Skattalagasafn ríkisskattstjóra 16.4.2024 17:11:47

nr. 55/2000 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=55.2000)
Ξ Valmynd

Reglur
nr. 55/2000, um ársreikninga lífeyrissjóða.*1)

*1)Sbr. reglur nr. 765/2002 og 1067/2004.
 

I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.

     Reglur þessar gilda um lífeyrissjóði sem starfa á grundvelli laga nr. 129/1997 og samkvæmt sérstökum lögum.
 

II. KAFLI
Almenn ákvæði.
2. gr.

(1) Ársreikning skal semja fyrir hvert reikningsár. Einnig skal semja skýrslu stjórnar sem ásamt ársreikningi myndar eina heild. Ársreikningur skal hafa að geyma yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, efnahagsreikning, sjóðstreymi og skýringar. Lífeyrissjóður sem starfar í fjárhagslega aðskildum deildum skal sýna sérgreind yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, efnahagsreikning, sjóðstreymi og skýringar.

(2) Ákvæði reglna þessara gilda um samstæðureikning eftir því sem við getur átt. Í móðurfélagi skal semja samstæðureikning. Samstæðureikningur skal hafa að geyma skýrslu stjórnar, rekstrarreikning, efnahagsreikning, sjóðstreymi og skýringar.
 

3. gr.

(1) Ársreikningur og samstæðureikningur skulu gerðir í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju og gefa glögga mynd af breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris á reikningsárinu og efnahag í lok þess. Nægi ákvæði laga eða góð reikningsskilavenja ekki til að gefa glögga mynd af breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris og efnahag skal veita frekari upplýsingar í skýringum.

(2) Ársreikningur skal settur upp með hliðstæðum hætti frá ári til árs nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars. Breytingar skulu tilgreindar og rökstuddar í skýringum.
 

4. gr.

(1) Ársreikningurinn skal gerður í því formi sem fyrir er mælt í viðauka I, sem er hluti af þessum reglum, og skal heiti liða og röð þeirra vera eins og þar segir.

(2) Sameina má liði er nema óverulegum fjárhæðum öðrum liðum.

(3) Frekari greiningu má gera undir einstökum liðum sé það nauðsynlegt til að gera reikningsskilin gleggri og að því tilskildu að heiti tilgreindra liða sé ekki breytt né röð þeirra.

(4) Í sjóðstreymi skal m.a. gerð grein fyrir inngreiðslum og útgreiðslum, ráðstöfunarfé til kaupa á verðbréfum og annarri breytingu á sjóði og veltiinnlánum. Í viðauka II er gerð grein fyrir skilgreiningum hugtaka í sjóðstreymisyfirliti.
 

5. gr.

(1) Í yfirliti um breytingar á hreinni eign til greiðslu lífeyris og efnahagsreikningi skal birta fjárhæðir úr ársreikningi fyrra árs við hlið viðkomandi liða. Gæta skal þess að einstakir liðir séu samanburðarhæfir milli ára, en ef svo er ekki skal lagfæra liði fyrra árs og gera grein fyrir breytingum í skýringum.

(2) Sé ekki um neina fjárhæð að ræða undir einhverjum lið skal hans getið í ársreikningnum hafi einhver fjárhæð verið þar árið áður.
 

6. gr.

     Ef eigna- eða skuldaliður heyrir undir fleiri en einn lið í viðauka I skal tengsla getið annaðhvort þar sem liðurinn er færður, eða í skýringum ef slíkt er nauðsynlegt til skilnings á ársreikningnum.
 

III. KAFLI
Einstakir liðir í yfirliti um breytingar á hreinni eign til greiðslu lífeyris.
Iðgjöld.
7. gr.

(1) Undir lið 1 Iðgjöld skal færa heildarfjárhæð iðgjalda og annarra framlaga, greiddra eða ógreiddra, sem skapað hafa réttindakröfur á lífeyrissjóðinn fyrir lok reikningsárs. Iðgjöldin skulu færð að frádregnum endurgreiddum og niðurfelldum iðgjöldum sem ekki skapa réttindi.

(2) Undir lið 1.1 Iðgjöld sjóðfélaga skal færa iðgjöld frá sjóðfélögum.

(3) Undir lið 1.2 Iðgjöld launagreiðenda skal færa regluleg iðgjöld frá launagreiðendum.

(4) Undir lið 1.3 Réttindaflutningur og endurgreiðslur skal færa samtölu fjárhæða sem greiddar hafa verið eða mótteknar vegna réttindaflutnings eða endurgreiðslu á iðgjöldum.
Verðbótatekjur/gjöld af réttindaflutningi færast einnig undir þennan lið.

(5) Undir lið 1.4 Sérstök aukaframlög skal færa sérstök viðbótariðgjöld launagreiðenda eða ábyrgðaraðila eða sérstök framlög frá öðrum aðilum, sem líta má á sem viðbótariðgjöld. Þegar um séreignadeildir er að ræða skal þó færa viðbótariðgjöld undir tekjuliði 1.1 og 1.2.
 

Lífeyrir.
8. gr.

(1) Undir lið 2.1 Lífeyrir skal færa heildarfjárhæð ellilífeyris, örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris á reikningsárinu til lífeyrisþega. Í skýringum skal koma fram sundurliðun lífeyristegunda með samanburði við árið áður.

(2) Undir lið 2.2 Umsjónarnefnd eftirlauna skal færa greiðslur frá Umsjónarnefnd eftirlauna.

(3) Undir lið 2.3 Annar beinn kostnaður vegna örorkulífeyris skal færa annan beinan kostnað svo sem vegna örorkumats og endurhæfingar.

(4) Undir lið 2.4 Tryggingakostnaður skal færa kostnað við kaup á tryggingu vegna áhættudreifingar á lífeyrisskuldbindingum sjóðsins.
 

Fjárfestingartekjur.
9. gr.

(1) Undir lið 3 Fjárfestingartekjur skal færa allar fjárfestingartekjur sjóðsins.

(2) Undir lið 3.1 Tekjur frá samstæðufélögum skal færa hlut félagsins í afkomu félaga í félagasamstæðu á reikningsárinu.

(3) Undir lið 3.2 Tekjur frá hlutdeildarfélögum skal færa hlut sjóðsins í afkomu hlutdeildarfélaga á reikningsárinu.

(4) Undir lið 3.3 Tekjur af eignarhlutum skal færa arð af hlutabréfaeign. Ennfremur skal færa breytingu á gengi hlutabréfa, þ.m.t. gjaldmiðlabreytingu, sem færð eru á markaðsverði og hagnað eða tap af sölu skráðra hlutabréfa.

