Skattalagasafn ríkisskattstjóra 29.3.2024 01:39:37

nr. 532/2003, kafli 4 (slóð: www.skattalagasafn.is?ann=532.2003.4)
Ξ Valmynd

IV. kafli
Framkvæmd og umfang endurskoðunar.
6. gr.

     Endurskoðun skal framkvæma í samræmi við góða endurskoðunarvenju. Með þessu er átt við að endurskoðað sé með viðurkenndum aðferðum sem hæfir og samviskusamir endurskoðendur nota. Meginþættir í framkvæmd endurskoðunar eru sem hér segir:

  1. Könnun á bókhaldskerfum, þ.m.t. tengdum tölvukerfum, bókhaldsskipulagi og skipulagi annarra starfsþátta með tilliti til áreiðanleika þeirra bókhaldskerfa sem í notkun eru og með tilliti til innra eftirlits.
  2. Athuganir og söfnun gagna til að staðfesta réttmæti einstakra liða sem fram koma í ársreikningi. Í þessu felst m.a. að endurskoðandi skal kanna hvaða reikningsútskriftir og staðfestingar eru sendar frá fyrirtækinu og meta á grundvelli góðrar endurskoðunarvenju hvort nauðsynlegt sé að framkvæma viðbótarkannanir. Jafnframt felst í þessu að endurskoðandi skal, við endurskoðun ársreiknings, framkvæma sérstakar kannanir á stöðu stærstu lánþega með tilliti til greiðslutrygginga og afskriftaþarfar. Endurskoðandi skal einnig afla yfirlýsingar stjórnar og framkvæmdastjóra um að allar eignir, skuldir, ábyrgðir, kvaðir og skuldbindingar komi fram í ársreikningi og að sömu aðilum sé ekki kunnugt um áhættu eða atvik, fyrir eða eftir lok reikningsárs, sem tengjast fjárhagsstöðu fyrirtækisins og kynnu síðar að leiða til umtalsverðrar skerðingar á þeirri fjárhagsstöðu sem fram kemur í ársreikningnum.
  3. Könnun á starfsemi fyrirtækisins, þróun þess og horfum, fyrst og fremst til að meta hættuna á því að eigið fé fyrirtækisins fari á næsta ári undir lögbundið lágmark.
     

7. gr.

(1) Endurskoðanda ber að ganga úr skugga um að sú lýsing á bókhaldskerfum, þ.m.t. tengdum tölvukerfum, og innra eftirliti sem hann byggir mat sitt á við ákvörðun um umfang og aðferðir við endurskoðun ársreiknings sé áreiðanleg. Það skal meðal annars gert með dreifikönnunum á færslum á hinum ýmsu sviðum bókhaldskerfisins og reglulegum könnunum á einstökum þáttum innra eftirlits.

(2) Leiði kannanir í ljós að bókhaldskerfi og innra eftirlit tryggja með viðunandi hætti að bókhald sé í góðu horfi getur það leitt til þess að umfangsmikil könnun einstakra bókhaldsliða sé ekki nauðsynleg. 
 

Fara efst á síðuna ⇑