Skattalagasafn ríkisskattstjóra 19.4.2024 22:45:54

nr. 790/2001, kafli 1 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=790.2001.1)
Ξ Valmynd

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Reikningsskilaaðferðir.

     Að svo miklu leyti sem ekki er sérstaklega mælt fyrir á annan veg í sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, og reglugerðum, sem settar hafa verið á grundvelli þeirra, gilda ákvæði laga um bókhald, nr. 145/1994, laga um ársreikninga, nr. 144/1994*1), reglugerð nr. 696/1996, um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga og góðar bókhalds- og reikningsskilavenjur hjá sveitarfélögum. Í auglýsingu þessari er að finna frávik frá almennum reikningsskilavenjum í reikningsskilum sveitarfélaga þar sem það er talið gefa gleggri mynd af afkomu sveitarsjóðs.

*1)lög 3/2006.

2. gr.
Skipting í A- og B-hluta.

     Samkvæmt 60. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, skal skipta starfsemi sveitarfélaga í tvo flokka, sbr. einnig auglýsingu nr. 414/2001. Annars vegar er um að ræða sveitarsjóð, sem er aðalsjóður sveitarfélagsins, auk annarra sjóða og stofnana er sinna starfsemi sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð af skatttekjum sveitarfélagsins. Hins vegar er um að ræða fyrirtæki sveitarfélagsins og aðrar rekstrareiningar sem að hálfu eða meiri hluta eru í eigu sveitarfélagsins og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.
 

3. gr.
Skilgreiningar.

     Skilgreiningar á hugtökum er tengjast bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga:

Skilgreiningar samkvæmt reglugerð nr. 944/2000:
Rekstrareining:                     Bókhaldslega aðskilinn starfsemisþáttur í sveitarfélagi, hvort sem um er að ræða fjárhagslega sjálfstæða einingu eða ekki.
Þjónustueining:                     Rekstrareining sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með þjónustugjöldum.
Stofnanir sveitarfélaga:      Rekstrareiningar sem að öllu jöfnu falla undir a-lið 13. gr. reglugerðar um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 944/2000.
[Fyrirtæki sveitarfélags:      Fyrirtæki sveitarfélags eru fjárhagslega sjálfstæðar rekstrareiningar sem falla undir b-lið 13. gr. reglugerðar nr. 944/2000. Um framsetningu fjárhagslegra upplýsinga fyrirtækja sveitarfélaga í samanteknum reikningsskilum sveitarfélags skulu, að svo miklu leyti sem við á, gilda reglur um framsetningu dóttur- og hlutdeildarfélaga í samstæðureikningsskilum, sbr. lög um ársreikninga, nr. 144/1994*1).]1)

Aðrar skilgreiningar:
Aðalsjóður:                                 Hefðbundin starfsemi sveitarfélags er lýtur fyrst og fremst að lögbundnum verkefnum þess og heyrir beint undir sveitarstjórn, en án annarra sjóða og stofnana sem sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum.
Sveitarsjóður:                            Sá hluti starfsemi sveitarfélags sem flokkast undir a-lið 60. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, þ.e. aðalsjóður sveitarfélags auk annarra sjóða og stofnana er sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum.
Peningaleg staða:                     Samtala peningalegra eigna að frádregnum skuldum. Peningaleg staða er jákvæð ef peningalegar eignir eru umfram skuldir, en neikvæð ef skuldir eru hærri en peningalegar eignir.
Samstæða:                                 Samanlagðir ársreikningar sveitarsjóðs og fyrirtækja hans þar sem innbyrðis staða og millivelta hefur verið nettuð út.
Stofnverð:                                    Framreiknað kostnaðarverð mannvirkja og annarra varanlegra rekstrarfjármuna.
[Samantekin reikningsskil:     Samantekin reikningsskil eru reikningsskil A-hluta og B-hluta sveitarfélags sameinuð í eitt. Að svo miklu leyti sem við á gilda um samantekin reikningsskil reglur um samstæðureikningsskil, sbr. ákvæði laga um ársreikninga, nr. 144/1994*1).
Skuldaþak:                                  Skuldaþak sýnir hversu miklar skuldir sveitarfélagið þolir til lengri tíma miðað við greiðslugetu þess á grundvelli framlegðar og gefinna forsendna um meðalvexti lána og endurgreiðslutíma. Skuldaþak sveitarfélags er reiknað sem núvirði þess hluta framlegðar sem ráðstafa má til hreinna afborgana og vaxta á þeim tíma sem eðlilegt getur talist að sveitarfélag greiði upp núverandi skuldir sínar. Við útreikning skuldaþaks skal miða við forsendur um meðalvexti, endurgreiðslutíma lána og hlutfall framlegðar sem varið er til hreinna afborgana og fjármagnsgjalda samkvæmt reglum sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga setur.]2)

1)Sbr. 2. gr. auglýsingar nr. 802/2002.   2)Sbr. 1. gr. auglýsingar nr. 802/2002.   *1)lög 3/2006.
 

Fara efst á síðuna ⇑