan.

40. gr.

Rekstrarliður 6. „Gengishagnaður/tap”.
(1) Á þennan rekstrarlið færist gengishagnaður/tap.

(2) Á rekstrarlið 6.1, „Gengishagnaður/tap af veltuskuldabréfum o.fl.“, skal færa innleystan og óinnleystan gengishagnað/tap af verðbréfaeign fyrirtækis samkvæmt eignaliðum 5.1 og 5.2, „Veltuskuldabréf o.fl.“, sbr. þó ákvæði 35. gr. Gjaldeyrishagnaður/tap færist á rekstrarlið 6.3, „Gengishagnaður/tap af gjaldeyrisviðskiptum“. Vaxtatekjur, verðbætur og tíma- og fjárhæðartengdar þóknanir færast á rekstrarlið 1.3, „ Vaxtatekjur af markaðsskuldabréfum o.fl.”.

(3) Á rekstrarlið 6.2, „Gengishagnaður/tap af veltuhlutabréfum o.fl.“,skal færa samtölu gengishagnaðar/taps af verðbréfaeign fyrirtækis samkvæmt eignalið 6.1, „Veltuhlutabréf o.fl.“. Gjaldeyrishagnaður/tap færist þó á rekstrarlið 6.3, „Gengishagnaður/tap af gjaldeyrisviðskiptum“. Heimilt er að færa hér arð af veltuhlutabréfum, sbr. 1. mgr. 37. gr.

(4) Á rekstrarlið 6.3, „Gengishagnaður/tap af gjaldeyrisviðskiptum“, skal færa allan gengishagnað/tap af viðskiptum með erlendan gjaldeyri ásamt gengishagnaði/tapi af eignum og skuldum í erlendum gjaldmiðli. Þegar um er að ræða verðbréf í erlendum gjaldmiðli færist gengishagnaður/tap vegna breytinga á markaðsgengi verðbréfanna, en ekki gjaldmiðilsgengi, á rekstrarliði 6.1, „Gengishagnaður/tap af veltuskuldabréfum o.fl.“, 6.2, „Gengishagnaður/tap af veltuhlutabréfum o.fl.“, eða 12, „Matsverðsbreyting á fjárfestingarverðbréfum o.fl.

(5) Á rekstrarlið 6.4, „Gengishagnaður/tap af öðrum fjármálaskjölum“ skal færa gengishagnað/tap, þ.m.t. gjaldeyrishagnað/tap, af framvirkum viðskiptum (e. futures), viðskiptum með skiptirétt (e. options), mynta- eða vaxtaskipti og önnur álíka fjármálaskjöl (e. financial instruments), sem eru ekki bókfærð í efnahagsreikningnum.

(6) Þegar um er að ræða verðbréf bundin gengi erlendra gjaldmiðla skal fyrst umreikna verðbréfin yfir í íslenskar krónur og bókfæra gengishagnað/tap af gjaldeyrisviðskiptum á rekstrarlið 6.3, „Gengishagnaður/tap af gjaldeyrisviðskiptum“, áður en til útreiknings á gengishagnaði/tapi vegna breytinga á markaðsvirði kemur.

41. gr.

Rekstrarliður 7. „Aðrar rekstrartekjur“.
     Þessi rekstrarliður nær til allra þeirra þóknunartekna, sem falla ekki undir skilgreiningu 38. gr. hér á undan, og allra annarra reglulegra tekna af starfsemi fyrirtækis. Húsaleigutekjur og söluhagnað af rekstrarfjármunum skal færa á þennan lið og ennfremur tekjur af rekstrarleigu.

42. gr.

Rekstrarliður 8. „Almennur rekstrarkostnaður“.
(1) Á rekstrarlið 8.1, „Laun og launatengd gjöld“, skal færa öll laun og launatengd gjöld fyrirtækis.

(2) Á rekstrarlið 8.1.1, „Laun“, skal færa framtalsskyld laun.

(3) Á rekstrarlið 8.1.2, „Lífeyriskostnaður“, skal færa kostnað fyrirtækis vegna lífeyrisskuldbindinga sbr. viðauka II.

(4) Á rekstrarlið 8.1.3, „Önnur launatengd gjöld“, færast önnur launatengd gjöld fyrirtækis.