(5) Undir lið 3.4 Tekjur af húseignum og lóðum skal færa hagnað eða tap af rekstri húseigna og lóða sjóðsins, þar með taldar reiknaðar leigutekjur af húseignum og lóðum sem lífeyrissjóðurinn á og notar fyrir eigin rekstur, þar sem það á við. Draga skal frá allan kostnað við reksturinn nema vexti sem skulu færðir meðal vaxtagjalda undir lið 4.2.

(6) Undir lið 3.5 Vaxtatekjur og gengismunur skal færa vaxtatekjur, verðbætur og aðrar hliðstæðar tekjur af fjárfestingum sjóðsins, ásamt verðbótum af skuldabréfum og öðrum peningalegum eignum. Afföllum og gengisauka af skuldabréfum sem ekki eru færð við markaðsverði skal dreifa miðað við upphaflega ávöxtunarkröfu. Hér skal einnig færa gengismun vegna umreiknings erlendra gjaldmiðla í íslenskar krónur, sbr. þó lið 3.3 hér á undan. Undir þennan tekjulið skal færa innheimtar lántökuþóknanir af skuldabréfum sem eignfærð eru undir eignalið 2.3. Hreinan hagnað eða tap af sölu skuldabréfa skal ennfremur færa hér. Þá skulu færast hér vaxtatekjur af iðgjöldum og iðgjaldakröfum.

(7) Undir lið 3.6 Tekjur vegna matsbreytinga á fjárfestingum skal færa hreina hækkun á bókfærðu verði þessara eigna í lok reikningsársins, sbr. ákvæði 28. gr., frá bókfærðu verði þeirra í upphafi reikningsársins, sem ekki ber að færa undir aðra liði. Hafi verið fjárfest á reikningsárinu skal miða við kostnaðarverð fjárfestingar.

(8) Undir lið 3.7 Hagnaður af sölu fjárfestinga skal færa hreinan hagnað af sölu fjárfestinga samkvæmt eignaliðum 2.1 Húseignir og lóðir, 2.2 Samstæðu- og hlutdeildarfélög og 2.3.6 Aðrar fjárfestingar, svo og óskráðra hlutabréfa samkvæmt eignalið 2.3.1. Verðbréf með breytilegum tekjum. Hagnaðurinn er mismunur söluverðs og bókfærðs verðs á söludegi.

(9) Undir lið 3.8 Breytingar á niðurfærslu skal færa niðurfærslur á eignalið 2.3 Aðrar fjárfestingar og eignalið 3 Kröfur sbr. ennfremur 28. og 33. gr. og skal gera grein fyrir þeim í skýringum.

(10) Undir lið 3.9 Aðrar fjárfestingartekjur skal færa tekjur af eignalið 2.3.6 Aðrar fjárfestingar. Undir þennan tekjulið skal færa aðrar tekjur af skuldabréfaeign en færðar eru undir lið 3.5 Vaxtatekjur og gengismunur.

(11) [---]1)

(12) Fjárfestingartekjur frá samstæðufélögum og hlutdeildarfélögum, sem falla undir liði 3.4 –3.9 skulu sérgreindar í skýringum.

1)Sbr. 1. gr. reglna nr. 765/2002.
 

Fjárfestingargjöld.
10. gr.

(1) Undir lið 4 Fjárfestingargjöld skal færa öll fjárfestingargjöld sjóðsins.

(2) Undir lið 4.1 Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður skal færa kostnað á reikningsárinu við umsýslu og stjórnun vegna fjárfestinga sjóðsins.

(3) Undir lið 4.2 Vaxtagjöld skal færa vaxtagjöld, verðbætur og gengismun af skuldum. Hér færist einnig innlausn affalla eða gengisauka af skuldum, sem ekki eru færðar til markaðsvirðis, og skal dreifa innlausninni miðað við upphaflega ávöxtunarkröfu.

(4) Undir lið 4.3 Gjöld vegna matsbreytinga á fjárfestingum skal færa hreina lækkun á bókfærðu verði þessara eigna í lok reikningsársins, sbr. ákvæði 28. gr., frá bókfærðu verði þeirra í upphafi reikningsársins sem ekki ber að færa undir aðra liði. Hafi verið fjárfest á reikningsárinu skal miða við kostnaðarverð fjárfestingar.

(5) Undir lið 4.4 Tap af sölu fjárfestinga skal færa hreint tap af sölu fjárfestinga samkvæmt eignaliðum 2.1 Húseignir og lóðir, 2.2 Samstæðu- og hlutdeildarfélög og 2.3.6 Aðrar fjárfestingar, svo og óskráðra hlutabréfa samkvæmt eignalið 2.3.1. Verðbréf með breytilegum tekjum. Tapið er mismunur söluverðs og bókfærðs verðs á söludegi.

(6) Undir lið 4.5 Önnur fjárfestingargjöld skal færa gjöld af eignalið 2.3.6 Aðrar fjárfestingar og gjöld sem tengjast lánveitingum sjóðsins. Þá skal færa hér þóknanir verðbréfafyrirtækja vegna umsýslu og stjórnunar á fjárfestingum samkvæmt 17. gr.
 

Rekstrarkostnaður.
11. gr.

(1) Undir lið 5 Rekstrarkostnaður skal færa rekstrarkostnað sjóðsins, annan en skrifstofu- og stjórnunarkostnað samkvæmt lið 4.1 og beinan kostnað vegna örorkulífeyris samkvæmt lið 2.3. Með hugtakinu skrifstofu- og stjórnunarkostnaður er fyrst og fremst átt við starfsmannakostnað, leigukostnað, þ.m.t. reiknaðan leigukostnað af eigin húsnæði, kostnað við skrifstofubúnað og afskriftir á eignum, sem færðar eru undir eignalið 4.1 í efnahagsreikningi og annan almennan skrifstofukostnað.

(2) Undir lið 5.1 Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður skal færa skrifstofu- og stjórnunarkostnað annan en samkvæmt lið 4.1.

(3) Undir lið 5.2 Annar rekstrarkostnaður skal færa annan rekstrarkostnað en samkvæmt liðum 2.3, 2.4, 4.1 og 5.1.
 

Aðrar tekjur.
12. gr.

     Undir lið 6 Aðrar tekjur skal færa reglulegar tekjur sem ekki eru taldar annars staðar. Í skýringum skal gerð grein fyrir þessum lið.
 

Önnur gjöld.
13. gr.

     Undir lið 7 Önnur gjöld skal færa áður ótalin regluleg gjöld og skal nánari grein gerð fyrir honum í skýringum.
 

Óreglulegar tekjur og gjöld.
14. gr.

