Skattalagasafn ríkisskattstjóra 23.4.2024 16:09:12

nr. 55/2000, kafli 4 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=55.2000.4)
Ξ Valmynd

IV. KAFLI
Einstakir liðir efnahagsreiknings.
Eignir.

Óefnislegar eignir.
16. gr.

     Undir lið 1 Óefnislegar eignir skal færa langtímakostnað og önnur óefnisleg réttindi sem aflað hefur verið gegn greiðslu. Í skýringum skal sundurliða þennan lið. Kostnað við stofnun sjóðsins má ekki eignfæra.
 

Fjárfestingar.
17. gr.

(1) Undir lið 2.1 Húseignir og lóðir skal færa húseignir og lóðir í eigu sjóðsins, fullgerðar og í byggingu, þar með taldar fyrirframgreiðslur vegna húsbygginga eða lóða og réttinda sem þeim fylgja. Í skýringum skal sérgreina húseignir og lóðir til eigin nota.

(2) Undir lið 2.2 Samstæðu- og hlutdeildarfélög skal færa eignarhluti í samstæðu- og hlutdeildarfélögum og lán til þeirra sem talin eru til fjárfestinga sjóðsins og ekki eru almennar viðskiptakröfur.

(3) Undir lið 2.3.1 Verðbréf með breytilegum tekjum skal færa framseljanleg verðbréf svo sem hlutabréf, hlutdeildarskírteini og önnur slík verðbréf með breytilegum tekjum eða verðbréf sem háð eru afkomu útgefanda.

(4) Undir lið 2.3.2 Verðbréf með föstum tekjum skal færa framseljanleg skuldabréf og önnur verðbréf með föstum tekjum sem gefin eru út af lánastofnunum, opinberum aðilum eða öðrum félögum. Með skuldabréfum og öðrum verðbréfum er hér átt við bréf sem t.d. eru bundin við vísitölu t.d. hlutabréfavísitölu eða gengi gjaldmiðla hvort sem vextir eru fastir eða hafa tiltekna vaxtaviðmiðun. Áfallnir vextir skulu taldir með verðbréfum samkvæmt þessum lið.

(5) Undir lið 2.3.3 Veðlán skal færa útlán, þ.m.t. áfallna vexti, sem veitt eru gegn veði í fasteign og lausafé sem tryggingu fyrir greiðslu. Í skýringum skal gera grein fyrir skiptingu veðlána til sjóðfélaga annars vegar og annarra hins vegar.

(6) Undir lið 2.3.4 Önnur útlán skal færa útlán, þ.m.t. áfallna vexti, önnur en þau sem falla undir liði 2.3.2 eða 2.3.3. Nemi þessi liður verulegri fjárhæð skal gerð nánari grein fyrir honum í skýringum.

(7) Undir lið 2.3.5 Bankainnstæður skal færa innlán í bönkum og sparisjóðum önnur en veltiinnlán sem færa skal undir lið 4.2.

(8) Undir lið 2.3.6 Aðrar fjárfestingar skal færa fjárfestingar, þ.m.t. fullnustueignir, sem ekki eru færðar annars staðar. Nánari grein skal gerð fyrir þessum lið í skýringum nemi hann verulegri fjárhæð.

(9) Í skýringum skal gera grein fyrir skiptingu fjárfestinga í heild eftir helstu erlendu gjaldmiðlum ef raunveruleg áhættudreifing eftir myntum er lítil.

(10) Í skýringum skal ennfremur gera grein fyrir markaðsverði þeirra fjárfestingarliða samkvæmt 2.3.1-2.3.6, sem ekki eru tilfærðir á markaðsverði svo fremi að það sé fyrir hendi.

(11) Sundurliða skal í skýringum hlutabréfaeign skv. lið 2.3.1 eftir félögum og hvort félagið er skráð á skipulegum markaði og greina frá eignarhlutdeild í hverju félagi ásamt markaðsverði og bókfærðu verði. Ekki er nauðsynlegt að sundurliða hlutabréfaeign þar sem eignarhlutdeild í einstökum félögum er undir 2 %. Þó skal sundurliða hlutabréfaeign ef bókfært virði í einstökum félögum er yfir 0,5% af hreinni eign til greiðslu lífeyris.

(12) Fyrir lífeyrissjóð sem starfar í fjárhagslega aðskildum deildum skulu framangreindar sundurliðanir ná til einstakra deilda hans.
 