(5) Í skýringum með rekstrarlið 8.1, „Laun og launatengd gjöld“, skal tilgreina heildarfjárhæð launa og þóknana til stjórnar og stjórnenda fyrirtækis vegna starfa í þágu þess, enda séu þessar upplýsingar ekki í skýrslu stjórnar. Upplýsingarnar skulu sérgreindar á einstaka stjórnarmenn og stjórnendur. Með stjórnendum er átt við þann aðila, einn eða fleiri, sem ráðinn er af stjórn fyrirtækis til að bera ábyrgð á daglegum rekstri þess. Með launum og þóknunum er auk beinna launa átt við hvers konar starfstengd hlunnindi svo sem bifreiða- og húsaleiguhlunnindi. Með störfum í þágu fyrirtækis er m.a. átt við störf sem viðkomandi gegnir í krafti eignaraðildar fyrirækis að dóttur- eða hlutdeildarfélögum, sem og setu í nefndum og stjórnum sem hann er tilnefndur í af hálfu fyrirtækisins, þótt þóknanir fyrir þau störf séu ekki greidd af fyrirtækinu sjálfu.

(6) Á rekstrarlið 8.2, „Annar rekstrarkostnaður“, skal færa annan rekstrar- og stjórnunarkostnað fyrirtækis, þ.m.t.:

- húsaleigu af húsnæði sem fyrirtæki hefur á leigu,
- kostnað vegna rafmagns, hita, ræstingar o.fl.; laun og launatengd gjöld vegna ræstingarfólks, sem telst starfsmenn fyrirtækis, skal þó ekki færa hér, heldur á rekstrarliði 8.1.1 - 8.1.3,
- viðgerðar- og viðhaldskostnað vegna lausafjármuna (bifreiða, húsbúnaðar o.fl.) og viðhalds á húsnæði sem heimilt er að gjaldfæra,
- þróunarkostnað, endurskoðunarkostnað, sjóðsmismun, vátryggingar, kostnað af öryggisgæslu og viðvörunarkerfum, félagsgjöld til samtaka sem fyrirtæki er aðili að, gjöld til tryggingasjóðs og opinber gjöld ýmiss konar önnur en tekju- og eignarskatt, og
- ýmsan stjórnunarkostnað, t.d. kostnað vegna skrifstofuvara, prentkostnað, póst-burðargjöld, símakostnað, leigu á tölvubúnaði, aðkeypta tölvuþjónustu, auglýsingar, bæklinga, risnu, ferðakostnað, endurgjald fyrir bifreiðaafnot, dagpeninga og fræðslukostnað.

(7) Í skýringum skal veita upplýsingar um þóknun til endurskoðanda/ endurskoðunarfélags,sem annast ytri endurskoðun fyrirtækisins, sundurliðað í þóknun fyrir endurskoðun annars vegar og fyrir aðrar þjónustu hins vegar.

(8) Ákvæði um upplýsingar um laun og þóknanir til stjórnar og stjórnenda eru lágmarksákvæði. Fyrirtæki sem skráð eru á skipulegum markaði falla undir ítarlegri upplýsingakröfur í samrææmi við reglur viðkomandi skipulegs markaðar.

43. gr.

Rekstrarliður 9. „Afskriftir rekstrarfjármuna, rekstrarleigueigna o.fl.“.
(1) Á rekstrarlið 9.1, „Afskriftir óefnislegra eigna“, skal færa afskriftir og gjaldfærslur á óefnislegum eignum, þ.m.t. viðskiptavild og langtímakostnaði.

(2) Á rekstrarlið 9.2, „Afskriftir fasteigna“, skal færa afskriftir af fasteignum.

(3) Á rekstrarlið 9.3, „Afskriftir húsbúnaðar, tækja o.fl.“, skal færa afskriftir af eignaliðum sem um er að ræða.

(4) Á rekstrarlið 9.4, „Afskriftir rekstrarleigueigna“, skal færa afskriftir af eignaliðum sem um er að ræða.

44. gr.

Rekstrarliður 10. „Önnur rekstrargjöld“.
     Á þennan gjaldalið skal færa öll rekstrargjöld af reglulegri starfsemi sem falla ekki undir skilgreiningu annarra rekstrarliða. Tap af sölu rekstrarfjármuna skal færa á þennan lið.

45. gr.