(1) Undir lið 9 Óreglulegar tekjur og gjöld skal færa óreglulegar tekjur undir lið 9.1 og óregluleg gjöld undir lið 9.2. Þessir liðir taka til atvika og viðskipta sem eru óvenjuleg og óvænt og varða ekki meginstarfsemi sjóðsins, enda sé um verulegar fjárhæðir að ræða.

(2) Gerð skal nánari grein fyrir þessum liðum í skýringum.
 

Matsbreytingar.
15. gr.

     [Undir lið 10 Matsbreytingar skal færa endurmat óefnislegra eigna samkvæmt lið1, húseigna og lóða samkvæmt lið 2.1 og varanlegra rekstrarfjármuna samkvæmt lið 4.1.]1)

1)Sbr. 2. gr. reglna nr. 765/2002
 

IV. KAFLI
Einstakir liðir efnahagsreiknings.
Eignir.

Óefnislegar eignir.
16. gr.

     Undir lið 1 Óefnislegar eignir skal færa langtímakostnað og önnur óefnisleg réttindi sem aflað hefur verið gegn greiðslu. Í skýringum skal sundurliða þennan lið. Kostnað við stofnun sjóðsins má ekki eignfæra.
 

Fjárfestingar.
17. gr.

(1) Undir lið 2.1 Húseignir og lóðir skal færa húseignir og lóðir í eigu sjóðsins, fullgerðar og í byggingu, þar með taldar fyrirframgreiðslur vegna húsbygginga eða lóða og réttinda sem þeim fylgja. Í skýringum skal sérgreina húseignir og lóðir til eigin nota.

(2) Undir lið 2.2 Samstæðu- og hlutdeildarfélög skal færa eignarhluti í samstæðu- og hlutdeildarfélögum og lán til þeirra sem talin eru til fjárfestinga sjóðsins og ekki eru almennar viðskiptakröfur.

(3) Undir lið 2.3.1 Verðbréf með breytilegum tekjum skal færa framseljanleg verðbréf svo sem hlutabréf, hlutdeildarskírteini og önnur slík verðbréf með breytilegum tekjum eða verðbréf sem háð eru afkomu útgefanda.

(4) Undir lið 2.3.2 Verðbréf með föstum tekjum skal færa framseljanleg skuldabréf og önnur verðbréf með föstum tekjum sem gefin eru út af lánastofnunum, opinberum aðilum eða öðrum félögum. Með skuldabréfum og öðrum verðbréfum er hér átt við bréf sem t.d. eru bundin við vísitölu t.d. hlutabréfavísitölu eða gengi gjaldmiðla hvort sem vextir eru fastir eða hafa tiltekna vaxtaviðmiðun. Áfallnir vextir skulu taldir með verðbréfum samkvæmt þessum lið.

(5) Undir lið 2.3.3 Veðlán skal færa útlán, þ.m.t. áfallna vexti, sem veitt eru gegn veði í fasteign og lausafé sem tryggingu fyrir greiðslu. Í skýringum skal gera grein fyrir skiptingu veðlána til sjóðfélaga annars vegar og annarra hins vegar.

(6) Undir lið 2.3.4 Önnur útlán skal færa útlán, þ.m.t. áfallna vexti, önnur en þau sem falla undir liði 2.3.2 eða 2.3.3. Nemi þessi liður verulegri fjárhæð skal gerð nánari grein fyrir honum í skýringum.

(7) Undir lið 2.3.5 Bankainnstæður skal færa innlán í bönkum og sparisjóðum önnur en veltiinnlán sem færa skal undir lið 4.2.

(8) Undir lið 2.3.6 Aðrar fjárfestingar skal færa fjárfestingar, þ.m.t. fullnustueignir, sem ekki eru færðar annars staðar. Nánari grein skal gerð fyrir þessum lið í skýringum nemi hann verulegri fjárhæð.

(9) Í skýringum skal gera grein fyrir skiptingu fjárfestinga í heild eftir helstu erlendu gjaldmiðlum ef raunveruleg áhættudreifing eftir myntum er lítil.

(10) Í skýringum skal ennfremur gera grein fyrir markaðsverði þeirra fjárfestingarliða samkvæmt 2.3.1-2.3.6, sem ekki eru tilfærðir á markaðsverði svo fremi að það sé fyrir hendi.

(11) Sundurliða skal í skýringum hlutabréfaeign skv. lið 2.3.1 eftir félögum og hvort félagið er skráð á skipulegum markaði og greina frá eignarhlutdeild í hverju félagi ásamt markaðsverði og bókfærðu verði. Ekki er nauðsynlegt að sundurliða hlutabréfaeign þar sem eignarhlutdeild í einstökum félögum er undir 2 %. Þó skal sundurliða hlutabréfaeign ef bókfært virði í einstökum félögum er yfir 0,5% af hreinni eign til greiðslu lífeyris.

(12) Fyrir lífeyrissjóð sem starfar í fjárhagslega aðskildum deildum skulu framangreindar sundurliðanir ná til einstakra deilda hans.
 

Kröfur.
18. gr.

(1) Undir lið 3.1 Kröfur á samstæðu- og hlutdeildarfélög skal færa heildarfjárhæð krafna á samstæðu- og hlutdeildarfélög sem ekki falla undir lið 2.2. Í skýringum skal sundurgreina þessar kröfur eftir eðli þeirra, sbr. liði 3.2-3.3.

(2) Undir lið 3.2 Kröfur á launagreiðendur skal færa heildarfjárhæð krafna á launagreiðendur svo sem iðgjaldakröfur, endurkröfur, verðbréf og kröfur vegna samninga um greiðslur sem að jafnaði eru ekki til lengri tíma en eins árs. Verðbréf og samninga til lengri tíma skal færa undir viðeigandi liði fjárfestinga.

(3) Undir lið 3.3 Aðrar kröfur skal færa kröfur sem ekki falla undir aðra liði. Þegar um verulegar fjárhæðir er að ræða skal gerð grein fyrir þeim í skýringum.
 

Aðrar eignir.
19. gr.

(1) Undir lið 4.1 Rekstrarfjármunir og aðrar efnislegar eignir skal færa rekstrarfjármuni og efnislegar eignir aðrar en húseignir og lóðir undir lið 2.1 svo sem innréttingar, áhöld og búnað og fyrirframgreiðslur vegna þeirra.

(2) Undir lið 4.2 Sjóður og veltiinnlán skal færa sjóð og veltiinnlán í bönkum og sparisjóðum.

(3) Undir lið 4.3 Aðrar eignir skal færa eignir sem ekki falla undir aðra liði. Ef slíkar eignir eru verulegar skal gerð grein fyrir þeim í skýringum.
 

