Skattalagasafn ríkisskattstjóra 11.8.2022 21:00:19

nr. 790/2001 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=790.2001)
Ξ Valmynd

Auglýsing
nr. 790/2001, um reikningsskil sveitarfélaga.*1)

*1)Sbr. auglýsingu nr. 802/2002, 948/2004 og 1184/2006.
 

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Reikningsskilaaðferðir.

     Að svo miklu leyti sem ekki er sérstaklega mælt fyrir á annan veg í sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, og reglugerðum, sem settar hafa verið á grundvelli þeirra, gilda ákvæði laga um bókhald, nr. 145/1994, laga um ársreikninga, nr. 144/1994*1), reglugerð nr. 696/1996, um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga og góðar bókhalds- og reikningsskilavenjur hjá sveitarfélögum. Í auglýsingu þessari er að finna frávik frá almennum reikningsskilavenjum í reikningsskilum sveitarfélaga þar sem það er talið gefa gleggri mynd af afkomu sveitarsjóðs.

*1)lög 3/2006.

2. gr.
Skipting í A- og B-hluta.

     Samkvæmt 60. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, skal skipta starfsemi sveitarfélaga í tvo flokka, sbr. einnig auglýsingu nr. 414/2001. Annars vegar er um að ræða sveitarsjóð, sem er aðalsjóður sveitarfélagsins, auk annarra sjóða og stofnana er sinna starfsemi sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð af skatttekjum sveitarfélagsins. Hins vegar er um að ræða fyrirtæki sveitarfélagsins og aðrar rekstrareiningar sem að hálfu eða meiri hluta eru í eigu sveitarfélagsins og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.
 

3. gr.
Skilgreiningar.

     Skilgreiningar á hugtökum er tengjast bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga:

Skilgreiningar samkvæmt reglugerð nr. 944/2000:
Rekstrareining:                     Bókhaldslega aðskilinn starfsemisþáttur í sveitarfélagi, hvort sem um er að ræða fjárhagslega sjálfstæða einingu eða ekki.
Þjónustueining:                     Rekstrareining sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með þjónustugjöldum.
Stofnanir sveitarfélaga:      Rekstrareiningar sem að öllu jöfnu falla undir a-lið 13. gr. reglugerðar um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 944/2000.
[Fyrirtæki sveitarfélags:      Fyrirtæki sveitarfélags eru fjárhagslega sjálfstæðar rekstrareiningar sem falla undir b-lið 13. gr. reglugerðar nr. 944/2000. Um framsetningu fjárhagslegra upplýsinga fyrirtækja sveitarfélaga í samanteknum reikningsskilum sveitarfélags skulu, að svo miklu leyti sem við á, gilda reglur um framsetningu dóttur- og hlutdeildarfélaga í samstæðureikningsskilum, sbr. lög um ársreikninga, nr. 144/1994*1).]1)

Aðrar skilgreiningar:
Aðalsjóður:                                 Hefðbundin starfsemi sveitarfélags er lýtur fyrst og fremst að lögbundnum verkefnum þess og heyrir beint undir sveitarstjórn, en án annarra sjóða og stofnana sem sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum.
Sveitarsjóður:                            Sá hluti starfsemi sveitarfélags sem flokkast undir a-lið 60. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, þ.e. aðalsjóður sveitarfélags auk annarra sjóða og stofnana er sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum.
Peningaleg staða:                     Samtala peningalegra eigna að frádregnum skuldum. Peningaleg staða er jákvæð ef peningalegar eignir eru umfram skuldir, en neikvæð ef skuldir eru hærri en peningalegar eignir.
Samstæða:                                 Samanlagðir ársreikningar sveitarsjóðs og fyrirtækja hans þar sem innbyrðis staða og millivelta hefur verið nettuð út.
Stofnverð:                                    Framreiknað kostnaðarverð mannvirkja og annarra varanlegra rekstrarfjármuna.
[Samantekin reikningsskil:     Samantekin reikningsskil eru reikningsskil A-hluta og B-hluta sveitarfélags sameinuð í eitt. Að svo miklu leyti sem við á gilda um samantekin reikningsskil reglur um samstæðureikningsskil, sbr. ákvæði laga um ársreikninga, nr. 144/1994*1).
Skuldaþak:                                  Skuldaþak sýnir hversu miklar skuldir sveitarfélagið þolir til lengri tíma miðað við greiðslugetu þess á grundvelli framlegðar og gefinna forsendna um meðalvexti lána og endurgreiðslutíma. Skuldaþak sveitarfélags er reiknað sem núvirði þess hluta framlegðar sem ráðstafa má til hreinna afborgana og vaxta á þeim tíma sem eðlilegt getur talist að sveitarfélag greiði upp núverandi skuldir sínar. Við útreikning skuldaþaks skal miða við forsendur um meðalvexti, endurgreiðslutíma lána og hlutfall framlegðar sem varið er til hreinna afborgana og fjármagnsgjalda samkvæmt reglum sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga setur.]2)