Rekstrarliður 11. „Framlög í afskriftareikning útlána o.fl.“.
     Á þennan rekstrarlið skal færa framlög í afskriftareikninga vegna eigna sem bókfærðar eru á eignalið 3, „Kröfur á lánastofnanir o.fl.“, og eignalið 4, „Útlán o.fl.“. Ennfremur skal færa hér allar niðurfærslur vegna tapa sem tengjast fullnustufélögum eða fullnustueignum. Afskriftir vegna ábyrgða og annarra viðskipta, sem ekki eru bókfærð í efnahagsreikningi, skal ennfremur færa á þennan rekstrarlið, svo og innheimt áður gjaldfærð framlög vegna sömu liða.

46. gr.

Rekstrarliður 12. „Matsverðsbreyting á fjárfestingarverðbréfum o.fl.“.
(1) Á rekstrarlið 12.1, „Matsverðsbreyting á fjárfestingarverðbréfum“, skal færa matsverðsbreytingar á verðbréfum samkvæmt eignaliðum 5.3 og 5.4, „Fjárfestingarskuldabréf o.fl.“, og 6.2, „Fjárfestingarhlutabréf“.

(2) Á rekstrarlið 12.2, „Matsverðsbreyting á hlutum í hlutdeildarfyrirtækjum“, skal færa matsverðsbreytingar á verðbréfum samkvæmt eignalið 7, „Hlutir í hlutdeildarfyrirtækjum“.

(3) Á rekstrarlið 12.3, „Matsverðsbreyting á hlutum í tengdum fyrirtækjum“, skal færa matsverðsbreytingar á verðbréfum samkvæmt eignalið 8, „Hlutir í tengdum fyrirtækjum“.

(4) Á rekstrarlið 12.4, „Aðrar matsverðsbreytingar“, skal færa matsverðsbreytingar á öðrum eignaliðum en þeim sem getið er um í næstu málsgreinum hér á undan.

(5) Gjaldeyrishagnað/tap af fjárfestingarverðbréfum o.fl., sbr. næstu málsgreinar hér á undan, skal þó færa undir rekstrarlið 6.3, „Gengishagnaður/tap af gjaldeyrisviðskiptum“.

47. gr.

Rekstrarliður 13. „Skattar“.
(1) Á rekstrarlið 13.1. skal færa reiknaðan tekjuskatt af reglulegri starfsemi. Tekjuskatt skal færa þegar til hans er stofnað án tillits til þess hvenær hann kemur til greiðslu. Þann hluta skattsins sem fellur til greiðslu eftir meira en eitt ár, skal færa sem frestaða skattskuldbindingu, sbr. skuldalið 6.2. Hin frestaða skattskuldbinding skal reiknuð á grundvelli gildandi skatthlutfalls á reikningsskiladegi. Frestuð skattskuldbinding reiknast vegna þess tímamismunar sem er á innfærslu tekna og gjalda í reikningshaldslegu tilliti annars vegar og skattalegu tilliti hins vegar. Við útreikning á frestaðri skattskuldbindingu skal taka tillit til yfirfæranlegra skattalegra tapa.

(2) Á rekstrarlið 13.2 skal færa reiknaðan eignarskatt ársins.

48. gr.

Rekstrarliður 14. „Hagnaður/tap af óreglulegri starfsemi“.
(1) Á rekstrarlið 14.1, „Óreglulegar tekjur“, skal færa tekjur sem varða ekki reglulega starfsemi fyrirtækis og ekki er gert ráð fyrir að í bráð eða lengd endurtaki sig. Á þennan rekstrarlið er einnig heimilt að færa tekjur, sem koma til vegna breytinga á reikningsskilaaðferðum fyrirtækis, og tekjur sem tengjast verulegri skekkju eða vöntun í reikningsskilum fyrri ára. Óreglulegar tekjur skulu því aðeins sérgreindar undir þessum rekstrarlið að þær teljist verulegar.

(2) Á rekstrarlið 14.2, „Óregluleg gjöld“, skal færa gjöld sem varða ekki reglulega starfsemi fyrirtækis og ekki er gert ráð fyrir að endurtaki sig í bráð eða lengd. Á þennan rekstrarlið er einnig heimilt að færa gjöld, sem koma til vegna breytinga á reikningsskilaaðferðum fyrirtækis, og gjöld sem tengjast verulegri skekkju eða vöntun í reikningsskilum fyrri ára. Óregluleg gjöld skulu því aðeins sérgreind undir þessum rekstrarlið að þau teljist veruleg.

(3) Á rekstrarlið 14.3, „Reiknaður skattur af óreglulegri starfsemi“, skal færa reiknaðan tekjuskatt af óreglulegri starfsemi, sbr. ennfremur 47. gr.

Fara efst á síðuna ⇑