Fyrirframgreiddur kostnaður og áfallnar tekjur.
20. gr.

     Undir lið 5 Fyrirframgreiddur kostnaður og áfallnar tekjur skal færa gjöld sem stofnað er til á reikningsárinu en varða síðari ár, og tekjur sem varða reikningsárið en innheimtast eftir lok þess. Áfallna vexti skal þó færa með viðeigandi eignaliðum. Ef þessi liður nemur verulegum fjárhæðum skal sundurliða hann í skýringum.
 

Skuldir.
Skuldbindingar.
21. gr.

     Undir lið 6 Skuldbindingar skal færa fjárhæðir vegna skuldbindinga sem mæta eiga tilteknu tapi, tilteknum skuldbindingum eða kostnaði á reikningsárinu eða frá fyrri árum þegar fjárhæð þeirra er óviss eða óvíst hvenær greiðsla fer fram. Í skýringum skal gerð grein fyrir þessum lið ef um verulega fjárhæð er að ræða.
 

Viðskiptaskuldir.
22. gr.

(1) Undir lið 7.1 Skuldir við samstæðu- og hlutdeildarfélög skal færa heildarfjárhæð skulda, þ.m.t. áfallna vexti, við hlutdeildarfélög. Í skýringum skal sundurgreina þessar skuldir eftir eðli þeirra, sbr. liði 7.2-7.4.

(2) Undir lið 7.2 Skuldir við lánastofnanir skal færa allar skuldir sjóðsins, þ.m.t. áfallna vexti, við lánastofnanir.

(3) Undir lið 7.3 Skuldabréfalán skal færa skuldabréfalán sjóðsins, þ.m.t. áfallna vexti, sem ekki ber að færa annars staðar.

(4) Undir lið 7.4 Aðrar skuldir skal færa skuldir, þ.m.t. áfallna vexti, sem ekki falla undir aðra liði. Þegar um verulegar fjárhæðir er að ræða skal gerð grein fyrir þeim í skýringum.
 

Áfallinn kostnaður og fyrirfram innheimtar tekjur.
23. gr.

     Undir lið 8 Áfallinn kostnaður og fyrirfram innheimtar tekjur skal færa gjöld sem varða reikningsárið en koma til greiðslu síðar, og tekjur sem innheimtar hafa verið á reikningsárinu en varða síðari reikningsár og falla ekki undir aðra liði. Áfallna vexti skal þó færa með viðeigandi skuldaliðum. Verulegar fjárhæðir undir þessum lið skal sundurgreina í skýringum.
 

V. KAFLI
Matsreglur.
Almenn ákvæði.
24. gr.

     Mat á einstökum liðum ársreikningsins skal byggt á tilhlýðilegri varkárni og skal eingöngu færa tekjur sem áunnar eru fyrir lok reikningsárs og taka tillit til allra fyrirsjáanlegra skuldbindinga sem hafa myndast á reikningsárinu eða á fyrri reikningsárum. Hliðstæðum aðferðum skal beitt við matið frá ári til árs.
 

25. gr.

     Beita skal sömu matsaðferðum innan sama liðar ársreiknings þegar um fjárfestingar er að ræða sbr. 17. gr. Í skýringum skal greint frá þeim matsaðferðum sem beitt er við hvern lið fjárfestinga.
 

Varanlegir rekstrarfjármunir o.fl.
26. gr.

(1) [Óefnislegar eignir samkvæmt lið 1, húseignir og lóðir samkvæmt lið 2.1 og varanlegir rekstrarfjármunir samkvæmt lið 4.1 skulu færðir á kostnaðarverði. Ef raunvirði samkvæmt 1. ml. erverulega hærra en kostnaðarverð af ástæðum sem daldar eru varanlegar er heimilt að hækka bókfært verð þeirra í ársreikningi og skal matsbreytingin færð undir lið 10, „Matsbreytingar“.

(2) Eignir samkvæmt 1. mgr., sem nýtast takmarkaðan tíma vegna aldurs, slits eða af hliðstæðum ástæðum skulu afskrifaðar á kerfisbundinn hátt á áætluðum endingartíma þeirra. Óefnislegar eignir skulu þó ekki afskrifaðar á lengri tíma en fimm árum. Afskriftir skulu reiknast af kostnaðarverði. Séu þessir fjármunir endurmetnir samkvæmt 2. ml. 1. mgr. reiknast afskriftir af endurmetnu verði þeirra. Við útreikning á kostnaðarverði samkvæmt 1. og 2. ml. 1. mgr. skal taka tillit til framreiknings vegna áhrifa verðlagsbreytinga fram til ársins 2001.]1)

1)Sbr. 3. gr. reglna nr. 765/2002.

27. gr.

(1) Ef raunvirði eigna skv. 26. gr. er lægra en bókfært verð þeirra og ástæður þess verða ekki taldar skammvinnar ber að færa bókfært verð þeirra niður til samræmis við hið lægra verðgildi.

(2) Niðurfærsluna skal færa undir lið 9.2 óregluleg gjöld í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.

(3) Ef eignir hafa verið færðar niður og ástæður lækkunarinnar eiga ekki lengur við ber að færa bókfært verð þeirra til fyrra horfs.
 

Verðbréf.
28. gr.

(1) Skuldabréf skal færa til eignar miðað við þau vaxtakjör sem um var samið þegar bréfið var keypt eða móttekið, enda séu vaxtakjörin í samræmi við það sem almennt gerist á markaði. Hafi orðið breyting á markaðsvöxtum, sem telst varanleg og er talin hafa mikil áhrif, skal taka tillit til slíkrar breytingar við mat á skuldabréfaeign og skal matsbreytingin færð undir liði 3.6 og 4.3 í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.

(2) Skuldabréf skal færa með áföllnum vöxtum, verðbótum og gengismun á reikningsskiladegi. Verðbætur skal miða við viðeigandi vísitölu næsta mánaðar eftir lok reikningsárs. Skuldabréf í erlendum gjaldmiðli skal færa við kaupgengi gjaldmiðils í lok reikningsárs.

(3) Við mat á skuldabréfaeign skal með hæfilegri niðurfærslu taka tillit til þeirrar tapshættu sem kann að vera fyrir hendi á uppgjörsdegi og skal færa niðurfærsluna undir lið 3.8 Breyting á niðurfærslu í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.
 

29. gr.

(1) [Hlutabréf skal færa á kaupverði eða markaðsverði, hvort sem lægra er í lok reikningsárs, sbr. þó 30. gr.]1)

(2) Hlutdeildarskírteini skal færa á markaðsverði í lok reikningsárs.