1)Sbr. 2. gr. auglýsingar nr. 802/2002.   2)Sbr. 1. gr. auglýsingar nr. 802/2002.   *1)lög 3/2006.
 

II. KAFLI
A-hluta stofnanir.
4. gr.

     A-hluti í reikningsskilum sveitarfélaga skal sýna starfsemi sveitarsjóðs, sem er aðalsjóður sveitarfélagsins, auk annarra sjóða og stofnana er sinna starfsemi sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð af skatttekjum sveitarfélagsins. Í 5. og 6. grein er gerð grein þeim reglum sem sérstaklega gilda um tilteknar A-hluta stofnanir utan aðalsjóðs.
 

5. gr.
Eignasjóður.

     Eignasjóður er A-hluta stofnun sem hefur með höndum umsýslu fastafjármuna sem nýttir eru fyrst og fremst af aðalsjóði sveitarfélagsins.
Fasteignir.
     Eignasjóðnum er ætlað að sjá um rekstur, nýbyggingar og kaup og sölu fasteigna í umboði sveitarstjórnar. Eignasjóður leigir út fasteignir til rekstrareininga aðalsjóðs, og í einstaka tilvikum til þriðja aðila. Eignasjóður getur einnig haft eignarhald á og leigt fasteignir sem nýttar eru af öðrum stofnunum og fyrirtækjum sveitarsjóðs, að undanskyldum félagslegum íbúðum.
     Eignasjóður leigir út fasteignir til stofnana sveitarfélags samkvæmt óskum þeirra og þörfum og innheimtir leigu (svokallaða innri leigu) í samræmi við raunverulegan kostnað sem viðkomandi fjárfesting ber með sér, þ.e. fjármagnskostnað vegna viðkomandi fasteignar, afskriftir, skatta og tryggingar, viðhaldskostnað fasteignar og lóðar, auk eðlilegrar þóknunar eignasjóðs fyrir umsýslu. Leigutekjur eignasjóðs skulu standa undir rekstri einstakra eigna.
     Allar fasteignir aðalsjóðs skulu færðar til eignasjóðs á framreiknuðu afskrifuðu kostnaðarverði. Séu upplýsingar um kostnaðarverð ekki fyrirliggjandi þarf að styðjast við viðmiðunarverð á byggingarkostnaði á fermetra án búnaðar í hverri eignategund og afskrifa það með tilliti til aldurs bygginga. Jafnframt skal taka tillit til kostnaðarþátttöku ríkissjóðs við fasteignir sem byggðar eru fyrir 1990 og stofnkostnaðarframlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 1990. Með þessu móti fæst svokallað yfirfærsluverð sem eignasjóður greiðir aðalsjóði fyrir fasteignirnar.
     Hafi sveitarfélag tekið þátt í byggingarkostnaði stofnana, svo sem framhaldsskóla, færist sú eign til eignasjóðs með sambærilegum hætti og aðrar fasteignir. Eignasjóður leigir aðalsjóði eignarhlutann í viðkomandi stofnun þar sem leigan samanstendur af afskriftum, fjármagnskostnaði og umsýslukostnaði.
     Miðað er við að eignasjóður greiði aðalsjóði fyrir yfirfærðar eignir með skuldaviðurkenningu til jafnlangs tíma og meðallíftími eignasafnsins er. Miða skal við að skuldaviðurkenningin beri sömu vexti og lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga á hverjum tíma, gjalddagi sé einn á ári og skulu afborganir reiknast eins og um jafngreiðslulán (annuitet) væri að ræða.
     Eins og að framan greinir sér eignasjóður um nýbyggingar fyrir aðalsjóð. Miðað er við að fjármagnskostnaður verði eignfærður á byggingartíma. Eignasjóður innheimtir leigu frá þeim tíma sem viðkomandi rekstrareining fær eignina til afnota. Fái sveitarfélag byggingarkostnað endurgreiddan með framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, eða frá öðrum aðila, dregst endurgreiðslan frá innri leigu allra eigna í viðkomandi flokki, þ.e. skólum, leikskólum o.s.frv.