Kröfur.
18. gr.

(1) Undir lið 3.1 Kröfur á samstæðu- og hlutdeildarfélög skal færa heildarfjárhæð krafna á samstæðu- og hlutdeildarfélög sem ekki falla undir lið 2.2. Í skýringum skal sundurgreina þessar kröfur eftir eðli þeirra, sbr. liði 3.2-3.3.

(2) Undir lið 3.2 Kröfur á launagreiðendur skal færa heildarfjárhæð krafna á launagreiðendur svo sem iðgjaldakröfur, endurkröfur, verðbréf og kröfur vegna samninga um greiðslur sem að jafnaði eru ekki til lengri tíma en eins árs. Verðbréf og samninga til lengri tíma skal færa undir viðeigandi liði fjárfestinga.

(3) Undir lið 3.3 Aðrar kröfur skal færa kröfur sem ekki falla undir aðra liði. Þegar um verulegar fjárhæðir er að ræða skal gerð grein fyrir þeim í skýringum.
 

Aðrar eignir.
19. gr.

(1) Undir lið 4.1 Rekstrarfjármunir og aðrar efnislegar eignir skal færa rekstrarfjármuni og efnislegar eignir aðrar en húseignir og lóðir undir lið 2.1 svo sem innréttingar, áhöld og búnað og fyrirframgreiðslur vegna þeirra.

(2) Undir lið 4.2 Sjóður og veltiinnlán skal færa sjóð og veltiinnlán í bönkum og sparisjóðum.

(3) Undir lið 4.3 Aðrar eignir skal færa eignir sem ekki falla undir aðra liði. Ef slíkar eignir eru verulegar skal gerð grein fyrir þeim í skýringum.
 

Fyrirframgreiddur kostnaður og áfallnar tekjur.
20. gr.

     Undir lið 5 Fyrirframgreiddur kostnaður og áfallnar tekjur skal færa gjöld sem stofnað er til á reikningsárinu en varða síðari ár, og tekjur sem varða reikningsárið en innheimtast eftir lok þess. Áfallna vexti skal þó færa með viðeigandi eignaliðum. Ef þessi liður nemur verulegum fjárhæðum skal sundurliða hann í skýringum.
 

Skuldir.
Skuldbindingar.
21. gr.

     Undir lið 6 Skuldbindingar skal færa fjárhæðir vegna skuldbindinga sem mæta eiga tilteknu tapi, tilteknum skuldbindingum eða kostnaði á reikningsárinu eða frá fyrri árum þegar fjárhæð þeirra er óviss eða óvíst hvenær greiðsla fer fram. Í skýringum skal gerð grein fyrir þessum lið ef um verulega fjárhæð er að ræða.
 

Viðskiptaskuldir.
22. gr.

(1) Undir lið 7.1 Skuldir við samstæðu- og hlutdeildarfélög skal færa heildarfjárhæð skulda, þ.m.t. áfallna vexti, við hlutdeildarfélög. Í skýringum skal sundurgreina þessar skuldir eftir eðli þeirra, sbr. liði 7.2-7.4.

(2) Undir lið 7.2 Skuldir við lánastofnanir skal færa allar skuldir sjóðsins, þ.m.t. áfallna vexti, við lánastofnanir.

(3) Undir lið 7.3 Skuldabréfalán skal færa skuldabréfalán sjóðsins, þ.m.t. áfallna vexti, sem ekki ber að færa annars staðar.

(4) Undir lið 7.4 Aðrar skuldir skal færa skuldir, þ.m.t. áfallna vexti, sem ekki falla undir aðra liði. Þegar um verulegar fjárhæðir er að ræða skal gerð grein fyrir þeim í skýringum.
 

Áfallinn kostnaður og fyrirfram innheimtar tekjur.
23. gr.

     Undir lið 8 Áfallinn kostnaður og fyrirfram innheimtar tekjur skal færa gjöld sem varða reikningsárið en koma til greiðslu síðar, og tekjur sem innheimtar hafa verið á reikningsárinu en varða síðari reikningsár og falla ekki undir aðra liði. Áfallna vexti skal þó færa með viðeigandi skuldaliðum. Verulegar fjárhæðir undir þessum lið skal sundurgreina í skýringum.
 

Fara efst á síðuna ⇑