1)Sbr. 4. gr. reglna nr. 765/2002.

30. gr.

(1) Hlutabréf sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði skal færa á markaðsverði. Með skipulegum verðbréfamarkaði er átt við eftirfarandi:

  1. Verðbréfaþing Íslands og hliðstæðar kauphallir innan Evrópska efnahagssvæðisins.
  2. Aðrir verðbréfamarkaðir innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem verðbréf ganga kaupum og sölum og sem eru opnir almenningi, starfa reglulega og eru viðurkenndir með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið metur gildan.
  3. Markaðir samkvæmt 1. og 2. lið sem staðsettir eru í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins og eru viðurkenndir með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið metur gildan.

(2) Hækkun eða lækkun á markaðsverði skráðra hlutabréfa skal færa undir lið 3.3 á yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris en hækkun eða lækkun á markaðsverði hlutdeildarskírteina skal færa undir lið 3.5 á sama yfirliti. Séu verðbréf sem falla undir sama lið jafnframt metin skv. 28. eða 29. gr. skal skipta viðkomandi lið í efnahagsreikningi með hliðsjón af 25. gr.
 

31. gr.

(1) [Þegar fjárfestingar eru færðar á kaupverði skal tilgreina ætlað markaðsverð þeirra í skýringum ársreikningsins.]1)

(2) Þegar fjárfestingar eru skráðar á skipulegum verðbréfamarkaði telst markaðsverð vera verðið á síðasta skráningardegi reikningsársins nema talin sé sérstök ástæða til að víkja frá því í einstökum tilvikum en þá skal greina frá því í skýringum.

1)Sbr. 5. gr. reglna nr. 765/2002.
 

Eignarhluti í dóttur- og hlutdeildarfélögum.
32. gr.

(1) Eignarhluti lífeyrissjóðs í dótturfélögum og hlutdeildarfélögum skal færður samkvæmt hlutdeildaraðferð í samræmi við hlutdeild sjóðsins í eigin fé slíkra félaga.

(2) Séu eignir og skuldir dótturfélags metnar á annan hátt en hjá móðurfélaginu skulu þessar eignir og skuldir endurmetnar eftir aðferðum móðurfélagsins, nema munur sé óverulegur.
 

Kröfur.
33. gr.

     Meta skal kröfur með hliðsjón af tapshættu og færa framlag í afskriftarreikning eftir niðurstöðu slíks mats. Afskriftarreikningur skal myndaður með sérstökum og almennum niðurfærslum sem draga skal frá viðkomandi liðum í efnahagsreikningi. Framlag í afskriftarreikning skal færa undir lið 3.8 Breyting á niðurfærslu í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.
 

34. gr.

     Eignir og skuldir í erlendri mynt skulu umreiknaðar í íslenskar krónur á opinberu gengi í lok reikningsárs. Nota skal opinbert gengi sem Seðlabanki Íslands auglýsir, kaupgengi fyrir eignir og sölugengi fyrir skuldir.
 

Áhrif verðlagsbreytinga.
35. gr.

     [Við útreikning á kaup- eða kostnaðarverði samkvæmt ákvæðum 26., 29. og 31. gr. skal taka tillit til framreiknings vegna áhrifa verðlagsbreytinga fram til ársins 2001.]1)

1)Sbr. 6. gr. reglna nr. 765/2002
 

VI. KAFLI
Skýringar.
Almenn ákvæði.
36. gr.

(1) Í skýringum skal veita upplýsingar um þau atriði sem tilgreind eru í II. - V. kafla.
Í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris:
Kafli III: Lið 2.1 í 8. gr., liði 3.5 - 3.10 í 9. gr., lið 6 í 12. gr., lið 7 í 13. gr. og lið 9 í 14. gr.
Í efnahagsreikningi:
Kafli IV: lið 1 í 16. gr., liði 2.1, 2.2, 2.3.3, 2.3.4 og 2.3.6 svo og 9.-12. mgr. í 17. gr., liði 3.1 og 3.3 í 18. gr., lið 4.3 í 19. gr., lið 5 í 20. gr., lið 6 í 21. gr., liði 7.1 og 7.4 í 22. gr. og lið 8 í 23. gr.

(2) [Í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris: Kafli III: Lið 2.1 í 8. gr., liði 3.5-3.9 í 9. gr., lið 6 í 12. gr., lið 7 í 13. gr. og lið 9 í 14. gr.]1)

1)Sbr. 7. gr. reglna nr. 765/2002.
 

[36. gr. a

(1) Í skýringum skal tilgreina heildarfjárhæð launa og þóknana til stjórnar og framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs vegna starfa í þágu sjóðsins, enda séu þessar upplýsingar ekki í skýrslu stjórnar Upplýsingarnar skulu sérgreindar á einstaka stjórnarmenn og framkvæmdastjóra. Með launum og þóknunum er auk beinna launa átt við hvers konar starfstengd hlunnindi svo sem bifreiða- og húsaleiguhlunnindi. Með störfum í þágu lífeyrissjóðs er m.a. átt við störf sem viðkomandi gegnir í krafti eignaraðildar lífeyrissjóðs að dóttur- eða hlutdeildarfélögum, sem og setu í nefndum og stjórnum sem hanner tilnefndur af hálfu lífeyrissjóðsins, þótt þóknanrir fyrir þau störf séu ekki greiddar af lífeyrissjóðnum sjálfum.

(2) Í skýringum skal veita upplýsingar um þóknun til endurskoðanda/endurskoðunarfélags, sem annast ytri endurskoðun lífeyrissjóðsins, sundurliðað í þóknun fyrir endurskoðun annars vegar og fyrir aðra þjónustu hins vegar.]1)

1)Sbr. 1. gr. reglna nr.1067/2004.
 

37. gr.

     [Gera skal grein fyrir þeim aðferðum sem beitt er við mat á hinum ýmsu liðum ársreiknings. Greint skal frá aðferðum við endurmat og afskriftir svo og við uppfærslur og niðurfærslur. Einnig skal tilgreina það gengi sem miðað er við þegar einstakir liðir eru umreiknaðir frá öðrum gjaldmiðli í íslenskar krónur.]1)

1)Sbr. 8. gr. reglna nr. 765/2002.
 

38. gr.

     Þegar fjárhæðir eru ekki samanburðarhæfar milli ára í efnahagsreikningi eða í yfirliti um breytingar á hreinni eign til greiðslu lífeyris skal í skýringum gera grein fyrir ástæðum þess og áhrifum sem það hefur á samanburðarhæfi einstakra liða.
 

39. gr.