     Viðmiðunarverð og viðmiðunarlíftími fasteigna er eftirfarandi:

Fasteignaflokkur Viðmiðunarverð Viðmiðunarlíftími
Skólar ........................................................ 140.000 kr./m2 40 ár
Leikskólar ................................................. 140.000 kr./m2 40 ár
Íþróttamiðstöðvar .................................... 140.000 kr./m2 40 ár
Hjúkrunar- og dvalarheimili ................... 150.000 kr./m2 40 ár
Skrifstofuhúsnæði ................................... 120.000 kr./m2 40 ár
Sérhæft húsnæði ..................................... 200.000 kr./m2 40 ár
Íbúðir í fjölbýlishúsum ............................. 90.000 kr./m2 40 ár
Einbýlishús ................................................ 140.000 kr./m2 40 ár
Sambýli ....................................................... 110.000 kr./m2 40 ár
Hrátt húsnði, svo sem iðnaðarhúsnæði 65.000 kr./m2 25 ár

Ofangreind viðmiðunarverð eru miðuð við verðlag í janúar 2001.

     Heimilt er að víkja frá ofangreindum viðmiðunarverðum telji sveitarfélag það réttara.
Eignasjóði er ætlað að láta leigutekjur vegna einstakra eigna standa undir rekstrarkostnaði þeirra, þar með taldar afskriftir og fjármagnskostnaður. Leigureikningar skulu gerðir með reglubundnum hætti og færðir á viðkomandi rekstrareiningar í A- eða B-hluta eða hugsanlega til aðila utan sveitarfélagsins. Miðað er við að leigufjárhæðir séu endurskoðaðar árlega með tilliti til breyttra vaxtakjara hjá Lánasjóði sveitarfélaga og annarra atriða sem skipt geta máli.

Viðmiðunarleiga samanstendur af eftirfarandi liðum:

Fjármagnskostnaður Vaxtakjör Lánasjóðs sveitarfélaga.
Afskriftir Sjá að framan.
Skattar og tryggingar 1,2% af stofnverði (taka þarf tillit til undanþágu frá fasteignaskatti).
Viðhald húsa og lóða 2,0% af stofnverði; 3,0% í leikskólum.
Umsýslukostnaður 0,5% af stofnverði.

     Hægt er að gera sérstaka samninga um frekari þjónustu eignasjóðs, svo sem vegna húsvörslu, ræstinga, snjómoksturs o.þ.h. Jafnframt getur eignasjóður leigt út húsnæði með rafmagni og hita.
 

Lóðir og lendur.

     Kaup á byggingarlandi skulu eignfærð og skal miða við að kostnaðurinn sé gjaldfærður á 25 árum. Gjaldfærslan skal færast meðal afskrifta í eignasjóði. Eignarhald skal vera í eignasjóði eða annarri A-hluta stofnun sem leigir landið til aðalsjóðs. Leigan samanstendur af ofangreindri gjaldfærslu og fjármagnskostnaði auk umsýslukostnaðar. Heimilt verður að færa til eignar í eignasjóðum land það sem hefur verið keypt undanfarin ár sem byggingarland og skal fara með það eins og aðrar eignir sem færast til eignasjóðs. Annað land sem er í eigu sveitarfélags skal ekki eignfært.

