VI. kafli
Skipulagning og skráning endurskoðunarvinnu.
10. gr.
(1) Árleg endurskoðunarvinna skal í meginatriðum vera fyrirfram skipulögð í endurskoðunaráætlun, sem er skrifleg lýsing á fyrirhuguðu umfangi og framgangi endurskoðunarinnar og þar sem á skipulegan hátt er farið yfir þá þætti í innra og ytra umhverfi fyrirtækisins sem áhrif geta haft á endurskoðunarvinnuna.
(2) Endurskoðun skal síðan framkvæmd í samræmi við endurskoðunarfyrirmæli sem er skrifleg lýsing á þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að framfylgja endurskoðunaráætlun.
(3) Umfang og niðurstöðu einstakra endurskoðunaraðgerða og heildarniðurstöður um einstaka liði ársreiknings skal skrá á vinnuskjöl. Vinnuskjölunum skal safnað saman og þau geymd á kerfisbundinn hátt.
11. gr.
Ábendingar og athugasemdir sem endurskoðandi vill koma á framfæri við stjórn og/eða framkvæmdastjóra skal bera fram skriflega og skal veita þessum aðilum hæfilegan frest til svara. Ef endurskoðanda þykir ástæða til skal hann gera tillögur til stjórnar fjármálafyrirtækis um endurbætur varðandi meðferð fjármuna, um breytingar á innra eftirliti eða innri endurskoðun og öðru því sem hann telur að geti verið til bóta í rekstri fyrirtækisins.