     Gera skal grein fyrir lífeyrisskuldbindingum sjóðsins í skýringum eða sérstöku yfirliti samkvæmt niðurstöðu tryggingafræðilegrar athugunar, sbr. eftirfarandi sundurliðun:

  Áfallin skuldbinding   Framtíðar-skuldbinding   Heildar-skuldbinding
 
Eignir:          
Hrein eign til greiðslu lífeyris………………..…………          
Núvirði verðbréfa………………………….……………          
Núvirði framtíðariðgjalda……………………………….          
Eignir samtals………………………………………...…          
           
Skuldbindingar:          
Ellilífeyrir……………………………………………….          
Örorkulífeyrir………………………………………..….          
Makalífeyrir……………………………………………..          
Barnalífeyrir………………………………………….....          
Rekstrarkostnaður……………………..………………..          
Skuldbindingar samtals…………………………………          
           
Eignir umfram skuldbindingar:          
Í hlutfalli af skuldbindingum:          

 

40. gr.

(1) Tilgreina skal nöfn og félagsform dótturfélaga og hlutdeildarfélaga. Geta skal hlutdeildar í hverju þeirra, eigin fjár og rekstrarniðurstöðu samkvæmt síðasta ársreikningi. Þegar félagið er dótturfélag skal tilgreina nafn móðurfélags sem gerir samstæðureikning.

(2) Víkja má frá ákvæðum 1. mgr. um upplýsingar um eigið fé og rekstrarárangur einstakra félaga ef eignarhlutur er undir 50% af eigin fé viðkomandi félags og upplýsingarnar hafa óverulega þýðingu eða þær geta valdið viðkomandi félagi tjóni, enda sé ástæðunnar getið.
 

41. gr.

     Í skýringum skal tilgreina nöfn, heimilisföng og form félaga með ótakmarkaðri ábyrgð sem sjóðurinn er aðili að. Ekki þarf að gefa þessar upplýsingar ef þær hafa óverulega þýðingu.
 

Eignaliðir.
42. gr.

     Fyrir hvern eignaliðanna 1 Óefnislegar eignir, 2.1 Húseignir og lóðir og 4.1 Rekstrarfjármunir og aðrar efnislegar eignir skal gera grein fyrir breytingum á bókfærðu virði á árinu í samræmi við góða reikningsskilavenju.
 

43. gr.

(1) Upplýsa skal um síðasta opinbert fasteignamat og um vátryggingaverðmæti varanlegra rekstrarfjármuna.

(2) Gera skal grein fyrir bókfærðu verði húseigna og lóða sem lífeyrissjóðurinn hefur til eigin nota. Noti sjóðurinn hluta húseignar skal reikna verðið hlutfallslega.
 

44. gr.

(1) Tilgreina skal heildarfjárhæð lána og ábyrgða sem veittar hafa verið stjórn, framkvæmdastjóra og öðrum stjórnendum sjóðsins og einstaklingum nátengdum þeim.

(2) Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við ef eingöngu er um að ræða lán sambærileg þeim sem sjóðfélagar hafa fengið hvað varðar fjárhæð og kjör.
 

Skuldaliðir.
45. gr.

     Greina skal frá samningum sem gerðir hafa verið við stjórn, framkvæmdastjóra og starfsmenn um eftirlaun og hliðstæð réttindi, og tilgreina heildarfjárhæðir. Áfallnar skuldbindingar sjóðsins vegna þessa skulu sundurliðaðar á stjórn, framkvæmdastjóra og aðra stjórnendur annars vegar og aðra starfsmenn hins vegar.
 

46. gr.

     Hafi lífeyrissjóður sett eignir að veði skal veita upplýsingar um fjárhæð veðsetninganna og bókfært verð veðsettra eigna sundurliðað eftir eignum.
 

47. gr.

     Gera skal grein fyrir virkum afleiðuviðskiptum þar sem sérstaklega komi fram, fyrir hverja tegund viðskipta, fjárhæðir samninga og áhrif þeirra á ársreikninginn. Þá skal koma fram í hvaða tilgangi þeir eru gerðir svo sem til að draga úr áhrifum vaxtabreytinga, gengisbreytinga eða breytinga á markaðsverði. Tekjur og gjöld vegna þessara viðskipta eru færð undir liðum 3 Fjárfestingartekjur eða 4 Fjárfestingargjöld í yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.
 

48. gr.

     Veita skal upplýsingar um aðrar fjárskuldbindingar sem ekki eru tilfærðar í efnahagsreikningi, að því leyti sem það skiptir máli við mat á fjárhagsstöðu. Hafi sjóðurinn gert leigusamninga sem nema verulegum fjárhæðum skulu slíkar skuldbindingar tilgreindar sérstaklega.
 

Fimm ára yfirlit.
49. gr.

(1) Ársreikningur skal hafa að geyma yfirlit með helstu niðurstöðutölum og kennitölum úr rekstri og efnahag sjóðsins í heild á reikningsárinu og samsvarandi upplýsingum fjögurra undangenginna reikningsára. Í yfirlitinu skal að lágmarki koma fram:

  1. Hrein raunávöxtun
  2. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára
  3. Hlutfallsleg skipting annarra fjárfestinga skv. lið 2.3 í efnahagsreikningi:

Skráð verðbréf með breytilegum tekjum %
Skráð verðbréf með föstum tekjum %
Óskráð verðbréf með breytilegum tekjum %
Óskráð verðbréf með föstum tekjum %
Veðlán %
Annað %

  1. Hlutfallsleg skipting annarra fjárfestinga skv. lið 2.3 í efnahagsr. eftir gjaldmiðlum:

Eignir í íslenskum krónum %
Eignir í erlendum gjaldmiðlum samtals %

  1. Fjöldi sjóðfélaga
  2. Fjöldi lífeyrisþega
  3. Hlutfallsleg skipting lífeyris:

Ellilífeyrir %
Örorkulífeyrir %
Makalífeyrir %
Barnalífeyrir %

  1. Fjárhagsstaða skv. tryggingafræðilegri úttekt:

Hrein eign umfram heildarskuldbindingar %
Hrein eign umfram áfallnar skuldbindingar %

(2) Upplýsingar samkvæmt 1. mgr. skulu eins og frekast er unnt vera sambærilegar milli ára. Þess skal getið sérstaklega ef svo er ekki og ástæðna þess. Sé ekki unnt að birta tölur sem bera má saman milli ára er heimilt að birta yfirlit yfir skemmra tímabil en fimm ár. Í viðauka III er nánari grein gerð fyrir skilgreiningum kennitalna samkvæmt 1. mgr.
 