Gatnakerfi.

     Fjárfesting í nýjum gatnakerfum (götur, gangstéttar og stígar, göngubrýr og mislæg gatnamót, götuvitar, gatnalýsing o.fl.) skal eignfærð, að frádregnum gatnagerðagjöldum, og afskrifuð í samræmi við almenna reikningsskilavenju. Eignarhald verður í eignasjóði eða annarri A-hluta stofnun sem leigir gatnakerfið til aðalsjóðs. Leigan samanstendur af afskriftum, fjár¬magnskostnaði og umsýslukostnaði. Viðhald og annar rekstrarkostnaður verður gjaldfærður í aðalsjóði. Eldri mannvirki verða ekki eignfærð. Undir gatnakerfi fellur kostnaður vegna jarðvatnskerfis (regnvatnskerfis). Viðmiðunarlíftími gatnakerfis er 25 ár.

Lausafjármunir — eignfærsla á áhöldum og tækjum og leiga.

Kaup á smááhöldum skulu gjaldfærð á viðkomandi rekstrareiningar í samræmi við almenna reikningsskilavenju. Þeir lausafjármunir (sem nýttir eru af aðalsjóði) sem ekki eru gjaldfærðir hjá viðkomandi rekstrareiningum verða eignfærðir hjá eignasjóði eða annarri A-hluta stofnun sem leigir þá til viðkomandi rekstrareininga. Leigan samanstendur af afskriftum, fjármagnskostnaði og umsýslukostnaði en viðhald, tryggingar og annar rekstrarkostnaður verður greiddur af leigutaka nema um annað verði samið í samningi milli leigusala og leigutaka. Þeir lausafjármunir sem sveitarfélagið eignaðist fyrir árslok 2001 verða ekki eignfærðir. Viðhald þeirra verður gjaldfært á viðkomandi rekstrareiningar. Gjaldfæra skal kostnaðarþátttöku sveitarfélaga í búnaði heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa.
     Afskriftatími lausafjármuna skal taka mið af almennum reikningsskilavenjum.
 

6. gr.
Innri þjónustumiðstöð.

     Innri þjónustumiðstöð er A-hluta stofnun sem nær yfir hefðbundna starfsemi áhaldahúss og vélamiðstöðvar. Sveitarfélagið getur áfram haft þennan rekstur aðskilinn í tveimur A-hluta stofnunum.

     Fjárfesting í fastafjármunum skal eignfærð og afskrifuð í samræmi við almenna reikningsskilavenju. Eldri tæki og húseignir verða keyptar frá aðalsjóði samkvæmt framreiknuðu, afskrifuðu kostnaðarverði eða markaðsverði sé það lægra. Fasteignir þjónustumiðstöðvar geta verið hvort heldur sem er í eigu hennar eða eignasjóðs.

     Miðað er við að eignasjóður greiði aðalsjóði fyrir yfirfærðar eignir með skuldaviðurkenningu til jafnlangs tíma og meðallíftími eignasafnsins er. Miða skal við að skuldaviðurkenningin beri sömu vexti og lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga á hverjum tíma, gjalddagi sé einn á ári og skulu afborganir reiknast eins og um jafngreiðslulán (annuitet) væri að ræða.
 

III. KAFLI
B-hluta fyrirtæki.
7. gr.
Almennt.

     Um staðsetningu rekstrareininga í B-hluta sveitarfélaga skal fara eftir þeirri meginreglu að þar flokkist fjárhagslega sjálfstæðar einingar er hafa lagaheimild til að innheimta þjónustugjöld til þess að standa að fullu undir útgjöldum sínum. Sem dæmi um slíkar rekstrareiningar eru vatnsveitur, hafnarsjóðir, rafveitur, hitaveitur og sorphirðing og sorpeyðing.
     Í undantekningartilvikum getur verið rétt að færa rekstrareiningar milli b- og a-hluta þegar um óverulega starfsemi og litla fjárbindingu í rekstrareiningunni er að ræða.
 

