Skattalagasafn ríkisskattstjóra 19.4.2024 22:48:59

nr. 532/2003, kafli 7 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=532.2003.7)
Ξ Valmynd

VII. kafli
Áritun ársreiknings og endurskoðunarskýrsla til stjórnar.
12. gr.

(1) Endurskoðandi skal árita ársreikning og greina þar frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Í árituninni skulu koma fram upplýsingar um að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður í samræmi við góða endurskoðunarvenju og í samræmi við gildandi lög og reglur og að í því sambandi hafi verið framkvæmdar þær endurskoðunaraðgerðir sem endurskoðandinn hefur talið nauðsynlegar. Telji endurskoðandi að skýrsla stjórnar hafi ekki að geyma þær upplýsingar sem ber að veita eða sé hún ekki í samræmi við ársreikning skal hann vekja á því athygli í áritun sinni og veita viðbótarupplýsingar sé þess kostur. Að öðru leyti getur endurskoðandi greint frá þeim atriðum í áritun sinni sem hann telur eðlilegt að komi fram í ársreikningi.

(2) Endurskoðandi skal undirrita og dagsetja áritun sína á þeim degi sem hann lýkur endurskoðunarvinnu sinni, þ.m.t. sérstökum endurskoðunaraðgerðum vegna atvika eftir uppgjörsdag og sérstökum endurskoðunaraðgerðum vegna atvika eftir að venjulegri endurskoðunarvinnu lýkur, fram til dagsetningar áritunar. Endurskoðandi skal ekki árita ársreikning fyrr en stjórn og framkvæmdastjóri hafa staðfest hann með undirritun sinni.
 

13. gr.

     Auk þess að árita ársreikning skal endurskoðandi að lokinni hefðbundinni endurskoðunarvinnu senda stjórn viðkomandi fjármálafyrirtækis sérstaka endurskoðunarskýrslu vegna ársuppgjörsins. Í slíkri skýrslu skal endurskoðandi, eftir því sem við á, gera grein fyrir eftirfarandi:

  1. Helstu þáttum þeirrar endurskoðunarvinnu sem framkvæmd hefur verið í tengslum við endurskoðun ársreiknings, þ.m.t. hvernig staðið hefur verið að könnun á útlánum.
  2. Umsögn endurskoðandans á framlögum í afskriftareikning, þar á meðal umsögn um sérstök framlög vegna stærstu lánþega.
  3. Helstu niðurstöðum endurskoðunarkannana á innra eftirliti stofnunarinnar og áliti endurskoðanda á gæðum innra eftirlitskerfis stofnunarinnar og starfsemi innri endurskoðunardeildar. Í þessu samhengi er eðlilegt að vísað sé til þeirra ábendinga og athugasemda sem endurskoðandi hefur skriflega komið á framfæri við stjórn og framkvæmdastjóra fyrr á árinu.
  4. Aðrar þær athugasemdir og ábendingar sem endurskoðandi telur ástæðu til að koma á framfæri við stjórn fyrirtækisins svo sem athugasemdum varðandi rekstur fjármálafyrirtækisins og varðveislu eigna og athugasemdum vegna áhættustýringar stofnunar í tengslum við t.d útlánaáhættu, gengisáhættu eða vaxtaáhættu.

 

Fara efst á síðuna ⇑