VII. KAFLI
Skýrsla stjórnar.
50. gr.

(1) Í skýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit um starfsemi sjóðsins á árinu, svo og upplýsingar um atriði er mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu sjóðsins og afkomu hans á reikningsárinu er ekki koma fram annars staðar á ársreikningnum.

(2) Í skýrslu stjórnar skal ennfremur upplýst um eftirfarandi:

  1. 1. atburði eftir uppgjörsdag sem hafa verulega þýðingu,
  2. 2. væntanlega þróun sjóðsins og
  3. 3. aðgerðir sem hafa þýðingu fyrir framtíðarþróun hans.

(3) Skýrsla stjórnar skal veita upplýsingar um fjölda greiðandi sjóðfélaga á árinu, fjölda virkra sjóðfélaga, þ.e. sjóðfélaga sem að jafnaði greiða iðgjöld til sjóðsins með reglubundnum hætti í mánuði hverjum, fjölda lífeyrisþega, fjölda starfsmanna að meðaltali á reikningsárinu, heildarfjárhæð launa, þóknana eða annarra greiðslna til starfsmanna, stjórnar og annarra í þjónustu sjóðsins.
 

51. gr.

     Ársreikningur ásamt skýrslu stjórnar og áritun löggilts endurskoðanda skal liggja frammi, og til afhendingar ef óskað er, á afgreiðslustað sjóðsins eftir samþykkt hans. Senda skal Fjár¬mála¬eftirlitinu endurskoðaðan ársreikning lífeyrissjóðs ásamt skýrslu stjórnar þegar eftir undirritun hans og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs.
 

VIII. KAFLI
Gildistökuákvæði.
52. gr.

     Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 5. mgr. 40. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. 10. tl. 7. gr. laga nr. 84/1998, um breytingar á sérákvæðum í lögum um fjármálaeftirlit. Reglurnar öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við gerð ársreiknings fyrir árið 1999. Jafnframt falla úr gildi reglur um gerð ársreiknings lífeyrissjóða frá 22. október 1997.
 

VIÐAUKI I

Yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.

  1. Iðgjöld

1.1 Iðgjöld sjóðfélaga
1.2. Iðgjöld launagreiðenda
1.3. Réttindaflutningur og endurgreiðslur
1.4 Sérstök aukaframlög
Iðgjöld
 

  1. Lífeyrir

2.1 Lífeyrir
2.2 Umsjónarnefnd eftirlauna
2.3 Annar beinn kostnaður vegna örorkulífeyris
2.4 Tryggingakostnaður
Lífeyrir

  1. Fjárfestingartekjur

3.1 Tekjur frá samstæðufélögum
3.2 Tekjur frá hlutdeildarfélögum
3.3 Tekjur af eignarhlutum
3.4 Tekjur af húseignum og lóðum
3.5 Vaxtatekjur og gengismunur
3.6 Tekjur vegna matsbreytinga á fjárfestingum
3.7 Hagnaður af sölu fjárfestinga
3.8 Breytingar á niðurfærslu
3.9 Aðrar fjárfestingartekjur
[---]1)
Fjárfestingartekjur

             1)Sbr. 9. gr. reglna nr. 765/2002.

  1. Fjárfestingargjöld

4.1 Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður
4.2 Vaxtagjöld
4.3 Gjöld vegna matsbreytinga á fjárfestingum
4.4 Tap af sölu fjárfestinga
4.5 Önnur fjárfestingargjöld
Fjárfestingargjöld

  1. Rekstrarkostnaður

5.1 Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður
5.2 Annar rekstrarkostnaður
Rekstrarkostnaður

  1. Aðrar tekjur
     
  2. Önnur gjöld
  3. Hækkun á hreinni eign fyrir óreglulega liði og matsbreytingar
  4. Óreglulegar tekjur og gjöld

9.1 Óreglulegar tekjur
9.2 Óregluleg gjöld
Óreglulegar tekjur - gjöld

  1. Matsbreytingar
  2. Hækkun á hreinni eign á árinu
  3. Hrein eign frá fyrra ári
  4. Hrein eign í árslok til greiðslu lífeyris


EFNAHAGSREIKNINGUR

EIGNIR

  1. Óefnislegar eignir
  2. Fjárfestingar

2.1 Húseignir og lóðir
2.2 Samstæðu- og hlutdeildarfélög
2.2.1 Hlutir í samstæðufélögum
2.2.2 Lán til samstæðufélaga
2.2.3 Hlutir í hlutdeildarfélögum
2.2.4 Lán til hlutdeildarfélaga


2.3 Aðrar fjárfestingar
2.3.1 Verðbréf með breytilegum tekjum
2.3.2 Verðbréf með föstum tekjum
2.3.3 Veðlán
2.3.4 Önnur útlán
2.3.5 Bankainnistæður
2.3.6 Aðrar fjárfestingar

  1. Kröfur

3.1 Kröfur á samstæðu- og hlutdeildarfélög
3.2 Kröfur á launagreiðendur
3.3 Aðrar kröfur
 

  1. Aðrar eignir

4.1 Rekstrarfjármunir og aðrar efnislegar eignir
4.2 Sjóður og veltiinnlán
4.3 Aðrar eignir
 

  1. Fyrirframgreiddur kostnaður og áfallnar tekjur

                                                                      Eignir samtals


SKULDIR

  1. Skuldbindingar
     
  2. Viðskiptaskuldir

7.1 Skuldir við samstæðu- og hlutdeildarfélög
7.2 Skuldir við lánastofnanir
7.3 Skuldabréfalán
7.4 Aðrar skuldir
 

  1. Áfallinn kostnaður og fyrirfram innheimtar tekjur

                                                                      Skuldir samtals

HREIN EIGN TIL GREIÐSLU LÍFEYRIS


SJÓÐSTREYMI

  1. Inngreiðslur

1.1 Iðgjöld
1.2 Fjárfestingartekjur
1.3 Aðrar tekjur
1.4 Afborganir verðbréfa
1.5 Seld verðbréf með breytilegum tekjum
1.6 Seld verðbréf með föstum tekjum
1.7 Lækkun á bankainnstæðum
1.8 Seldar aðrar fjárfestingar
1.9 Aðrar inngreiðslur
 

  1. Útgreiðslur

2.1 Lífeyrir
2.2 Fjárfestingargjöld
2.3 Rekstrarkostnaður án afskrifta
2.4 Önnur gjöld
2.5 Aðrar útgreiðslur

  1. Ráðstöfunarfé til kaupa á verðbréfum og annarri fjárfestingu ( 1. - 2. )
  1. Kaup á verðbréfum og önnur fjárfesting

4.1 Kaup á verðbréfum með breytilegum tekjum
4.2 Kaup á verðbréfum með föstum tekjum
4.3 Ný veðlán og útlán
4.4 Hækkun á bankainnstæðum
4.5 Aðrar fjárfestingar, sbr. þó lið 4.6
4.6 Húseignir og lóðir
4.7 Samstæðu- og hlutdeildarfélög
 