8 gr.
Fráveita.

     Stofna skal sérstakt fyrirtæki sveitarsjóðs um rekstur og efnahag fráveitu sveitarfélagsins. Þar verða fráveituframkvæmdir eignfærðar og afskrifaðar um 4% á ári. Með fráveitu er átt við holræsakerfi sveitarfélagsins frá húsvegg/lóðarmörkum notenda annars vegar og endastöð hins vegar, þar með taldar dælustöðvar og þess háttar. Fráveita er fjármögnuð annars vegar með hluta gatnagerðagjalda og hins vegar með fráveitugjaldi (holræsagjaldi).
     Eldri fráveituframkvæmdir skulu færðar úr aðalsjóði á framreiknuðu, afskrifuðu kostnaðarverði liggi það fyrir en annars samkvæmt afskrifuðu viðmiðunarverði. Viðmiðunarverð verði ákvarðað út frá kostnaðarverði sambærilegra mannvirkja, t.d. ákveðið verð á hvern lengdarmetra holræsa.
     [Í fráveitufyrirtæki skal færa ríkisframlög vegna fráveituframkvæmda til lækkunar á kostnaðarverði viðkomandi framkvæmdar]1).
     Fráveita greiðir aðalsjóði fyrir mannvirkin með skuldaviðurkenningu, sem beri sambærilega vexti og lán Lánasjóðs sveitarfélaga, hún verði með einum gjalddaga og afborganir reiknaðar eins og um jafngreiðslulán væri að ræða.
     Nauðsynlegt er að færa eldri fráveituframkvæmdir yfir til fráveitufyrirtækisins þar sem kostnaður við þær er m.a. grundvöllur að gjaldskrá (holræsagjaldi).

1)Sbr. 1. gr. auglýsingar nr. 948/2004.
 

IV. KAFLI
Ársreikningur sveitarfélags.
9. gr.
[Reikningsskil sveitarfélags.

     Reikningsskil A- og B- hluta sveitarfélags skulu tekin saman og gerð í samræmi við almenna reikningsskilavenju, sbr. þó ákvæði þessarar greinar.

Eignarhlutir í öðrum félögum.

     Í samanteknum reikningsskilum sveitarfélaga skal beitt hlutdeildaraðferð við meðhöndlum eignarhluta og afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga.
     Eignarhlutar í eigu sveitarsjóðs (A-hluta) skulu færðir til eignar á kostnaðarverði, sbr. III. kafla laga um ársreikninga nr. 144/1994*1). Í reikningsskilum sveitarsjóðs er eigi heimilt að beita hlutdeildaraðferð við meðhöndlun eignarhluta og afkomu fyrirtækja sveitarfélaga þar sem fyrst og fremst er verið að draga fram ráðstöfun skatttekna.
     Byggðasamlög sveitarfélaga falla undir B-hluta sveitarfélags og skulu í samanteknum reikningsskilum meðhöndluð á sama hátt og fyrirtæki sveitarfélaga. Í skýringum í ársreikningi sveitarfélags skal þó sérstaklega gerð grein fyrir hlutdeild sveitarfélagsins í heildareignum og heildarskuldum byggðasamlagsins.
     Um reikningsskil dóttur- og hlutdeildarfélaga fyrirtækja sveitarfélaga fer eftir almennum reikningsskilavenjum.

Rekstrarframlög til stofnana og fyrirtækja sveitarfélaga.

     Hafi sveitarfélög falið stofnunum sínum eða fyrirtækjum að sjá um lögbundin verkefni eða önnur venjubundin verkefni sveitarfélaga ber aðalsjóði að reikna og færa árlega framlag til viðkomandi stofnana og fyrirtækja til þess að mæta rekstrarhalla þeirra. Þetta á við þegar um viðvarandi rekstrarhalla er að ræða og starfsemi viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis er ekki í samkeppnisrekstri. Framlagið færist til gjalda á viðkomandi málaflokk í aðalsjóði og til tekna sem rekstrarframlag hjá viðkomandi stofnun eða fyrirtæki.
     Dæmi um stofnanir og fyrirtæki eru:
               Félagslegar íbúðir
               Almenningssamgöngur
               Hafnarsjóðir

     Hafi sveitarfélag ekki reiknað framlag til framangreindra stofnana hingað til skal leiðrétta framlög fyrri ára, með færslu á eigin fé hjá aðalsjóði annars vegar og viðkomandi stofnun eða fyrirtæki hins vegar.
     Veiti sveitarfélag B-hluta fyrirtæki framlag til að mæta tilfallandi rekstrarhalla skal slíkt gert í formi lánveitingar með skuldarviðurkenningu milli aðila.

     Sveitarfélagi er óheimilt að afla sér tekna með framlögum frá B-hluta fyrirtækjum yfir í A-hluta umfram þann arð sem ákvarðaður er, sbr. 7. gr. sveitarstjórnarlaganna, þrátt fyrir að rekstrarhalla fyrirtækjanna hafi áður verið mætt með framlögum úr sveitarsjóði.
*1)lög 3/2006.

Óvenjulegir liðir.

     Útgjöld eða tekjur sveitarfélaga sem ekki falla undir venjulegan rekstur þeirra skal sýna sem óvenjulega liði, enda hafi þau veruleg áhrif á afkomu sveitarfélags og skekki samanburð milli ára og milli sveitarfélaga. Dæmi um óvenjulega liði má nefna verulegan hagnað/tap af sölu hlutabréfa í fyrirtækjum sem ekki tengjast beint starfsemi sveitarfélags og verulegan hagnað/tap af sölu varanlegra rekstrarfjármuna, enda sé um að ræða varanlega rekstrarfjármuni sem óvenjulegt er að sveitarfélagið selji.]1)
1)Sbr. 3. gr. auglýsingar nr. 802/2002.

10. gr.
[Form ársreiknings og fjárhagsáætlunar.

     Viðaukar 1-6 verði í samræmi við viðauka A, B, C, D, E, F, G, H, I, J og K.]1).

1)Sbr. 2. gr. auglýsingar nr. 948/2004.

11. gr.
Sundurliðunarbók.

     Samhliða gerð ársreiknings skulu sveitarfélög sundurliða rekstur sinn í sérstakri sundurliðunarbók, sbr. viðauka 5 – 6E.
 

12. gr.
Fjárhagsáætlun.

     Form fjárhagsáætlunar skal vera í samræmi við form ársreiknings, sbr. reglugerð nr. 944/2000. Fjárhagsáætlun sveitarfélags skal sett fram á því formi sem sýnt er í viðaukum 1 – 4, án samanburðar.

      [Samhliða gerð fjárhagsáætlunar skulu sveitarfélög sundurliða áætlaðan rekstur sinn á málaflokka, sbr. viðauka 5]1).

1)Sbr. 3. gr. auglýsingar nr. 945/2004.


 [13. gr.
Þriggja ára áætlun.

     Form þriggja ára áætlunar skal vera í samræmi við form ársreiknings, sbr. reglugerð nr. 944/2000. Þriggja ára áætlun skal sett fram á því formi sem sýnt er í viðaukum 1-4, án samanburðar.
     Þriggja ára áætlun skal vera á sama verðlagi og fjárhagsáætlun skv. 12. gr.
     Samhliða gerð þriggja ára áætlunar skulu sveitarfélög sundurliða áætlaðan rekstur sinn á málaflokka, sbr. viðauka 5.]1)

1)Sbr. 4. gr. auglýsingar nr. 945/2004.
 

V. KAFLI
Gildistökuákvæði.
[14. gr.]1)
Gildistaka.

     Auglýsing þessi, sem sett er á grundvelli 18. gr. reglugerðar nr. 944/2000, öðlast þegar gildi.

1)Sbr. 5. gr. auglýsingar nr. 945/2004.

Viðaukar 1-6 eru ekki birtir hér.
 

Fara efst á síðuna ⇑