  1. Hækkun á sjóði og veltiinnlánum ( 3. – 4. )
  2. Sjóður og veltiinnlán í ársbyrjun
  3. Sjóður og veltiinnlán í árslok


VIÐAUKI II

Skilgreining á hugtökum í sjóðstreymisyfirliti sbr. 4. gr. reglnanna

     Eftirfarandi skilgreiningar eru til leiðbeiningar við samningu sjóðstreymis samkvæmt 4. mgr. 4. gr. reglnanna, sbr. ennfremur sjóðstreymisyfirlit í viðauka I. Tilvísun til einstakra sjóðstreymisliða miðast við þá liði sem fram koma á yfirliti um sjóðstreymi, sbr. viðauka I.
1. Sjóður og veltiinnlán.
     Sjóður og veltiinnlán, sbr. liði 6 og 7, er samheiti fyrir seðla og mynt og veltiinnlán í bönkum og sparisjóðum. Með veltiinnlánum í bönkum og sparisjóðum er átt við innstæður á tékkareikningum og aðrar innstæður hjá fjármálastofnunum, sem ekki eru háðar takmörkunum á notkun, svo og bankainnstæður, sem bundnar eru til þriggja mánaða eða skemmri tíma.
2. Inngreiðslur.
     Liðir 1.1 - 1.3 sýna innborganir í sjóð og veltiinnlán, sem stafa frá einstökum liðum á yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.
     Liðir 1.4 - 1.9 sýna innborganir í sjóð og veltiinnlán, sem stafa frá einstökum liðum efnahagsreiknings. Liður 1.7 sýnir þó eingöngu nettó lækkun. Miða skal við að afborganir í íslenskum krónum með verðbótum og afborganir í erlendum gjaldmiðli á gengi greiðsludags teljist með efnahagsliðum en verðbætur og gengisbreytingar að öðru leyti teljist með tekju- og gjaldaliðum.
3. Útgreiðslur.
     Liðir 2.1 - 2.4 sýna útborganir úr sjóði og veltiinnlánum, sem ráðstafað er vegna einstakra liða á yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.
     Liður 2.5 sýnir útborganir úr sjóði og veltiinnlánum, sem ráðstafað er vegna einstakra liða efnahagsreiknings, annarra en fjárfestinga sbr. 2. tölulið efnahagsreiknings.
4. Kaup á verðbréfum og önnur fjárfesting.
     Liðir 4.1 – 4.6 sýna útborganir úr sjóði og veltiinnlánum, sem ráðstafað er til kaupa á verðbréfum og til annarrar fjárfestingar sem tilfærð er undir tölulið 2 í efnahagsreikningi. Liður 4.4 sýnir þó eingöngu nettó hækkun.
 

VIÐAUKI III

Skilgreiningar á kennitölum sbr. 49. gr. reglnanna.

     Eftirfarandi skilgreiningar eru til leiðbeiningar við gerð kennitalna samkvæmt 49. gr. reglnanna. Tilvísun til einstakra tekju- og gjaldaliða miðast við þá liði sem fram koma á yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris sbr. viðauka I.


1. Hrein raunávöxtun.

[Hjá lífeyrissjóðum sem reikna daglegt gengi eigna er raunávöxtun reiknuð samkvæmt eftirfarandi formúlu:

r = ( 1 + i ) - 1
( 1 + j )

þar sem r táknar hreina raunávöxtun; i táknar breytingu á gengi sjóðsins á árinu og j táknar hækkun vísitölu á árinu.

Hjá lífeyrissjóðum sem reikna ekki daglegt gengi eigna er hrein raunávöxtun reiknuð samkvæmt eftirfarandi formúlu:

 

r = ( 1 + i ) - 1
( 1 + j )

þar sem r táknar hreina raunávöxtun; i táknar ávöxtun eigna sbr. sérstaka formúlu hér á eftir og j táknar hækkun vísitölu á árinu. Formúla fyrir ávöxtun eigna er eftirfarandi:

 

i = __2 ( F - K )__
( A + B - (F - K))


þar sem F táknar fjárfestingartekjur, sbr. lið 3 að frádregnum fjárfestingargjöldum, sbr. lið 4; K táknar rekstrarkostnað, sbr. lið 5, að viðbættum gjöldum, sbr. lið 7, en að frádregnum tekjum, sbr. lið 6; A táknar hreina eign til greiðslu lífeyris í ársbyrjun, sbr. lið 12, og B táknar hreina eign til greiðslu lífeyris í árslok, sbr. lið 13 á yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris.]1)
1)Sbr. 10. gr. reglna nr. 765/2002.


     2. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára.
     Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára (r5) sbr. eftirfarandi:

     3. Hlutfallsleg skipting annarra fjárfestinga.
     Heildarfjárhæð annarra fjárfestinga, sbr. lið 2.3 í efnahagsreikningi, skipt hlutfallslega niður á skráð og óskráð verðbréf með breytilegum tekjum, skráð og óskráð verðbréf með föstum tekjum, veðlán og annað.

     4. Hlutfallsleg skipting annarra fjárfestinga eftir gjaldmiðlum.
     Heildarfjárhæð annarra fjárfestinga, sbr. lið 2.3 í efnahagsreikningi, skipt hlutfallslega niður á eignir í íslenskum krónum annars vegar og eignir í erlendum gjaldmiðlum samtals hins vegar.

     5. Fjöldi sjóðfélaga.
     Meðaltal fjölda sjóðfélaga sem greiddi iðgjald á reikningsárinu.

     6. Fjöldi lífeyrisþega.
     Meðaltal fjölda lífeyrisþega sem fékk greiddan lífeyri á reikningsárinu.

     7. Hlutfallsleg skipting lífeyris.
     Heildarfjárhæð lífeyris, sbr. lið 2 á yfirliti um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, skipt hlutfallslega niður á eftirlaun, örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri.

     8. Eignir umfram heildarskuldbindingar %.
     Endurmetin hrein eign til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda, sbr. 39. gr. umfram heildarskuldbindingar í hlutfalli af heildarskuldbindingum.

     9. Eignir umfram áfallnar skuldbindingar %.
     Endurmetin hrein eign til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda, sbr. 39. gr. umfram áfallnar skuldbindingar í hlutfalli af áföllnum skuldbindingum.
 

Fara efst á síðuna ⇑